Sarina Wiegman, þjálfari enska kvennalandsliðsins, er ekki mikið að stressa sig á tapi gegn Ástralíu í vináttulandsleik í gær.
Evrópumeistararnir töpuðu 2-0 fyrir Ástralíu og voru ekki sannfærandi. Sam Kerr og Charlotte Grant gerðu mörkin.
„Ég hef ekki áhyggjur. Við vitum að við verðum að vera upp á okkar besta þegar kemur að HM. Við fáum viðvaranir í öllum leikjum, líka á móti Brasilíu í Finalissima,“ segir Wiegman, en England sigraði Finalissima á dögunum. Þar keppa Evrópumeistarar við Suður-Ameríkumeistara.
„Við vitum hvert við viljum fara og hvað við þurfum að gera. Það eru 100 dagar í mót og við erum mjög spenntar,“ bætti Wiegman við.
England var búið að vinna 30 leiki í röð fyrir leikinn í gær.
„Ég hefði elskað að vinna 31. sigurinn í röð en stundum sigrar þú og stundum tapar þú.“