fbpx
Þriðjudagur 05.júlí 2022
Matur

Þetta borðar Geir Gunnar á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 17. október 2020 17:00

Geir Gunnar Markússon. Mynd/Stefán

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Næringarfræðingnum Geir Gunnari er mjög umhugað um heilsu. Hann fylgir fjölbreyttu mataræði með áherslu á svokallað „flexitarian“ mataræði. Hvað ætli hann borði á venjulegum degi?

Geir Gunnar Markússon starfar sem næringarfræðingur á Reykjalundi. Hann er ritstjóri heimasíðu Náttúrulækningafélags Íslands, nlfi.is, og skrifar mikið um hin ýmsu heilsutengdu málefni. Hann sinnir einnig næringar- og heilsuráðgjöf í formi fyrirlestra í fyrirtækjum, félagasamtökum og íþróttafélögum, en þó lítið undanfarna mánuði vegna COVID-19. Við fengum Geir Gunnar til að fara yfir venjulegan dag í lífi sínu.

„Flesta virka daga vakna ég um klukkan sex og útbý minn daglega morgunmat, sem ég hef gert síðan ég man eftir mér. Kem mér svo hjólandi í vinnuna og seinnipartinn eftir vinnu næ ég í dæturnar í skóla, skutlast í frístundir, eltist við dæturnar heima, elda mat og kem dætrunum niður. Kvöldin eru róleg og oftast er ég dauðþreyttur eftir langa daga. Ég reyni að vera kominn í háttinn fyrir klukkan 22.30 svo ég fái nægilegan svefn. Æfingar síðustu árin hafa aðallega verið í formi 20-30 kílómetra hjólreiðatúra til og frá vinnu. Um helgar hleyp ég, eða hjóla, lengri túra og hef sérlega gaman af því að hlaupa tvær til þrjár ferðir á Helgafellið í Hafnarfirði. Ef tími gefst til næ ég einni til tveimur styrktaræfingum á viku í vinnunni, eða á kvöldin ef ég hef orku, sem er sjaldnast,“ segir hann.

Alæta með áherslu á „flexitarian“

Geir Gunnar segist ekki fylgja neinu ákveðnu mataræði. „En ætli mitt mataræði sé ekki mest í ætt við „flexitarian“ mataræði þar sem áherslan er á jurtafæði, en dýraafurðir eru takmarkaðar og þá sérstaklega rautt kjöt. Af kjötafurðum er meira neytt af fiski, alifuglakjöti og eggjum. Mikið af próteinum kemur úr hnetum og baunum. Þetta mataræði á einnig að stuðla að meiri sjálfbærni og umhverfisvernd og rímar það vel við mig, sem er mikill umhverfisverndarsinni,“ segir hann.

„En ég er enginn 100 prósent „flexitarianisti“ og fæði mitt er alætufæði. Sem næringarfræðingur reyni ég að borða sem fjölbreyttast, fiskur tvisvar í viku, borða reglulega, mikið af grænmeti og ávöxtum, að minnsta kosti tvö til þrjú epli á dag og drekka aðallega vatn. Allt er þetta nú mjög týpískt en þetta þrælvirkar fyrir mig og þetta gefur mér þá orku sem ég þarf yfir daginn. Minn helsti löstur í mataræði væri of mikil kaffidrykkja.“

Samdi við konuna

Aðspurður hvort hann verji miklum tíma í eldhúsinu og sé góður kokkur segir Geir Gunnar: „Ég veit ekki hvort ég á að segja þetta, en jú, ég læt það flakka. Ég var orðinn svo þreyttur á spurningunni: „Hvað eigum við að hafa í matinn?“ að ég samdi við konuna fyrir nokkrum mánuðum um að við myndum skiptast á, á vikufresti, að sjá um matinn og matarinnkaupin. Þetta hefur gengið vonum framar og ég er hættur að fá þessa leiðindaspurningu. Ég hvet fleiri pör til að prófa þetta, það einfaldar lífið og útrýmir leiðinlegustu spurningu allra tíma,“ segir hann.

„Almennt er ég nú ekki mikill matgæðingur eða kokkur og konan segir stundum í gríni að ég gæti bitið gras og skolað því niður með lýsi, ef það gæfi mér öll næringarefni sem ég þarf. Ég borða til að lifa en því meira sem ég er í eldhúsinu að útbúa máltíðir fyrir fjölskylduna átta ég mig á því að þetta er þvílkt róandi og mikil hugleiðsla að vera yfir pottunum. Ég fer nú seint að gefa út matreiðslubók, „googla“ mataruppskriftir eða skoða matseðla á veitingastöðum eins og konan mín, matgæðingurinn sem hún er.“

Geir Gunnar Markússon. Mynd/Stefán

Uppáhalds máltíð?

„Þessi spurning er erfið en hugurinn reikar að gamlan vinnustað. Ég er nýhættur að starfa sem næringarfræðingur á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og þar fékk ég einhverjar bestu máltíðir sem ég hef nokkurn tíma smakkað, enda er Dóri kokkur sem galdrar fram matinn þar töframaður þegar kemur að matseld. Ein máltíð stendur sérstaklega upp úr hjá Dóra og það er svartbaunaborgari með kotasælusósu. Hann var borinn fram með spældu eggi og öllu því grænmeti sem hugurinn lysti. Þessi borgari „lúkkar“ eins og sveittur tommahamborgari en smakkast 1000 sinnum betur og er 1000 sinnum hollari. Hann er líka frábært með sætum kartöflum. Algjör snilld. Ég á eftir að sakna matarins á Heilsustofnun alveg óendanlega mikið,“ segir Geir Gunnar.

Matseðill Geirs Gunnars

Morgunmatur

Hafragrautur úr tröllahöfrum, chia-fræjum, möndlum, kókosflögum, niðurskornu epli og kanil. Þessi klikkar aldrei og hefur haldið mér gangandi frá því að ég man eftir mér.

Millimál nr. 1

Lífkornabrauðsneið eða hrökkbrauð með smjöri, osti og gúrkum. Hálf appelsína og eitt egg. Þetta er svona týpískt.

Hádegismatur

Ýmis eldaður matur á vinnustöðum mínum, annars afgangar að heiman.

Millimál nr. 2

Lúkufylli af möndlum, epli og ein teskeið hnetusmjör.

Kvöldmatur

Heimilismatur. Síðasta kvöldmáltíðin mín var soðin ýsa með soðnu grænmeti og ég bætti við súrkálinu mínu og nokkrum tómötum. Í eftirrétt er alltaf eitt gott epli.

Borða ekkert eftir klukkan 19 og aðhyllist 12:12 föstu sex daga vikunnar. Það er að segja ég borða ekkert í tólf klukkustundir, frá sjö á kvöldin til sjö á morgnana, en borða reglulega hinar tólf klukkustundirnar.

Það er hægt er að fylgjast með Geir Gunnari á Facebook og Instagram undir „Heilsugeirinn“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

HelgarmatseðillMatur
Fyrir 3 vikum

Ómótstæðilegur helgarmatseðill með ítölsku ívafi í boði Lindu Ben

Ómótstæðilegur helgarmatseðill með ítölsku ívafi í boði Lindu Ben
Matur
Fyrir 3 vikum

Gabríel töfrar fram tryllingslega gott tígrisrækjusalat

Gabríel töfrar fram tryllingslega gott tígrisrækjusalat
HelgarmatseðillMatur
20.05.2022

Maríanna er brjáluð í nautasteikur og ekkert gleður hana eins mikið og Tiramisu

Maríanna er brjáluð í nautasteikur og ekkert gleður hana eins mikið og Tiramisu
Matur
18.05.2022

Ný vörulína frá Kaju sem á eftir að slá í gegn

Ný vörulína frá Kaju sem á eftir að slá í gegn
Matur
09.05.2022

Risarækjukokkteill eins og hann gerist bestur

Risarækjukokkteill eins og hann gerist bestur
Matur
08.05.2022

Vegan með Vítalíu – Mjúkar og djúsí súkkulaðibitakökur

Vegan með Vítalíu – Mjúkar og djúsí súkkulaðibitakökur