

Lamine Yamal, unga stórstjarnan hjá Barcelona, er sagður vera á leið að kaupa glæsilegt heimili sem áður var í eigu fyrrum varnarmanns liðsins, Gerard Piqué, og söngkonunnar Shakiru.
Samkvæmt spænska miðlinum El País hyggst 18 ára gamli leikmaðurinn kaupa húsið sem parið setti á sölu fyrir þremur árum eftir sambandsslit parsins.
Húsið, sem byggt var árið 2012, var upphaflega á söluskrá fyrir 12 milljónir punda, en verðmiðinn er nú kominn niður í um 9,5 milljónir punda eftir að eitt af þremur húsunum á lóðinni var selt.

Lóðin er um 3.800 fermetrar og samanstendur af aðalhúsi og tveimur minni byggingum. Í aðalhúsinu er meðal annars tennisvöllur, sundlaugar bæði úti og inni, ásamt hljóðveri sem Shakira notaði áður til upptöku á tónlist sinni.
Yamal, sem þénar um 325 þúsund pund á viku hjá Barcelona, hefur þegar keypt íbúðir fyrir foreldra sína og ömmu á síðustu mánuðum.
Nú virðist hann tilbúinn að fjárfesta í sinni eigin höll og er sagður ætla að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á eigninni.
Yamal hefur á unga aldri orðið lykilmaður í liði Barcelona og er einn besti leikmaður heims í dag.