
Uppdrag granskning fréttaskýringaþáttur sænska ríkissjónvarpsins, SVT, hefur að undanförnu fjallað töluvert um kynferðisbrot og tilheyrandi fjárkúganir á netinu, þar í landi, gegn unglingsstúlkum. Í einni umfjölluninni hittast þrjár stúlkur sem sami einstaklingurinn braut á en rætt er við eina þeirra en eftir að mál hennar var fellt niður nýtti brotamaðurinn tækifærið og braut á hinum stúlkunum.
Rætt er við hina 17 ára gömlu Ingrid en þegar hún var 13 ára sendi hún manneskju nektarmyndir af sjálfri sér. Viðkomandi fór hins vegar að heimta fleiri og grófari myndir og hótaði að birta þær sem hann hefði opinberlega ef Ingrid myndi ekki verða við þessum kröfum.
Ingrid segist varla hafa getað borðað eða sofið og hún treysti sér ekki til að mæta í skólann. Henni tókst á endanum að blokka gerandann og hótanirnar hættu. Strákur sem var vinur hennar sveik hins vegar út úr henni fé þegar hann laug því að myndirnar væru í dreifingu og hann gæti stöðvað það ef hún myndi greiða honum peninga, sem Ingrid gerði.
Ingrid sagði loks móður sinni frá og þær lögðu fram kæru hjá lögreglunni í heimabæ þeirra Laholm, sem er í Halland héraði í suðvesturhluta landsins. Hún segir að lögreglan i bænum hafi ekki sýnt því neinn áhuga að rannsaka málið og ekki boðið henni neinn stuðning.
Hinn svokallaði vinur Ingrid hélt áfram að ljúga að henni og segja að myndirnar væru í dreifingu og allir í skólanum væru að hlæja að henni. Hún treysti sér þá ekki lengur til að mæta í skólann og svo fór að fjölskyldan seldi sveitabæinn, í nágrenni Laholm, sem hún bjó á og flutti burt.
Strákurinn, sem er sagður undir lögaldri, braut með svipuðum hætti á tveimur öðrum stelpum eftir að hann gerði Ingrid þetta. Á síðasta ári hlaut hann dóm fyrir að hóta að dreifa nektarmyndum af annarri stúlku og hann er grunaður um að hafa dreift slíkum myndum af þriðju stúlkunni.
Lögreglumaðurinn sem rannsakaði mál Ingrid segir það hafa verið fellt niður vegna skorts á sönnunargögnum og að sú staðreynd að hún hafi greitt drengnum til að forðast að myndunum yrði dreift teljist ekki vera fjárkúgun.
Fyrir milligöngu Uppdrag granskning hittust stúlkurnar þrjár og hinar tvær lýsa mjög svipuðum tilfinningum og Ingrid. Önnur hinna tveggja vildi ekki koma fram undir nafni en hún segir að líðan hennar sé orðin mun betri eftir að hún fékk hjálp.