Það var svo sannarlega ekkert grín að spila við harðhausinn Duncan Ferguson sem er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Everton.
Ferguson er skoskur og var gríðarlega harður í horn að taka og mætti eitt sinn Jimmy Bullard er sá síðarnefndi lék með Wigan.
Bullard gerði mistök í leik árið 2006 gegn einmitt Everton er hann óskaði eftir því að fá að hitta Ferguson í leikmannagöngunum eftir lokaflautið.
Bullard var ósáttur með hegðun Ferguson á velli en hann hafði meitt Paul Scharner, liðsfélaga Bullard, inni í vítateig eftir hornspyrnu.
Það varð til þess að Bullard missti hausinn og í raun hótaði harðhausnum sem mætti síðar ber að ofan tilbúinn í slagsmál við búningsklefana.
,,David Moyes ákvað að skipta Ferguson inná þegar tíu mínútur voru eftir og þeir fengu horn. Við komum boltanum burt en það eina sem ég heyri er að miðvörðurinn okkar liggur eftir í grasinu,“ sagði Bullard.
,,Ferguson hleypur burt brosandi og ég áttaði mig um leið á að hann hefði gert eitthvað af sér. Ég horfi í kringum mig og sé Lee McCullough sem er Skoti í okkar liði og James McFadden sem er skoskur og spyr þá hvort allt sé í lagi.“
,,Ég fór beint í Dunc en þurfti að passa mig, muniði það að hann hafði verið á vellinum í fimm eða tíu mínútur og fékk svo beint rautt spjald.“
,,Þegar hann gengur af veli þá byrja ég að ofhugsa og segi við hann: ‘Ég sé þig í leikmannagöngunum Dunc, ég verð þar.’
,,McCullough sagði við mig um leið að ég væri að gera mistök. Ferguson svaraði, hann kallaði mig litlan mann og beið svo eftir mér ber að ofan í göngunum.“
,,Síðar tekur hann mig hálstaki og heldur mér uppi, allir strákarnir voru farnir inn í klefa!“