Hann er þekktur andstæðingur bóluefna, hefur losað sig við dauðan björn í Central Park, ekið með hvalshöfuð á toppnum á bílnum sínum, verið með dautt sníkjudýr í heilanum og nú er hann heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna.
Þetta er Robert F. Kennedy Jr. Hann komst enn einu sinni í kastljós fjölmiðla í síðustu viku þegar hann fór með barnabörnin sín í sund í ánni Rock Creek Park í Washington D.C. Hann skýrði sjálfur frá sundferðinni í færslu á X og birti myndir af henni.
Áin er menguð vegna frárennslis úr holræsakerfum og því er bannað af heilbrigðisástæðum að baða sig í ánni og þeim ám sem renna í og úr henni.
Bannið er meira að segja svo víðtækt að það má ekki vaða í ánni né láta gæludýr svo mikið sem snerta vatnið.
Þjóðgarðsyfirvöld hafa sett upp skilti víð ána, til að vekja athygli á þessu og á heimasíðunni segir að mikið magn baktería sé í ánni sem og smitandi sýklar og því sé hættulegt fyrir fólk að snerta vatnið.
En heilbrigðisráðherrann lét þetta ekki stöðva sig og á myndum sést hann fara í kaf í vatninu á meðan barnabörnin leika sér við hlið hans.
Árlega renna rúmlega 150 milljónir lítra af klóakvatni og öðru menguðu vatni út í Rock Creek. Bann við að synda í ánni hefur verið í gildi í rúmlega hálfa öld.