fbpx
Sunnudagur 05.maí 2024
Fréttir

Eigendur Atorku Group fá greitt og slíta félaginu

Búið að selja síðustu eign Atorku – 26 ára sögu félagsins lýkur um áramótin

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 13. september 2016 10:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allar eignir Atorku Group hf. hafa verið seldar og gert er ráð fyrir að eignarhaldsfélaginu verði slitið fyrir áramót. Hluthafar þess tóku ákvörðun um félagsslitin í júlí síðastliðnum og verður söluandvirði síðustu eignar Atorku greitt út við slitin. Þriggja manna stjórn félagsins var þá kjörin í skilanefnd þess. Meðlimur hennar segir kröfuhafanna sem tóku félagið yfir í ársbyrjun 2010 hafa náð „ásættanlegum endurheimtum“. Sögu Atorku Group, sem var um árabil eitt af umsvifamestu fjárfestingarfélögum landsins og nær aftur til ársins 1990, lýkur því á næstu mánuðum.

„Nú er búið að selja allar eignirnar og ferlið farið af stað sem gengur út á að greiða hluthöfum þá peninga sem þarna sitja eftir og slíta félaginu. Gangi allt eins og að er stefnt mun þetta félag tilheyra fortíðinni um áramótin,“ segir Einar Páll Tamimi, lögmaður og meðlimur í skilanefnd Atorku Group.

Lögmaðurinn Einar Páll Tamimi segir útlit fyrir að Atorku Group verði slitið um næstu áramót.
Situr í skilanefndinni Lögmaðurinn Einar Páll Tamimi segir útlit fyrir að Atorku Group verði slitið um næstu áramót.

„Ásættanlegt“

Einar Páll hefur ásamt Halldóri Bjarkari Lúðvígssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs Arion banka, setið í stjórn Atorku síðan kröfuhafarnir eignuðust allt hlutafé félagsins. Eigendahópur þess skiptist gróflega í þrjár blokkir eða Íslandsbanka/Glitni, hóps sem telur yfir tuttugu lífeyrissjóði, og aðra hluthafa og þar á meðal Arion banka. Einar sat í stjórninni fyrir hönd lífeyrissjóðanna, Halldór fyrir Arion banka og Snæbjörn Sigurðsson, starfsmaður Íslandsbanka, fyrir sinn vinnustað.

Atorka hefur síðustu sex ár gegnt hlutverki eignarhaldsfélags sem hefur séð um varðveislu og ráðstöfun á eignasafni þess. Síðasta eign félagsins, hlutabréf í alþjóðlega flutningafyrirtækinu InterBulk, sem þáverandi eigendur Atorku keyptu fyrst í vorið 2006, var seld í apríl síðastliðnum.

„Það var síðasta eignin sem félagið átti og var þyngst í sölu. Við höfum greitt þetta út eftir því sem eignir hafa fallið til. Miðað við mörg önnur félög eru menn að ná ásættanlegum endurheimtum miðað við hvernig eiginfjárstaðan var á félaginu þegar kröfuhafar tóku það yfir,“ segir Einar Páll.

Þorsteinn Vilhelmsson, fyrrverandi stjórnarformaður Atorku Group, átti um tíma um 40% í fyrirtækinu.
Var stærsti hluthafinn Þorsteinn Vilhelmsson, fyrrverandi stjórnarformaður Atorku Group, átti um tíma um 40% í fyrirtækinu.

Mynd: Mynd: 365

Metið á 37 milljarða

Atorka Group var um árabil alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem keypti í fyrirtækjum sem voru talin hafa sérstök tækifæri til vaxtar á heimsmarkaði. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands en það hét áður Íslenski hlutabréfasjóðurinn og var stofnað árið 1990 af Landsbréfum, dótturfélagi Landsbankans. Tólf árum síðar samþykktu hluthafar þess að breyta áherslum í rekstri og fór þá Þorsteinn Vilhelmsson, fyrrverandi stjórnarformaður Atorku Group og síðar stærsti hluthafi fyrirtækisins, inn í eigendahópinn. Þorsteinn hafði nokkrum árum áður selt hlut sinn í útgerðarfyrirtækinu Samherja sem hann keypti árið 1983 ásamt bróður sínum Kristjáni Vilhelmssyni, núverandi framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja, og Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra þess. Nafni félagsins var í kjölfarið breytt og tveimur árum síðar yfirtók Atorka Sæplast hf. sem lagði grunninn að plastframleiðslufyrirtækinu Promens. Atorka jók í kjölfarið áherslu sína á fjárfestingar erlendis.

Hlutabréf Atorku náðu hæstu hæðum í október 2007 þegar verðmæti þeirra námu 37 milljörðum króna. Renewable Energy Resources ehf. (RER), sem hélt utan um 41% eignarhlut Atorku í Geysi Green Energy og allt hlutafé í verktakafyrirtækinu Björgun, og Promens voru þá verðmætustu eignir félagsins. Þá átti Atorka einnig alla hluti í Jarðborunum sem það seldi svo til Geysis Green Energy síðar sama ár. Kaupverðið nam alls 14,3 milljörðum og innleysti Atorka alls 11 milljarða króna hagnað af sölunni. Félagið var þá að stærstum hluta í eigu Þorsteins Vilhelmssonar og Magnúsar Jónssonar, þáverandi forstjóra Atorku Group, og annarra lykilstjórnenda fyrirtækisins. Greiddu hluthafar Atorku sér alls um 4,4 milljarða króna í arð vegna frammistöðu þess á árunum 2005 til 2007.

Gangi allt eins og að er stefnt mun þetta félag tilheyra fortíðinni um áramótin.

Misstu allt

Efnahagshrunið lék Atorku grátt og fjárhagsstaðan gjörbreyttist í kjölfar falls íslenska bankakerfisins. Þann 13. október 2008 óskaði félagið eftir því að bréf þess yrðu tekin úr viðskiptum í Kauphöll Íslands. Tap Atorku á fyrri helmingi þess árs hafði þá numið 8,7 milljörðum króna og virði skráðra eigna félagsins lækkað í verði. Rúmum fjórum mánuðum áður en tilkynning um afkomuna var birt tók aðalfundur félagsins ákvörðun um 2,1 milljarðs króna arðgreiðslu til hluthafa.

Magnús Jónsson lét af störfum sem forstjóri Atorku í september 2009. Fyrirtækið hafði þá fengið áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar á meðan unnið yrði áfram að fjárhagslegri endurskipulagningu þess. Þremur mánuðum síðar þurftu eigendurnir að gangast undir nauðasamning við kröfuhafa sína sem tóku félagið á endanum yfir í ársbyrjun 2010. Lýstar kröfur námu þá 56 milljörðum króna. Samningurinn fól í sér að hlutafé félagsins var fært niður að fullu, og misstu þáverandi eigendur Atorku þá allt sitt í fyrirtækinu, og kröfunum var breytt í nýtt hlutafé. Stóru viðskiptabankarnir þrír og skilanefnd Glitnis eignuðust þá 70% hlut í Atorku. Í kjölfarið eignaðist fjárfestingarfélagið Horn, dótturfélag Landsbankans, allt hlutafé Atorku í Promens þegar kröfuhafarnir fengu á móti eign bankans í Atorku. Eignir félagsins voru þá allar erlendis en kröfuhafarnir að mestu íslenskir.

Fyrrverandi eigendur Atorku voru mjög ósáttir við hvernig staðið var að yfirtökunni. Vildu þeir meina að ekkert tillit hefði verið tekið til framtíðarvirðis eignasafns félagsins. Fréttastofa Stöðvar 2 greindi í kjölfarið frá því að skilanefnd Landsbankans hefði þurft að afskrifa rúmlega sex milljarða króna vegna lánveitinga til félaga í eigu fyrrverandi eigenda og stjórnenda Atorku sem höfðu þá öll verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Íslandsbanki stærstur

Samkvæmt fréttum frá desember 2009 voru eignir Atorku þá metnar á 104 milljarða króna. Skuldirnar námu hins vegar 138 milljörðum og eigið fé félagsins því neikvætt um 34 milljarða. Í nýjasta ársreikningi Atorku, sem er fyrir árið 2014, eru eignir þess metnar á rúma 1,2 milljarða króna en skuldirnar nema 142 milljónum. Árið áður átti félagið eignir upp á rúma fimm milljarða en eins og Einar Páll segir þá hafa stjórnendur þess síðustu ár unnið að losun eigna. Til að mynda var í júlí 2012 greint frá því að fimm íslenskir lífeyrissjóðir hefðu keypt erlendar eignir af Atorku fyrir 2,9 milljarða króna.

Íslandsbanki var stærsti eigandi Atorku í árslok 2014 með 27% hlut. LBI átti þá 13%, Glitnir hf. 9,6% og Arion banki 6,7%. Fjöldi hluthafa í félaginu var þá 57.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Skip Eimskips missti fimmtán gáma í sjóinn austan við Vestmannaeyjar og laskaðist – „Mannleg mistök“

Skip Eimskips missti fimmtán gáma í sjóinn austan við Vestmannaeyjar og laskaðist – „Mannleg mistök“
Fréttir
Í gær

Þetta hafði þjóðin að segja um kappræðurnar í kvöld – „Hjálp. Hjálpið mér. Ég á svo erfitt með þetta. Ég get samt ekki slökkt“

Þetta hafði þjóðin að segja um kappræðurnar í kvöld – „Hjálp. Hjálpið mér. Ég á svo erfitt með þetta. Ég get samt ekki slökkt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varð fyrir barðinu á svikara og þarf að borga Landsbankanum 300 þúsund krónur

Varð fyrir barðinu á svikara og þarf að borga Landsbankanum 300 þúsund krónur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eftir hörmulegt slys á Íslandi hefur hann þetta að segja um Landspítalann og starfsfólk hans

Eftir hörmulegt slys á Íslandi hefur hann þetta að segja um Landspítalann og starfsfólk hans
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bönkuðu upp á hjá manninum sem braut gegn dóttur hans – Það endaði með dómsmáli

Bönkuðu upp á hjá manninum sem braut gegn dóttur hans – Það endaði með dómsmáli
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum