fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Jóhann segir braskara bera ábyrgð á sjálfsvígum: „Þekkist hvergi annars staðar á byggðu bóli“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 19. nóvember 2018 15:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann L. Helgason húsasmíðameistari segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu að hann telur ljóst hver orsök sjálfsvíga, fíkniefnaneyslu og lyfjaát Íslendinga sé. Það sé bröskurum og húsnæðiskreppunni að kenna.

„Mikið er talað og skrifað um hinn stóra hóp eiturlyfjaneytenda á Íslandi og það með réttu. Á milli sex og sjö hundruð eru á biðlista að Vogi. Sjálfsvíg eru einnig mjög algeng á þessari eyju allsnægtanna. Eiga ekki Íslendingar einnig Evrópumet í lyfjaáti? Þetta allt saman liggur fyrir og hefur verið ljóst lengi. Fyrst við Íslendingar eigum Evrópumet í lyfjaáti má þá ekki ætla að við eigum einnig Evrópumet í fjölda eiturlyfjaneytenda og jafnvel sjálfsvígum, miðað við höfðatölu auðvitað? Svo má ekki gleyma öðru ofbeldi, t.d. heimilisofbeldi, misnotkun á börnum og nauðgunum,“ segir Jóhann.

Hann segir þetta augljóst. „Það hlýtur að vera eitthvað mikið að, vanlíðan þessarar þjóðar er vel sýnileg og virðist fara versnandi. Allt hefur sínar skýringar, við sjáum afleiðingarnar og það þarf ekki að grafast fyrir um þær, en hver er þá rót vandans?“

Hann segir hvort þá væri ekki eðlilegt að líta nágrannaríki til að finna rót þessa vanda. „Þá spyr maður sig hvort væri ekki skynsamlegt að gera nákvæma samanburðarkönnun við okkar nánustu grannþjóðir á þessum áðurnefndu flokkum til að hafa það svart á hvítu hvar við Íslendingar stöndum í samanburði við hin Norðurlandaríkin og síðan leita að orsökinni. Það er nefnilega ekkert rætt um það á Íslandi hverjar helstu ástæðurnar fyrir ógæfunni eru. Það er eins og það sé hreinlega á bannlista að grafast opinberlega fyrir um það. Það er nefnilega ekki nóg að hlúa að köldu barninu sem var bjargað úr brunninum ef brunnurinn verður áfram opinn. Við skulum reyna að sjá fyrir okkur íslenskt þjóðfélag í dag og helstu galla þess,“ segir Jóhann.

Leigt með okurvöxtum

Þar sé helst að nefna stöðuna á leigumarkaðnum. „Fyrir það fyrsta er það húsnæðisvandinn. Sama hvort talað er um eignarhúsnæði eða leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, en það er svæðið þar sem allt brjálæðið er. Úti á landsbyggðinni er allt annað þjóðfélag. Þar er einfaldleikinn í fyrirrúmi, atvinna nægjanleg, húsnæði á kristilegu verði og eldra húsnæði oft á tíðum mjög ódýrt. Skólar á flestum stigum. Ólíku saman að jafna,“ segir Jóhann.

Hann segir stöðuna vera stjórnvöldum og bröskurum að kenna. „En aftur að húsnæðiskreppunni í Reykjavík. Það má segja að húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu séu í og hafi verið haldið í gíslingu braskara sem ráða lögum og lofum, bæði hvað varðar eignarhúsnæði og leiguhúsnæði. Um og eftir hrun fengu ákveðnir aðilar sérstakan afslátt af húsnæðiskaupum sem Íbúðalánasjóður og bankar voru búnir að leysa til sín frá fólki sem missti sitt húsnæði í kreppunni. Þetta húsnæði hefur verið leigt með okurvöxtum síðan,“ segir Jóhann.

Hann bendir á Danmörk til samanburðar. „Í Danmörku eru lög, að mig minnir bæði fyrir íbúðarkaupendur og leigjendur, sem segja að afborgun af lánum og húsaleiga megi ekki vera hærri en 22% af launum manna fyrir skatt. Okurvextir og verðtrygging á íbúðarlánum eru hryllileg og alveg sérstakt íslensk fyrirbæri, þar sem höfuðstóll hækkar jafnt og þétt þrátt fyrir mánaðarlegar afborganir af lánum. Þekkist hvergi annars staðar á byggðu bóli. Glæpsamlegt fyrirbæri,“ segir Jóhann.

Fólk verður hrætt og óöruggt

Hann segir óvissu sem þessu fylgir hafa gífurlega slæm áhrif á geðheilsu fólks. „Er þetta ekki hinn stóri vandi þessarar þjóðar þar sem stærsta grunnþörf mannsins, þ.e.a.s. húsnæði, er notuð sem peningaleg mjaltavél braskara með þegjandi samþykki löggjafar- og framkvæmdavalds? Það er ekkert til verra fyrir fólk og þá sérstaklega börn en að alast upp við eilífar og daglegar áhyggjur og umræður yfir matardiskunum af peningjaáhyggjum líðandi stundar, hvort það séu til peningur fyrir hinu og þessu eftir að búið er að borga af síhækkandi lánum eða greiða húsaleiguna um næstu mánaðamót. Eða hvenær þarf að flytja næst ef húsnæði finnst og hvað mun það þá kosta. Eilífir flutningar, nýir skólar og mjög oft vont húsnæði,“ segir Jóhann.

Hann segir að stjórnvöld verði að átta sig á þessu. „Svona ástand er mjög alvarlegt, skapar óöryggi og ótta hjá fólki og hjá börnum sem alast upp við svona aðstæður og umræður; þau verða hrædd og óörugg, inn í þau síast taugaveiklað hugarfar og hræðsla sem þau munu þjást af það sem eftir lifir. Það mun mikið lagast í íslensku þjóðfélagi hvað þetta varðar þegar stjórnvöld gera sér grein fyrir því að það þarf að gjörbylta íslensku efnahagslífi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga