fbpx
Laugardagur 28.janúar 2023
Matur

Gómsætar eplaskífur sem rjúka út eins og heitar lummur

Sjöfn Þórðardóttir
Laugardaginn 18. desember 2021 08:05

Eplaskífurnar hennar Brynju Döddu minna á dönsku jólin og eru einstaklega gómsætar með heitri karamellusósu og salhnetum sem stráð er yfir./Ljósmyndir aðsendar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynja Dadda Sverrisdóttir matgæðingur með meiru og eiginmaður hennar búa fallegu húsi í Norðurnesi í Kjós sem stendur hátt uppi þar sem útsýnið yfir fjöll og dali gleður augað allt í kring. Húsið þeirra heitir Móberg og Brynja segir að þarna líði þeim best, þau komist þarna út úr ys og þys hversdagsins og umlyki sig náttúrunni. Brynja veit fátt skemmtilegra en að dunda sér í eldhúsinu og útbúa ljúffengar kræsingar. Að hennar sögn fær hún innblásturinn gjarnan þegar hún stendur við eldhúsgluggann sinn og horfir út í náttúruna.  Í aðventunni hefur hún verið að spreyta sig á jólalegum kræsingum sem bæði lokka auga og munn og það nýjasta sem hún hefur útbúið eru epalskífur sem eru hinar jólalegustu.

„Það var í Kaupmannahöfn fyrir 15 árum að mér var gefin eplaskífupanna. Einhvern veginn taldi ég sjálfri mér trú um  að þetta væri rosalegt vesen, sem er alveg stórskrítið því mér finnst gaman að vesenast í eldhúsinu og á ljúfar minningar frá Kaupmannahöfn um ekta heitt súkkulaði og eplaskífur í Tívolí, eins og svo margir aðrir,“segir Brynja Dadda dreymin á svipinn. Hún hefur geymt þessa pönnu vel og lengi en forvitin barnabörn hafa rekið augun í hana endrum og sinnum og óska eftir því hjá ömmu sinni að prófa. „Sonardóttir  okkar, sem er 12 ára, var  búin að spyrja mig nokkrum sinnum hvort við ættum ekki að prófa. Að lokum  ákvað ég að ég yrði nú að prófa mig áfram áður en ég færi að kenna henni á þetta. Ég safnaði mér því nokkrum uppskriftum og fór að prófa og ég get svarið það að þetta var ekkert vesen, ég var enga stund að ná þessu en prófaði mig aðeins áfram með uppskriftir og gerði eina að minni.“

Brynja segir að eplaskífurnar hafi rokið út eins og heitar lummur. „Fyrir utan það að þetta er rosalega gott og lítið mál þá að útbúa, þá er hægt að skapa svo skemmtilega og fallega samverustund úr því að baka saman eplaskífur og snýst aðventan ekki akkúrat um það?“

Við fengum Brynju til að deila með lesendum uppskriftinni af eplaskífunum gómsætu og hér er uppskriftin komin. „Þær eru bestar beint af pönnunni á diskinn, svo endilega njótið með fjölskyldu eða vinum, þetta er ekki flókið,“segir Brynja og segir að nú verði þetta hefð á aðventunni.

„Öll barnabörnin sem eru á aldrinum 9 til 16 ára prófuðu að baka, öll voru alveg hugfangin af þessu. Þeim þótti þetta bæði skemmtilegt og gott. Ég hvet því ykkur sem eigið eplaskífupönnu að skapa góða samverustund við bakstur núna í desember, þið hin – þetta er skemmtileg aðventugjöf til fjölskyldunnar.“

Eplaskífurnar hennar Brynju

250 g hveiti (ég nota fínt spelt)

1 msk. sykur (ég nota hrásykur)

1 tsk. lyftiduft

½ tsk. matarsódi,

½ tsk. salt – hrært saman.

400 ml.mjólk eða súrmjólk

3 stk. egg (rauður hrærðar útí mjólkina, hvítur léttþeyttar og bætt síðan við. Þetta er ekki nauðsynlegt en þær verða betri).

Fínrifinn börkur af einni sítrónu (bara ysta lagið) mér finnst þetta alveg nauðsynlegt.

Örlítið bráðið smjör

Setji allt hráefnið í skál og hrærið saman nema þegar kemur að eggjunum væri gott að skilja að rauðurnar og eggjahvíturnar. Hræra eggjarauðurnar út í mjólkina og þeytta síðan eggjahvíturnar og bæta þeim síðan við. Þetta er ekki nauðsynlegt en samkvæmt Brynju verða skífurnar betri ef deigið er útbúið með þessum hætti.

„Ég setti vel af smjöri í hverja holu í pönnunni og bræddi og hellti svo umfram úti í deigið. Það er gott að hafa öll hólf vel smurð og því þarf að bæta aðeins smjöri öðru hvoru, eflaust má nota þarna olíu en ég er smjörkona. Hellið deigi í hverja holu, ekki alveg upp á brún því þetta lyftist aðeins, sumir nota grillpinna, ég notaði smjörhníf, til að snúa aðeins þegar kúlan er orðin aðeins brún, síðan snúa alveg á hvolf. Snúningurinn er s.s. gerður í tvennu lagi. Þið getið séð Youtube myndbönd til að bakka ykkur upp í byrjun en mest lærir maður af að prófa,“segir Brynja og segir að það sé lykilatriði að prófa sjálfur.

„Við prófuðum að skera epli í litla bita, hræra með kanilsykri og smá sítrónusafa og setja ofan í, einnig hægt að setja súkkulaðibita. En persónulega finnst mér best að hafa þær hreinar og leika meira með meðlætið. Danir bera þær fram með flórsykri og sultu – það er mjög gott. En það sem heillaði okkur hjónin mest var heit karamellusósa og salthnetur yfir.“

Þarna er hægt að leika sér endalaust að braglaukunum og búa til nýja fjölskylduhefð. Að búa til hefðir kringum kræsingar í aðventunni er dásamlegt því öllum langar að gleðja bragðlaukana í góðu félagsskap.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
19.12.2022

Nýjasta æðið á samfélagsmiðlum eru sælkera hátíðarhringir með jólalegu ívafi

Nýjasta æðið á samfélagsmiðlum eru sælkera hátíðarhringir með jólalegu ívafi
Matur
18.12.2022

Vegan laufabrauðin rjúka út eins og heitar lummur – seldust upp í fyrra

Vegan laufabrauðin rjúka út eins og heitar lummur – seldust upp í fyrra
Matur
12.12.2022

Lemon opnar nýjan stað í Hagkaup í Skeifunni

Lemon opnar nýjan stað í Hagkaup í Skeifunni
Matur
10.12.2022

Eldhúsgyðjan býður upp á Baskneska ostaköku frá Spáni

Eldhúsgyðjan býður upp á Baskneska ostaköku frá Spáni