Rúrik Gíslason sérfræðingur Viaplay og fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu var mættur í beina útsendingu í gær að fara yfir leiki í Meistaradeild Evrópu.
Rúrik og Kári Árnason fóru vel og ítarlega yfir leik Manchester City og FC Bayern þar sem lærisveinar Pep Guardiola unnu 3-0 sigur.
Rúrik sem er uppalinn HK-ingur var mættur með merki félagsins í jakka sínum. Fáir tóku eftir þessu en HK vann frækinn 4-3 sigur á Breiðablik á mánudag.
Sigurinn var einn sá óvæntasti í efstu deild í nokkur ár en HK eru nýliðar í Bestu deildinni en Blikar eru ríkjandi meistarar.
„Þetta var HK, lið fólksins frammistaða,“ sagði Rúrik á Viaplay í gær.
Flest augu voru á Manchester-borg þar sem heimamenn í Manchester City tóku á móti Bayern Munchen í gær.
City byrjaði betur og á 27. mínútu komst liðið yfir. Þá fékk Rodri nóg af plássi fyrir utan vítateig Bæjara og átti svo draumaskot upp í hornið fjær. Yann Sommer áttu ekki möguleika í marki gestanna.
Heimamenn voru mun betri í seinni hálfleik og juku þeir forskotið á 70. mínútu. Þá gerði Dayot Upamecano, sem átti skelfilegan leik í kvöld, slæm mistök, boltinn endaði hjá Erling Braut Haaland sem setti boltann glæsilega á kollinn á Bernardo Silva sem skoraði.
Skömmu síðar gerði Haaland sjálfur svo þriðja mark City með frábærri afgreiðslu.
Lokatölur 3-0 fyrir City sem er í frábærri stöðu fyrir seinni leikinn í Þýskalandi í næstu viku.