Breski auðkýfingurinn og Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe hefur, ásamt INEOS samsteypunni, lagt fram endurskoðað kauptilboð í enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United. Sky Sports greindi fyrst frá.
Ratcliffe hafði, líkt og hópur katarska fjárfesta, fengið leyfi til þess að taka sér lengri tíma í að setja fram endurskoðað kauptilboð í Manchester United en formlegur frestur til þess að leggja fram kauptilboð í félagið átti að renna út í gærkvöldi.
Nú hefur Ratcliffe, ásamt INEOS samsteypunni, skilað inn kauptilboði en í gærkvöldi hafði borist tilboð frá Elliott Investment Management til þess að kaupa minnihluta í félaginu.
Jim Ratcliffe ættu flestir Íslendingar að þekkja en hann var mikið í fréttum hér á landi eftir að hafa fest kaup á jörðum og veiðiréttindum á Norðausturlandi. Jarðir sem Ratcliffe á hlut í þekja ríflega 100 þúsund hektara sem eru um 1 prósent af öllu landsvæði Íslands.