Henrikh Mkhitaryan, fyrrverandi leikmaður Manchester United, opinberar nú í nýrri bók að José Mourinho hafi sent honum skilaboð á hverju kvöldi þar sem hann bað hann um að yfirgefa félagið eftir hatramman árekstur þeirra á æfingasvæðinu hjá United.
Mourinho tók við Manchester United árið 2016 og fékk Mkhitaryan til félagsins frá Borussia Dortmund sama ár. Þrátt fyrir að vinna Evrópudeildina og enda í öðru sæti í deildinni, tókst Portúgalanum ekki að koma félaginu aftur á toppinn.
Í bókinni segir Mkhitaryan frá miklum ágreiningi við Mourinho. „Ég sagði honum að hann hefði gagnrýnt mig í eitt og hálft ár, alveg frá því ég kom,“ skrifar hann.
„Hann kallaði mig drasl og ég missti mig sagði honum að hann væri draslið.“
Mkhitaryan segir að Mourinho hafi í kjölfarið sagt: „Farðu héðan, ég vil aldrei sjá þig aftur.“
Eftir það þagði Mourinho á æfingum, en sendi honum WhatsApp-skilaboð á hverju kvöldi: „Miki, farðu, vinsamlegast.“
„Ég svaraði alltaf eins: Ég fer ef rétta liðið kemur, annars bíð ég fram á sumar.“
Síðar breyttust skilaboðin: „Miki, farðu svo ég geti fengið Alexis Sanchez.“ Þá var Mino Raiola þegar farinn að vinna að skiptidílnum við Arsenal.
„Ég svaraði: Ég fer ekki bara til að hjálpa þér. Ef þú vilt ræða þetta, hafðu samband við Mino.“