Eftir tvo tíma ertu komin til Edinborgar!

Ævintýrakastalar, unaðslegt viskí, ódýr matur og aðeins tveggja tíma ferðalag til nágrannaborgar okkar í Skotlandi.

Margrét Gústavsdóttir skrifar
Mánudaginn 25. desember 2017 12:00

Að koma til Edinborgar er í hugum margra eins og að ferðast til ævintýralands. Borgin státar af sögufrægum byggingum sem margar minna á senur úr myndunum um Harry Potter en það var einmitt í Edinborg sem höfundurinn, J.K. Rowling, skrifaði fyrstu bókina um þennan heimsfræga galdrastrák. Og þetta er í raun töfrum líkast því það tekur aðeins tvo tíma að fljúga þangað frá Keflavík og tímamismunurinn er enginn. Sem sagt – næstum því eins og að fara til Akureyrar, bara örlítið lengra.

María Erlendsdóttir flutti ásamt syni sínum til Edinborgar fyrir þremur árum og unir hag sínum vel í borginni.
Elskar Edinborg María Erlendsdóttir flutti ásamt syni sínum til Edinborgar fyrir þremur árum og unir hag sínum vel í borginni.

Í Edinborg búa um 450 þúsund manns sem hafa getið sér gott orð fyrir vingjarnleika í garð ferðamanna. Þar er jafnframt fyrirtaks úrval af afþreyingu; ótal framúrskarandi veitingastaðir, lifandi tónlist ómar af börum á hverju einasta kvöldi og fyrir þau sem kunna að meta viskí þá er ferð til Skotlands augljóslega mjög góð hugmynd!

Í miðri borginni stendur Edinborgarkastali sem er helsta kennileiti borgarinnar. Kastalinn laðar að fjölda ferðamanna hvern einasta dag en að sögn Maríu Erlendsdóttur, sem hefur búið í Edinborg síðustu þrjú árin, er betra að sleppa því að fara inn í hann.

„Flestir sem hingað koma vilja kíkja í Edinborgarkastalann en ég mæli ekki endilega með því. Hann er vissulega mjög fallegur að utan en þegar maður kemur inn þá er þar allt krökkt af ferðamönnum og verslunum. Svo er dýrt að borga sig inn. Frekar hvet ég ferðalanga til að virða bara kastalann fyrir sér utan frá og kíkja heldur á Holyrood Palace-kastalann í hinum enda borgarinnar. Elísabet Bretadrottning býr þar í einn mánuð á hverju ári svo hann er alveg ekta en ekki bara safn. Alvöru antíkhúsgögn og þess háttar sem gaman er að virða fyrir sér,“ útskýrir María.

„Elísabet Bretadrottning býr þar í einn mánuð á hverju ári svo hann er alveg ekta en ekki bara safn.“
Holyrood-kastalinn „Elísabet Bretadrottning býr þar í einn mánuð á hverju ári svo hann er alveg ekta en ekki bara safn.“

Flugfarið fljótt að borga sig upp

Þar sem pundið er sérlega hagstætt fyrir Íslendinga um þessar mundir ætti flugmiðinn að vera fljótur að borga sig upp, þá sérstaklega ef fólk hyggst endurnýja í fataskápnum eða festa kaup á öðrum varningi. Samkvæmt ferðavefnum Dohop.is er ódýrasta farið fram og til baka á 23.997 krónur en þá er flogið með Wow Air. Flugtíminn er þægilegur; lagt af stað klukkan 7.00 á föstudegi og flogið heim klukkan 10.55 á mánudagsmorgni.
Þegar til borgarinnar er komið tekur svo aðeins 20 mínútur að ferðast með leigubíl í miðborgina og farið kostar 20 til 25 pund, eða um 3.500 krónur.
„Matur er líka mikið ódýrari í Edinborg en heima svo ef fólk vill gera vel við sig þá þarf það ekki að kosta nema um 5.000 krónur kannski; matur og drykkir á góðum veitingastað,“ segir María.

María mælir með:

Undraheimar tækninnar fyrir nerði á öllum aldri!
Frá Camera Obscura Undraheimar tækninnar fyrir nerði á öllum aldri!

Mynd: 2012 Getty Images

CAMERA OBSCURA

Ævintýraheimar tækninnar eru í Camera Obscura tæknigarðinum þar sem leikið er með skilningarvitin. „Þetta er æðislegur staður, bæði fyrir tækninörda og krakka. Sonur minn, tólf ára, elskar þennan stað.“

„Ég veit fátt yndislegra en að fara upp á Calton Hill og virða fyrir mér útsýnið yfir þessa dásamlegu borg. Á sumrin er einnig mjög ljúft að skreppa þangað í pikknikk í góðu veðri. Kannski með vinum, eða bara til að flatmaga og lesa bók.“
Calton Hill „Ég veit fátt yndislegra en að fara upp á Calton Hill og virða fyrir mér útsýnið yfir þessa dásamlegu borg. Á sumrin er einnig mjög ljúft að skreppa þangað í pikknikk í góðu veðri. Kannski með vinum, eða bara til að flatmaga og lesa bók.“

Mynd: Alan Copson © 2012

CALTON HILL

„Ég veit fátt yndislegra en að fara upp á Calton Hill og virða fyrir mér útsýnið yfir þessa dásamlegu borg. Á sumrin er einnig mjög ljúft að skreppa þangað í pikknikk í góðu veðri. Kannski með vinum, eða bara til að flatmaga og lesa bók.“

Ef þig dreymir um að gufa upp í viskí þá er Edinborg svo sannarlega réttur áfangastaður.
Vagga viskísins Ef þig dreymir um að gufa upp í viskí þá er Edinborg svo sannarlega réttur áfangastaður.

Mynd: FUTURE LIGHT

VEITINGASTAÐIR OG BARIR

WHISKY ROOMS

„Ég elska þennan veitingastað! Lifandi tónlist á hverju kvöldi og yfirleitt alveg afburða gott tónlistarfólk. Þarna er einnig hægt að prófa að smakka alls konar tegundir af viskíi en staðurinn státar af alveg einstaklega góðu úrvali.“

OXFORD BAR

„Þau sem kannast við Inspector Rebus gætu átt von á góðu því Ian Rankin er fastagestur á þessum stað ásamt fleiri eldri herramönnum. Þessi krá er alveg af gamla skólanum, hnyttnir barþjónar, lifandi arineldur, frábært úrval af góðum drykkjum og síðast en ekki síst alveg einstök „original“ stemning.“

THE GARDENER’S COTTAGE

„Algjörlega meiriháttar veitingastaður. Það er eins og maður sé kominn út í sveit en er samt í miðri borginni. Upplifunin er eins og að vera í litlu koti, maður situr til borðs með öðrum gestum og borðar dásamlegan mat sem er ólýsanlega ferskur og góður. Þetta er uppáhaldsveitingastaðurinn minn í Edinborg.“

GISTING

Motel One: Snyrtilegt og vinsælt hótel alveg í miðbænum. Frábær verð og staðsetning. Verð frá 8.500 fyrir nóttina (m.v. helgi í desember og janúar).

Nira Caledonia Boutique Hotel: Fimm stjörnu hótel sem liggur í 10 mínútna göngufjarlægð frá miðbænum. Verð fyrir nóttina er á bilinu 12–15.000 krónur (m.v. helgi í desember og janúar).

Ben Crugahan Guesthouse: 15 mínútna ganga frá Princess Street. Snyrtilegt gistiheimili með nýstárlegum herbergjum. Frítt sérrí inn á herbergi og viskí út á hafragrautinn á morgnana. Vel tekið á móti öllum sem hafa sérþarfir, til dæmis þeim sem hafa glúteinóþol eða eru veganistar. Einstaklega vingjarnlegir vertar. Verð um 11.000 krónur (m.v. helgi í desember og janúar).

INNKAUPAFERÐIR

Í Edinborg eru ekki margar góðar verslunarmiðstöðvar en á Princess Street er aragrúi af góðum verslunum og verðin hagstæð.
Verslunargatan Í Edinborg eru ekki margar góðar verslunarmiðstöðvar en á Princess Street er aragrúi af góðum verslunum og verðin hagstæð.

Mynd: George Clerk

VERSLUNARGATAN PRINCESS STREET

„Það er engin góð verslunarmiðstöð í borginni enn sem komið er, en á Princess Street finnur fólk allar þessar helstu verslanir á borð við HM, Primark, Zöru, Clarks og þess háttar. Þá gæti einnig verið sniðugt að láta senda vörur af netverslunum á hótel eða gististað í samráði við starfsfólkið þar.“

Góðir punktar

• Edinborg er að verða mjög vinsæll áfangastaður evrópskra ferðamanna sem vilja skella sér í helgarferðir og því um að gera að undirbúa helgina vel með því að bóka fyrirfram á veitingastöðum. Það er hægt að gera á netinu, á heimasíðum veitingastaðanna, eða einfaldlega með því að slá á þráðinn.
• Meðalverð á bjór er um fjögur pund og á vínglasi um sjö pund.
• Verðið á pítsu er í kringum 18 pund.
• Að gefa þjórfé er ekki skylda en það er reiknað með því að fólk gefi um 10 prósent af heildarreikningi. Þessu er yfirleitt bætt á reikninginn ef fólk er saman í hóp og það er óskrifuð regla að samþykkja þessa viðbót.
• Leigubíla þarf ekki að tipsa en oft er rúnnað upp að næsta pundi. María leggur til að fólk noti City Cabs í stað Uber. Þótt Uber geri út í Edinborg eru heimamennirnir á City Cabs fljótari að rata og öruggari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af