fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Pressan

Uppreisnarseggurinn Prigozhin sagður látinn eftir dularfullt flugslys – „Frekar skýr skilaboð frá Pútín“

Pressan
Miðvikudaginn 23. ágúst 2023 17:24

Prigozhin og slysstaðurinn þar sem flugvél hans hrapaði til jarðar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Uppreisnarseggurinn og yfirmaður rússnesku málaliðanna í Wagner hópnum, Yevgeny Prigozhin, er sagður látinn. Mun hann vera meðal tíu einstaklinga sem létu lífið þegar einkaþota brotlenti á leið sinn frá Moskvu til Pétursborgar. Mun þotan hafa brotlent við Tver svæðið sem er norður við Moskvu. Sky fréttastofan greinir frá.

Margir hafa velt fyrir sér afdrifum Prigozhins eftir skammvinna uppreisn hans gegn rússneska hernum í júní á þessu ári og hafa getgátur gengið þess efnis að Pútín hafi látið koma honum fyrir kattarnef. Þessar kenningar voru þó að einhverju kæfðar fyrir tveimur dögum síðan þegar Prigozhin birti myndband fyrir tveimur dögum. Þar sást hann í herklæðum með rifil og var talið að myndbandið væri tekið í Afríku. Þar talaði hann um að Rússar ætluðu að frelsa heimsálfuna.

Sjá einnig: Ekkert heyrst í Prigozhin síðan byltingunni var slaufað – Óvíst hvort hann sé kominn til Belarús og Mikil óvissa um örlög Wagner-leiðtogans – „Pútín þekkir Prigozhin mun betur en ég“

„Réttlæti og hamingja fyrir fólkið í Afríku. Gerum þetta að martröð fyrir meðlimi ISIS, al-Qaeda og öðrum ófétum. Við erum að ráða til okkar alvöru stríðsmenn og munum halda áfram að leysa þau verkefni sem sett hafa verið fyrir okkur og við höfum lofað að takast á við,“ sagði Prigozhin í myndbandinu. Wagner hópurinn hefur lengi verið með viðveru í nokkrum löndum í Afríku til að berjast við uppreisnahópa, en málaliðahópurinn hefur verið sakaður um gróf mannréttindabrot á því svæði.

Sjá einnig: Prigozhin kemur öllum á óvart og skaut skyndilega upp kollinum í Afríku – „Við erum að ráða alvöru slavneska hermenn“

Prigozhin hefur í gegnum árin verið einn helsti bandamaður Vladimír Pútíns Rússlandsforseta og brá mörgum í brún þegar hann snerist gegn forsetanum í júní. Skiptar skoðanir eru á uppreisninni, sem var skammvinn og virtist ganga furðulega vel í ljósi þess að ekki var gripið til vopna, og hafa margir haldið því fram að hér hafi brögð verið í tafli og mögulega hafi Pútín fyrirskipað uppreisnina til að tryggja kjör sitt í forsetakosningunum á næsta ári eða til þess að afhjúpa svikara í sínum innsta hring.

Sjá einnig: Segir maðk í mysu Pútíns – Fundur hafi verið sviðsettur til að leyna örlögum Prigozhin í kjölfar uppreisnarinnar

BBC segir að hópur á Telegram sem tengist Wagner-hópnum hafi greint frá því að áðurnefnd einkaþota hafi verið skotin niður af loftvörnum. Flugin hafi verið á hans vegum og var í fyrstu óljóst hvort að foringi málaliðanna hafi sjálfur verið um borð, það hafi þó nú verið staðfest að hann hafi verið á lista yfir farþega. Rannsókn mun vera hafin á atvikinu samkvæmt rússneskum yfirvöldum að sögn Telegraph.

Flestir fjölmiðlar voru fljótir að fullyrða að staðfest hafi verið að Prigozhin hafi verið um borð, en nú hefur verið dregið í land og sagt að hann sé talinn af, en það hafi ekki fengist staðfest. Rússneski miðillinn Ria greinir frá því að búið sé að hafa upp á átta farþegum þotunnar. Á sama tíma segir að önnur þota í eigu Prigozhin hafi lent með hefðbundnum hætti í Moskvu. Talskona forsetaembættisins í Bandaríkjunum, Adrienne Watson, segir að enginn ætti þó að láta sér koma á óvart ef andlát Prigozhins verði staðfest.

Úkraínski miðillinn KyivPost segir að búið sé að bera kennsl á líkamsleifar Prigozhins, en að svo stöddu hafa stærri miðlar ekki staðfest áreiðanleika fréttarinnar.

Rússneskir miðlar greina frá því að Vladimir Rogov, fulltrúi rússneska hernámsliðsins í Zaporizhzhia héraðinu, hafi nú staðfest andlát Prigozhins á Telegram. Rússneskir sjónvarpsmiðlar hafa eins tilkynnt um andlátið.

Sjá einnig: Sakar Rússa um að hafa haft heiminn að fíflum með launráðum – Var uppreisn Prigozhin ekki það sem hún sýndist?

Fréttin hefur verið uppfærð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað