

Fyrrverandi leikmaður Manchester United og Tottenham, Dimitar Berbatov, hefur í fyrsta sinn opinskátt sagt frá því þegar hann var numinn á brott af glæpamönnum aðeins 18 ára gamall.
Atvikið átti sér stað þegar hann lék með CSKA Sofia í heimalandi sínu, Búlgaríu, og hélt hann málinu leyndu í mörg ár jafnvel fyrir samherjum sínum hjá United.
Í Rio Ferdinand Presents hlaðvarpinu sagði Berbatov frá því að hann hefði verið leiddur inn í gildru af samherja sínum. „Hann sagði mér að koma með sér að hitta vin sinn, svo ég fór með. Við enduðum á veitingastað þar sem nokkrir stórir menn sátu á bak við einn mann, það var greinilegt að þeir voru ekki venjulegir gestir,“ sagði hann.
Mennirnir, sem sagðir voru tengdir þekktum mafíósa, Georgi Iliev, sögðu Berbatov að þeir vildu fá hann til að skipta um lið. „Þeir sögðu mér að þeir ætluðu að sjá um það. Ég sat þarna í tvo eða þrjá tíma, mjög hræddur og vissi ekki hvað myndi gerast.“
Að lokum fékk hann að hringja í föður sinn, og eftir samtöl milli stóru yfirmannanna fékk hann að fara heim. „Ég hugsaði að þetta væri búið, ég myndi annaðhvort verða barinn eða hverfa. Ég var 18 ára og dauðhræddur,“ sagði Berbatov.
Atvikið var fyrst opinberað í bók árið 2007, en Berbatov hefur nú sagt söguna í eigin orðum í hlaðvarpi Rio Ferdinand.