fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Pressan

Sara hvarf sporlaust – „Þögn er gulls ígildi“

Pressan
Þriðjudaginn 26. desember 2023 07:00

Malarvegurinn upp að heimili fjölskyldunnar. Skjáskot/Sara Was Here

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðvikudaginn 3. apríl 1996 var Sara Bushland, 15 ára, í góðu skapi eins og venjulega þegar hún og eldri bróðir hennar, hinn tvítugi David, fóru heiman frá sér í Spooner í Wisconsin. Þetta var síðasti dagur fyrir vorfríið „spring break“. Þetta var líka fyrsti dagurinn eftir að hún lauk tveggja vikna stofufangelsi. Jim Lambert, fósturfaðir hennar og fyrrum herlögreglumaður, hafði sett hana í stofufangelsi eftir að hann hafði laumast til að lesa dagbókina hennar.

Um klukkan 8 setti David hana úr við heimili vinkonu hennar, Jennu, sem hún ætlaði að fylgjast með í skólann.

Skóladagurinn gekk sinn gang í Spoone High School, þar sem Sara stundaði nám, en nemendurnir áttu erfitt með að einbeita sér, það var spenna í þeim vegna vorfrísins sem var við að bresta á. Í frímínútunum sótti Travis Lane, 20 ára, Söru en hún var ein vinsælasta stúlkan í skólanum. Þau voru kærustupar en höfðu haldið því leyndu. Þau borðuðu hádegismat saman og síðan ók Travis henni aftur í skólann. Sara og Jenna ætluðu að ganga saman heim til Jennu að kennslu lokinni. Þær ætluðu að vera heima hjá henni þar til skólaballið myndi byrja. En skyndilega breytti Sara um áætlun. „Ég verð að fara heim og gera svolítið fyrst, síðan kem ég,“ sagði hún við Jennu og fór með skólabílnum.

Sara Bushland.

Enginn veit af hverju hún skipti um skoðun en ein af kenningum lögreglunnar er að hún hafi verið svo hrædd um að stjúpfaðir hennar myndi lesa dagbókina hennar á meðan hún væri í skólanum. Kannski var hún hrædd um að verða sett aftur í stofufangelsi. Henni líkaði illa að vera heima hjá sér.

Svarti bíllinn

Klukkan 15.16 ók skólabíllinn af stað. Söru hlakkaði til skóladansleiksins og ræddi við vinkonur sínar um fríið sem var fram undan. Einn farþegi í skólabílnum, sem í bókinni „Searching for Sara Bushland“ er kölluð Elizabeth tók þá eftir því að svörtum bíl var ekið á eftir skólabílnum. Það skipti engu máli hvar skólabíllinn var stöðvaður eða hvert honum var ekið, alltaf var svarti bíllinn á eftir. Elizabeth bar strax kennsl á bílinn. Hún taldi þetta vera bílinn sem Steve, fyrrum unnusti Söru, átti. Hún sagði ekkert og vonaði að Steve myndi fara sína leið.

Eftir um 40 mínútna akstur kom skólabíllinn heim til Söru. Hún steig út og kvaddi.

Þetta átti að vera upphafið að fríinu en í staðinn varð þetta upphafið á martröð.

Sara lagði af stað upp eftir 90 metra löngum malarveginum að heimili sínu. Áður en skólabílnum var ekið af stað sá Elizabeth að svarta bílnum var ekið inn á malarveginn. Hún sá Söru snúa sér við og líkamstjáning hennar gaf til kynna að hún þekkti bílstjórann. Elizabeth var sú sem sá Söru síðast á lífi. Nú eru tæplega 26 ár liðin frá hvarfi hennar og enn er ekki vitað hvað varð um hana eða hver örlög hennar voru.

Stjórnsamur

Klukkan var orðin 16.37 og Sara átti að vera komin heim fyrir hálftíma síðan. David hringdi í Jim og sagðist vera búinn að bíða eftir Söru síðan klukkan 16 en hún hafi ekki enn skilað sér. Jim, sem var faðir David og stjúpfaðir Söru, var að sögn mjög stjórnsamur og gat ekki hamið skap sitt. Hann stýrði heimilinu harðri hendi og vildi alltaf vita hvar allir í fjölskyldunni voru. Hann var á veiðum með vini sínum í Stillwater í Minnesota þegar David hringdi. Hann sagði David að það væri lítið sem hann gæti gert. David hringdi því í móður Söru, Marie, sem var hjá móður sinni í Chippewa Falls en þar hafði hún verið við útför. Hún ók strax heim en rúmlega klukkustundar akstur var heim. Hún kom heim um klukkan 18.20 og fór að hringja og spyrjast fyrir um Söru. Enginn hafði séð Söru eftir skóla og ferðina heim í skólabílnum.

Klukkan 20 var Marie á ferðinni á bíl sínum og leitaði að Söru. Fyrst fór hún heim til Jennu sem hafði ekki hugmynd um hvar Sara væri og sagði að hún hafi aldrei komið til að fara með á skóladansleikinn.

Hún fór heim til Travis, unnusta Söru, sem sagði að þau hefðu borðað hádegismat en hann hefði ekki séð hana eftir það. Hann vissi jafnvel og Sara að Jim og Marie þoldu hann ekki. Marie fór heim og varð sífellt sannfærðari um að Sara hefði strokið að heiman.

Jim og Marie.

Það var ekki fyrr en daginn eftir, þegar Jim var kominn heim, sem þau fóru á lögreglustöðina og tilkynntu um hvarf hennar. Þau virtust ekki vera áhyggjufull og sögðust bæði halda að hún hefði hlaupist að heiman. Lögreglan hafði því ekki ástæðu til að ætla að Sara væri í hættu og því var ekki mikið aðhafst í málinu.

Í hverjum mánuði er tilkynnt um hvarf 700 til 800 barna í Wisconsin en 95% þeirra finnast eftir nokkar klukkustundir eða nokkra daga. Lögreglan taldi því að Sara hefði hlaupist að heiman og myndi skila sér aftur fljótlega.

Systurnar

Í Colorado, í 20 klukkustunda akstursfjarlægð, var Lesley, eldri systir Söru, og vissi vel að Sara myndi aldrei hlaupast að heiman án þess að láta einhvern vita. „Mamma sagði mér að hafa ekki áhyggjur. Þetta væri ekki neitt stórmál. Síðan var mér sagt að tilkynnt hefði verið um hvarf hennar án þess að það lægi á . . . ég fattaði þetta ekki. Óháð því hvernig barnið þitt hverfur þá liggur á. En ég var 17 ára og hlustaði bara,“ sagði Lesley síðar.

Jim og Marie fóru til vinnu sinnar eins og venjulega og voru viss um að Sara myndi skila sér heim.

„Það var ekki rætt um hvarf Söru á heimili Lambert. Jim og Marie lá greinilega ekki á að finna hana að öðru leyti en því að Marie hafði reynt að finna hana kvöldið sem hún hvarf,“ segir í bókinni „Searching for Sara Bushland“.

15 dögum eftir að Sara hvarf birtist stutt frétt í staðarblaðinu Spooner Advocate um að Sara væri týnd. Haft var eftir Marie að hún væri 152 cm, 47 kíló, með gráblá augu og ljóshærð. Auk þess væri hún með fæðingarbletti hægra megin á efri vörinni. „Ég veit ekki yfir hverju hún gæti hafa verið svona æst. Það er bara eins og hún hafi horfið af yfirborði jarðarinnar,“ sagði hún og gerði það alveg ljóst að Sara hefði stungið af. Terry Dryden, lögreglustjóri í Washburn County, tók í sama streng og sagði að lögreglan vonaðist til að hún myndi hringja í einhvern sem þekkti rödd hennar og að hún léti vita að hún hefði það gott.

Sara og Lesley með Daisy ömmu sinni.

Tveimur dögum eftir að Sara hvarf fékk faðir hennar, Mike Bushland, sem bjó í Colorado, loksins að vita að hún væri horfin. Hann var strax viss um að hún hefði ekki stungið af. Hann gjörþekkti Söru og var því viss um það. Hún hafði flutt til móður sinnar fyrir einu og hálfu ári síðan eftir að hafa búið hjá honum ásamt Lesley síðan þær voru litlar. Hann vissi að hún hefði aldrei látið sig hverfa án þess að taka föt eða snyrtigræjur með sér.

Söru og Lesley hafði alltaf komið vel sama. Þegar Lesley byrjaði að stunda búðahnupl hermdi Sara eftir henni. Í nóvember 1994 var hún handtekin eftir að hafa stolið fatnaði úr verslun og í kjölfarið setti Mike hana í stofufangelsi. Hún reiddist þá mjög  og ákvað að flytja til móður sinnar og stjúpföður í Spooner. Hún var sannfærð um að þar biði hennar betra líf. Í staðinn varð það næstum óbærilegt.

„Þögn er gulls ígildi“

Sara hafði ekki hugmynd um hvað beið hennar þegar hún flutti til móður sinnar og Jim í Spooner. Við hlið útidyranna hafði Jim hengt upp skilti sem á stóð: „Við hringjum ekki í neyðarlínuna“. Skiltið var úr tré og í laginu eins og vopn. Fyrir ofan það hékk hluti úr þjóðfánanum. Fyrir utan húsið voru tveir veiðihundar sem geltu.

Á skilti, sem hékk á vegg inni í húsinu, stóð:

„Það sem sést hér

Það sem er sagt hér

Það sem er gert hér

Verður hér!“

Skiltið

Sara fékk svefnherbergi á annarri hæð. Það var lágt til lofts og engin hurð á herberginu. Í raun voru bara burðir á tveimur rýmum  í öllu húsinu sem var lítið. Stjúpbræður hennar, Dean 16 ára, og David 20 ára, voru einnig með herbergi á hæðinni og gátu horft beint inn í herbergið hennar. Marie og Jim sváfu á fyrstu hæð. Jim notaði herbergi Söru oft sem skrifstofu auk þess sem hann geymdi hluta af 500 skotvopnum sínum þar. Meðal annars héngu tveir rifflar yfir rúminu hennar.

Í bókinni „Searching for Sara Bushland“ kemur fram að Sara hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi á heimilinu.

Næstum daglega sagði Jim: „Þögn er gulls ígildi“.

Í bókinni segir einnig: „Jim var stjórnsamur og ráðríkur, án föðurhæfileika. Marie var meira eins og vinkona Söru en móðir. Þegar þess er vænst að móðir verndi dóttur sína fyrir hættum unglingsáranna, til dæmis fíkniefnum, var Marie líklegri til að reykja maríúana með henni.“

Barnshafandi

Þrátt fyrir öll vandamálin á heimilinu varð Sara þekkt sem glaða og brosandi stelpan í Spooner. Hún átti ekki í neinum erfiðleikum með að eignast vini og fannst eldri strákar sérstaklega spennandi. Það féll ekki í góðan jarðveg hjá Jim og Marie.

Veturinn 1995 urðu hún og Travis Lane, sem var fimm árum eldri, par. Sambandinu lauk skyndilega eftir að Jim og Marie lásu dagbókina hennar og komust að því að þau væru par.

Travis Lane.

Í bókinni „Searching for Sara Bushland“ er því lýst hversu ráðríkur og stjórnsamur Jim var. Þegar hann las í dagbókinni að Sara hefði átt í leynilegu sambandi við annan stjúpbræðra sinna reiddist hann mjög. „Þrátt fyrir að Jim hefði aldrei átt í jákvæðu og heilbrigðu sambandi við syni sína var enginn vafi á að hann vildi vernda þá,“ segir í bókinni.

Í kjölfarið var Sara sett í stofufangelsi, mátti bara fara í skólann og taka þátt í viðburðum á vegum skólans.

Sara Bushland.

Í janúar 1996 varð Sara barnshafandi og neyddist til að játa það fyrir Marie og Jim. Travis var faðirinn. Marie og Jim sannfærðu hana um að fara í fóstureyðingu og var hún framkvæmd 6. febrúar. Jim borgaði fyrir hana. Nokkrum dögum síðar fór hann heim til Travis til að krefja hann um greiðslu fyrir fóstureyðinguna og hótaði að kæra hann til lögreglunnar fyrir að hafa stundað kynlíf með ólögráða. Sara var aftur sett í stofufangelsi.

Ræddi við ömmu sína

Sara hataði að vera heima enda aðstæðurnar óbærilegar vegna stjórnsemi Jim sem elskaði að etja börnunum saman. Hún hafði fyrir löngu áttað sig á að það var miklu betra að búa hjá föður sínum og Lesley í Colorado.

Þann 31. mars hringdi hún í ömmu sína, Daisy, en þær höfðu alltaf verið nánar. Hún sagði henni að hana langaði að flytja aftur til föður síns. „Heldurðu að pabbi vilji það?“ spurði hún. Amma hennar sagði að hann myndi örugglega taka henni opnum örmum. Söru létti en náði aldrei að láta verða af flutningnum, nokkrum dögum síðar hvarf hún.

Tengt við morð

Í Colorado var Mike brjálaður út í lögregluna fyrir að gera ekkert í máli Söru og taldi að hún hefði strax átt að hefja leit að Söru. Ár leið þar til lögreglan hafði samband við hann.

Í ágúst 1998 hefði Sara orðið 18 ára og Mike vonaði að hún myndi þá hafa samband, nú þegar hún væri orðin lögráða. „Afmælisdagurinn hennar var versti dagurinn því fram að honum hafði ég alltaf vonað að hún myndi koma heim,“ sagði hann síðar.

Þegar þarna var komið voru rúmlega tvö ár liðin frá hvarfi Sara og þá fyrst viðurkenndi Terry Dryden, lögreglustjóri, að eitthvað gæti hafa komið fyrir Söru. „Nú er ég ekki viss um að hún sé örugg og að við finnum hana á lífi,“ sagði hann.

The National Center for Missing and Exploited Childern samtökin blönduðu sér nú í málið og sendu tvær milljónir veggspjalda, með eftirlýsingu eftir Söru, út. „Allt bendir til að hún sé í hættu,“ sagði Dryden.

Lýst var eftir þeim.

Lögregluna grunaði að hvarf Söru gæti tengst morðinu á Crystal Linn Soulier, 18 ára, sem var óupplýst. Ári eftir að Sara hvarf fannst Crystal myrt fyrir utan klámverslun í Beloit i Wisconsin. Beloit er í um fjögurra klukkustunda akstursfjarlægð frá Spooner. Sara og Crystal umgengust sama fólkið og áttu sameiginlega vini.

Í júlí 1999 hóf lögreglan loksins að leita að alvöru að Söru og notaði meðal annars hunda sérþjálfaða til að finna lík. Rannsóknin beindist að húsi og landareign Marie og Jim í Spooner en lögreglan vildi ekki segja af hverju. Líkhundarnir merktu nokkra staði en ekkert fannst.

Fjarvistarsönnunin

Jim hafði sagt að hann hefði verið á veiðum með vini sínum daginn sem Sara hvarf og að þeir hefðu gist í Stillwater nóttina á eftir hjá vini þeirra. Þegar vinurinn, sem þeir áttu að hafa gist hjá, var yfirheyrður kannaðist hann ekki við að þeir hefðu gist hjá honum.

Það var ekki fyrr en fimm árum efir hvarf Söru sem lögreglan var orðin sannfærð um að hún hefði ekki látið sig hverfa af fúsum og frjálsum vilja. En af hverju lögreglan var þessarar skoðunar vildi hún ekki segja og hélt hún spilunum því þétt að sér.

Létust með tveggja mánaða millibili

Í maí 2013, 17 árum eftir að Sara hvarf, gerðu rúmlega 70 lögreglumenn leit á heimili Marie og Jim og landareigninni. En þeir fundu ekkert.

Þeir einbeittu sér að leit á heimili Söru og svæðinu í kring en rannsökuðu ekki hver ók svarta bílnum sem elti skólabílinn daginn örlagaríka.

Að leitinni lokinni sendi lögreglan frá sér fréttatilkynningu þar sem sagði að hún myndi ekki skýra frá árangri leitarinnar en að málið væri enn opið og til rannsóknar og verði það þar til Sara finnst.

B er staðsetning heimilis Söru en F er staðurinn þar sem hún fór út úr skólabílnum.

2017 létust bæði Marie og Jim af völdum lungnasjúkdóms. Marie í apríl og Jim í júní.

Viku eftir að Jim lést gerði lögreglan enn eina leitina í húsi þeirra og á landareigninni. Það var augljóst að hún taldi Jim tengjast hvarfi Söru.

Nýjar vendingar

Lögreglan lagði hald á marga kassa fulla af gögnum, minnisbækur Jim og tölvu. En rannsóknin skilaði ekki miklu og Lesley var orðin þreytt á hversu langan tíma þetta tók allt saman.

Þegar 25 ár voru liðin frá hvarfi Söru, í apríl á þessu ári, birti lögreglan myndband í þeirri von um að það gæti hjálpað til við að finna Söru. Einnig var gerð heimildarmynd „Sara is Here“.

Lesley hefur ekki gefið upp vonina um að Sara finnist og ætlar að halda leitinni að henni áfram, þetta segir hún í heimildarmyndinni. Þar kemur einnig fram að hún hafi fundið dagbók Söru og hafi verið búið að rífa margar síður úr henni.

Dagbók Söru.

Mike segist handviss um að einhver viti hvað varð um Söru og nefnir sérstaklega ökumann svarta bílsins sem var ekið á eftir skólabílnum. „Það eru margir sem tala um bílinn en við vitum ekki einu sinni hvort hún settist inn í hann. Fólk þarf að stíga fram og gera það sem rétt er. Það er fólk sem veit hvað gerðist,“ sagði hann. Hann hefur haldið gamla símanúmerinu sínu í öll þessi ár í þeirri von að Sara hringi. „Ég held að hún sé dáin. Ég vona að hún sé það ekki en ég held að hún sé það,“ sagði hann.

Byggt á umfjöllun KSTP, CBS Minnesota, NBC News, Legacy.com, Milwaukee Journal Sentinel og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Áhugaverð niðurstaða nýrrar rannsóknar á háhyrningum

Áhugaverð niðurstaða nýrrar rannsóknar á háhyrningum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Jákvæð niðurstaða nýrrar meðferðar við Parkinson

Jákvæð niðurstaða nýrrar meðferðar við Parkinson
Pressan
Fyrir 3 dögum

Skólapiltur reyndi að berja sofandi samnemendur sína með hamri þegar þeir sváfu – Var að vernda sig gegn uppvakningaheimsendi

Skólapiltur reyndi að berja sofandi samnemendur sína með hamri þegar þeir sváfu – Var að vernda sig gegn uppvakningaheimsendi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tók myndir upp undir kjóla og pils 107 kvenna

Tók myndir upp undir kjóla og pils 107 kvenna
Pressan
Fyrir 5 dögum

Harmleikur í Svíþjóð – Tvö börn fundust látin

Harmleikur í Svíþjóð – Tvö börn fundust látin
Pressan
Fyrir 5 dögum

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva
Pressan
Fyrir 5 dögum

Sýknaður af ákæru um ölvunarakstur – Þjáist af „bruggsjúkdómi“

Sýknaður af ákæru um ölvunarakstur – Þjáist af „bruggsjúkdómi“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Sanna sagan á bak við Netflixþættina Baby Reindeer sem hafa slegið í gegn – Hvað varð um Richard og Mörthu og hver er hin raunverulega Martha?

Sanna sagan á bak við Netflixþættina Baby Reindeer sem hafa slegið í gegn – Hvað varð um Richard og Mörthu og hver er hin raunverulega Martha?