Tilvera Erin Patterson hefur kúvenst undanfarnar vikur. Þessi fimmtuga tveggja barna móðir sem áður var þekkt fyrir að vera auðug og gjaldmild fjölskyldumóðir hefur nú fengið á sig stimpil sem enginn kærir sig um – kaldrifjaður morðingi. Hún hefur nú verið sakfelld fyrir þrjú morð og eina manndráptstilraun. Allt má þetta rekja til örlagaríkrar kvöldstundar þar sem hún bauð fjölskyldu sinni upp á wellington-steik. Steik af þessu tagi þykir oftast herramannsmatur, en Erin láðist að tilkynna fjölskyldunni að þetta kvöld hafði hún ekki farið eftir hefðbundinni uppskrift. Hún hafði bætt í steikina eitruðum sveppum.
Þrír létust og einn lifði máltíðina naumlega af. Málið hefur vakið gífurlega athygli í Ástralíu. Erin neitaði sök í málinu og sagði að um harmleik væri að ræða. Ákæruvaldið var á öðru máli. Erin hefði viljandi blandað einum eitruðu sveppum sem fyrirfinnast í steikina. Hún hafi vitað hvaða afleiðingar það myndi hafa.
Þeir sem létust voru Don og Gail Patterson, tengdaforeldrar Erin, og Heather Wilkinson, systir Gail. Eiginmaður Heather, Ian, slapp naumlega en þurfti að verja löngum tíma á sjúkrahúsi.
Í dómsal fékk kviðdómur að heyra hvernig Erin kynntist eiginmanni sínum, Simon, skömmu eftir aldamótin. Þá voru þau bæði að vinna fyrir Monash-borg, Erin var að vinna hjá dýraverndinni og Simon starfaði sem byggingarverkfræðingur hjá borginni.
„Erin er mjög greind. Ég reikna með að eitt af því sem heillaði mig í fari hennar til að byrja með hafi verið greind hennar. Hún er mjög skörp og getur verið frekar fyndin,“ sagði Simon. Þau kynntust í gegnum sameiginlegan kunningjahóp og árið 2007 giftu þau sig. Frumburður þeirra kom svo í heiminn árið 2009 og næsta barn árið 2014.
Samband Simon og Erin var stormasamt og skildu þau nokkrum sinnum að borði og sæng. Þau hafa ekki búið saman síðan árið 2015 en eru þó ekki skilin. Erin hélt áfram góðu sambandi við tengdafjölskyldu sína en eitthvað slettist þó upp á vinskapinn í desember árið 2022. Þá sendi hún vinum sínum skilaboð þar sem hún kvartaði undan eiginmanni sínum og tengdaforeldrum.
„Ég er orðin svo leið á þessum fjanda, ég vil ekkert með þau hafa. Ég hélt að foreldrar hans vildu að hann gerði það rétta en þau virðast hafa meiri áhyggjur af því að líða óþægilega og vilja ekki skipta sér af einkamálum sínum, svo til fjandans með þau,“ skrifaði Erin, en svo virðist sem að hún hafi viljað taka aftur upp sambúð með manni sínum og orðið ósátt þegar foreldrar hans vildu ekki hjálpa henni að koma því til leiða.
Simon telur að árið 2022 hafi Erin fengið áfall þegar hún sá að hann hafi skráð að þau væru skilin að borði og sæng á skattaframtali sínu.
Sjá einnig: Dæmd sek fyrir að hafa myrt tengdaforeldra sína með eitruðum sveppum
Það var svo þennan örlagaríka dag, 29. júlí árið 2023, sem Erin bauð tengdafjölskyldu sinni og eiginmanni í hádegismat. Hún lokkaði þau til sín með því að þykjast hafa greinst með krabbamein. Simon ætlaði að mæta, en hætti við á seinustu stundu. Aðrir voru ekki eins heppnir eins og áður hefur komið fram. Erin sagði fyrir dómi að hún hafi upplifað að hjónabandi hennar væri endanlega lokið og fannst eins og tengdafjölskylda hennar ætlaði að loka á hana. Hún hafi lengi glímt við lágt sjálfstraust og slæma líkamsmynd.
Erin þvertekur þó fyrir að hafa ætlað að bana tengdafjölskyldu sinni. Hún hafi týnt sveppi af ýmsu tagi og fyrir mistök hafi hún blandað sveppum sem hún hafði týnt, en átti eftir að flokka, saman við sveppi sem hún hafði keypt í asískri verslun til að nota í Wellington-steikina. Ákæruvaldið tók fram að ekki væri ljóst hvers vegna Erin hafi gert það sem hún gerði, en það þurfi ekki alltaf að vera ástæða fyrir illvirkjum. Erin viðurkenndi fyrir dómi að hún hafi sjálf borðað steikina en fljótlega farið inn á salerni og framkallað uppköst. Hún sagðist þó ekki hafa vitað að steikin væri eitruð, heldur hafi hún látið sig kasta upp þar sem hún glímir við lotugræðgi.
Ákæruvaldið taldi þó ljóst að Erin hafi vitað nákvæmlega hvað hún væri að gera. Hún hafi skipulagt ódæðið vikum saman. Kviðdómur var sammála og sakfelldi Erin. Hún á nú yfir höfði sér lífstíðarfangelsi og þykir einn svæsnasti kvenkynsmorðingi Ástralíu.
Sjá einnig:Hún borðaði af appelsínugula disknum en gestirnir fengu öðruvísi diska – Þeir dóu en hún ekki
Á meðan Erin beið eftir niðurstöðu kviðdóms sat hún í fangelsi þar sem hún var sökuð um að hafa reynt að eitra fyrir samfanga sínum. Fangi lagði fram kvörtun eftir að hafa orðið veikur af máltíð sem Erin tók þátt í að elda. Erin var í kjölfarið send í 22 klukkustunda einangrun á meðan málið var rannsakað.