Fyrra heimsmetið var sett af Chris Turnbull árið 2023 þegar hann hljóp þessa sömu leið frá Cottesloe á vesturströnd Ástralíu til Bondi Beach á austurströndinni.
Sjá einnig: Setti ótrúlegt met þegar hann hljóp yfir Ástralíu
Það er ekki ýkja langt síðan að Goodge, sem er 31 árs, hóf að stunda langhlaup af kappi. Hann fékk „hlaupabakteríuna“ eftir að móðir hans lést úr krabbameini árið 2018 og hafði hlaupið í ár það markmið að safna áheitum fyrir góðgerðasamtök meðal annars í Bretlandi og Ástralíu.
En í umfjöllun Mail Online kemur fram að borið hafi á efasemdarröddum um að Goodge hafi verið alveg heiðarlegur.
Goodge notaði Garmin InReach í hlaupinu en með því má meðal annars fylgjast með staðsetningu, hraða og hjartslætti. Upplýsingunum var svo hlaðið inn í hið vinsæla Strava-æfingaforrit.
Þeir sem hafa legið yfir þessum upplýsingum hafa til dæmis komist að því að þann 16. apríl, daginn eftir að hann byrjaði hlaupið, hafi honum tekist að hlaupa 400 metra á aðeins 23 sekúndum. Til samanburðar er heimsmetið í 400 metra hlaupi 43,03 sekúndur.
Í umfjöllun breskra fjölmiðla kemur fram að ónákvæmni af þessu tagi í umræddu smáforriti sé ekki óþekkt, sérstaklega þar sem Goodge var að hlaupa um afar strjálbýl svæði. Þá hefur verið bent á að hjartsláttur hans hafi að jafnaði verið 100 til 105 slög á mínútu sem þykir nokkuð lágt sé litið til þess að hann þurfti að hlaupa í um 14 klukkustundir á hverjum degi.
Goodge hefur sjálfur þvertekið fyrir að maðkur sé í mysunni og segist hann raunar hafa átt von á því að efasemdarraddir gerðu vart við sig. „Ég vissi að þetta myndi koma,“ segir hann við ABC. „Ég var búinn að búa mig undir það og það er hluti af þessu.“
Bætir hann við að hann og aðstoðarmenn hans hafi gert allt sem þeir gátu til að fólk gæti fylgst með hlaupinu í rauntíma. Hann hafi verið með staðsetningarbúnað á sér allan tímann og hver sem er hafi getað farið og fylgst með honum hlaupa.