

Federico Chiesa, framherji Liverpool, segir að algjör þögn hafi ríkt í búningsklefanum eftir 3–2 tap liðsins gegn Brentford um helgina. Hann segir leikmennina vita sjálfir hvað þarf að laga og treystir því að liðið muni snúa taflinu við fljótlega.
„Enginn sagði neitt,“ sagði ítalski landsliðsmaðurinn.
„Stundum þarf maður ekki að tala. Allir vita hvað er í gangi. Við þurfum að hugsa um það sem við getum gert betur. Þögnin sýndi að allir vilja breyta stöðunni.“
Liverpool hefur tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum í öllum keppnum en mætir Crystal Palace í kvöld í deildarbikarnum. Palace hefur þegar unnið Liverpool tvisvar á tímabilinu.
Chiesa, sem kom frá Juventus síðasta sumar fyrir 10 milljónir punda, lék aðeins 104 mínútur í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en hefur fengið stærra hlutverk í vetur.
Hann viðurkennir að hann hafi ekki verið tilbúinn í byrjunarliðshlutverk í fyrra. „Ég var hvorki líkamlega né andlega tilbúinn,“ sagði hann.
„Ég skildi það að ég spilaði lítið, ég var einfaldlega ekki á sama hraða og hinir. Núna er ég í betra formi og tilbúinn að hjálpa liðinu.“