Raunveruleikastjarnan Whitney Purvis hefur verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi, en hún gerði garðinn frægan í raunveruleikaþáttunum 16 & Pregnant sem nutu töluverðra vinsælda fyrir rúmum áratug.
Purvis er sökuð um að hafa af ásetningi dreift fíkniefni sem kallast Tranq og þannig orðið til þess að 37 ára karlmaður, John Mark Harris, lést úr ofskömmtun. Tranq er blanda af verkjalyfinu fentanyl og dýradeyfilyfinu xylazine, en þessi blanda hefur valdið miklum skaða víða um heim. Árið 2023 varaði bandaríska fíkniefnalögreglan við blöndunni, en með því að blanda xylazine við fentanyl hafi tekist að gera banvænasta fíkniefni Bandaríkjanna enn skæðara. Víman af þessari blöndu varir klukkutímum saman og neytendur hennar ráfa gjarnan rænulitlir um göturnar og hefur verið líkt við uppvakninga.
John Mark Harris fannst látinn eftir ofskömmtum á heimili sínu í febrúar. Samkvæmt minningargreinum var Harris góður maður sem mátti ekkert aumt sjá. Hann og Purvis voru greinilega vinir því hún skirfaði sjálf minningarorð um hann.
„John Mark, ég hata að hafa komist að því sem gerðist bara í dag og þannig misst af jarðarför þinni. Ég vildi að ég hefði frétt þetta fyrr og getað fagnað lífi þínu. Takk fyrir að vera mér frábær vinur,“ skrifaði Purvis og tók fram að Harris hefði margoft komið henni til bjargar í gegnum árin.
„Ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman. Heilinn minn getur ekki meðtekið að þetta hafi gerst. Ég vil ekki að þetta sé satt.“
Parvis tók fram að hún muni sakna vinar síns. „Ég mun sakna æðislegu eldamennsku þinnar. Ég mun sakna þess að kúra á sófanum og horfa á sjónvarpið með þér. Ég mun sakna þess að sitja með þér úti að reykja sígarettur og hvernig við ræddum um lífið, slúðruðum og hvernig þú sagðir mér hvaða kvikmyndir og þætti ég ætti að horfa á næst. Mest af öllu mun ég sakna þín, hjartahlýja og einstaka mannsins. John Mark, ég mun aldrei gleyma þér. Hvíldu í friði og samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.“
Purvis hefur áður komist í kast við lögin en hún hefur meðal annars verið handtekin fyrir búðahnupl og fyrir að vanvirða dómstóla í tengslum við meðlagsúrskurð.
Purvis hefur ekki átt sjö daganna sæla en 16 ára sonur hennar lést fyrir mánuði síðan.