Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Það er ekki ósennilegt að Albert Guðmundsson og Orri Steinn Óskarsson verði fremstu menn í leik Íslands gegn Ísrael á morgun. Það er ekki hægt að segja að þeir hafi verið sjóðheitir fyrir framan markið undanfarnar vikur.
Meira
Tveir sólarhringar í stóru stundina – Þrjár útgáfur af hugsanlegu byrjunarliði Íslands
Þó Albert sé að eiga stórgott tímabil með ítalska liðinu Genoa hefur hægst á markaskorun hans undanfarið. Nánar til tekið er sóknarmaðurinn aðeins með eitt mark í síðustu átta leikjum, það kom gegn Monza fyrr í þessum mánuði.
Albert er þó með tólf mörk og fjórar stoðsendingar í heild á leiktíðinni með Genoa og því væntanlega fullur sjálfstrausts.
Orri, sem hefur verið að koma inn í lið FC Kaupmannahafnar undanfarið eftir að hafa verið settur út í kuldann þar áður, hefur þá ekki skorað síðan í nóvember. Það var með landsliðinu gegn Slóvakíu, en síðasta mark hans fyrir FCK kom í október.
Það er vonandi að Albert og Orri reimi á sig markaskóna gegn Ísrael. Um er að ræða leik í undanúrslitum umspils um sæti á EM og hefst hann klukkan 19:45 annað kvöld.