fbpx
Föstudagur 12.ágúst 2022
Kynning

Mun leðurjakki framtíðarinnar koma úr kombucha brugghúsi?

Kynning
Jóhanna María Einarsdóttir
Föstudaginn 30. apríl 2021 09:35

Þórlaug Sæmundsdóttir hefur gert áhugaverðar tilraunir með aukaafurð sem myndast við gerð kombucha drykkjarins. Mynd/Ernir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvað eiga kombucha og umhverfisvænt leður sameiginlegt? Er hægt að prjóna úr kolkrabbaörmum? Textílneminn Þórlaug Sæmundsdóttir er forfallinn aðdáandi kombucha og hefur verið að gera afar spennandi tilraunir sem tengjast þessum ævaforna svaladrykk. Hún segist vera á byrjunarreit í rannsóknum sínum, en þær lofa afar góðu og hún er hvergi nærri hætt.

Þórlaug Sæmundsdóttir kynntist fyrst töfrum kombucha í gegnum þau Rögnu og Manuel, stofnendur og eigendur Kombucha Iceland. „Ég smakkaði fyrst kombucha í garðpartý hjá þeim fyrir nokkrum árum, en Ragna er vinkona mín. Ég varð aðdáandi frá fyrsta sopa. Sjálf aldist ég upp við að fá eplaedik út í vatn í sveitinni hjá henni frænku minni þegar mér var illt í maganum. Þetta virkaði alltaf til að stilla af magaverk og ég vandist vel súru bragðinu og kann vel að meta það í kombucha drykknum í dag. Kombucha er líka algert nammi miðað við eplaediksvatnið,“ segir Þórlaug.

Slímug aukaafurð kombucha kemur til sögunnar

Þórlaug er nemandi í textíldeild Myndlistaskóla Reykjavíkur og hefur verið að gera sérlega spennandi tilraunir í námi sínu við að nota SCOBY í listsköpun. SCOBY (e. Symbiotic Colony of Bacteria and Yeast) er lífræn aukaafurð sem myndast á yfirborðinu við gerð Kombucha. Hann er ljósbrúnn á litinn og slímugur viðkomu. Stundum má jafnvel finna lítinn SCOBY í flöskunum frá Kombucha Iceland. En líkt og Þórlaug hefur verið að gera, þá má nota þessa mögnuðu og sjálfbæru aukaafurð í ýmislegt annað, líkt og textíl, snyrtivörur og jafnvel matvörur og fleira.

„Ég fékk fyrst áhuga á SCOBY í efnisfræðiáfanga í textílnáminu. Þar vorum við að skoða nýjungar í efnum og þróun þeirra. SCOBY býður upp á gífurlega spennandi möguleika og ég datt til dæmis niður á áhugaverðar tilraunir netinu þar sem fólk er að búa til SCOBY leður. Þessi hópur fólks virðast hafa mikla ástríðu fyrir því að koma fram með nýstárlegt hugvit og finna upp nýjar leiðir til að leggja sitt á vogarskálar umhverfisins. SCOBY leður er til dæmis mjög spennandi vegan leður valkostur þar sem það er ekki úr plasti eða öðrum ónáttúrulegum efnum eins og margt annað vegan leður. Og þrátt fyrir að dýraleður sem slíkt sé náttúrulegt þá er sútun á því gífurlegur mengunarvaldur. Því væri SCOBY leður ekki bara áhugaverður vegan möguleiki, heldur líka fyrir umhverfið. SCOBY er líka frábær valkostur í staðinn fyrir pólýester, akrýl og plast.“

Ákall eftir umhverfisvænni leiðum

Að sögn Þórlaugar eru ekki margir hér á landi að vinna með SCOBY í textíl en þó séu nokkrir frumlegir aðilar að vinna með ýmsar bakteríur til að framleiða efni. Þórlaug segir örverur bjóða upp á mikla möguleika í sjálfbærri framleiðslu á textíl. „SCOBY er mjög sterkt efni og hann getur vaxið mjög þykkur og því býður hann upp á ýmsa spennandi möguleika. Ég hef alltaf haft áhuga á því að vinna með óhefðbundin efni. Í textílnáminu hef ég til dæmis verið að nota vír og plast. Plast er mjög hentugt í hugmyndavinnu og það er hægt að vinna mjög hratt með það, en það er alls ekki umhverfisvænt efni. Í textíliðnaðinum í dag ríkir sterk umhverfismeðvitund enda er þetta annar mest mengandi iðnaðurinn í heiminum. Þá er ákallið um að minnka mengun og umhverfisáhrif mjög hávært og sömuleiðis að finna hreinni og náttúrulegri efni sem eru betri fyrir umhverfið.“

SCOBY (e. Symbiotic Colony of Bacteria and Yeast) er lífræn aukaafurð sem myndast á yfirborðinu við gerð Kombucha. Hann er ljósbrúnn á litinn og slímugur viðkomu.

Gífurlegir möguleikar

„Ég ræddi við Rögnu og spurði hvort hún hefði rekist á fólk sem væri að vinna með SCOBY á þennan hátt á þeim fjölda ráðstefnum sem þau hafa sótt, og það hafði hún svo sannarlega gert. Þau redduðu mér SCOBY úr Kombucha Iceland framleiðslunni til að prófa mig áfram. Núna er ég að gera tilraunir með að rækta upp mína eigin SCOBY út frá þeim sem ég fékk síðast frá Kombucha Iceland.“

Í textíl er þessi náttúrulegi efniviður þurrkaður upp og notuð eru efni til þess að gera efnið sveigjanlegt og vatnshelt. „Fólk hefur búið til ýmislegt úr SCOBY eins og kjóla, töskur, hanska og fleira. Til eru leiðir til að gera SCOBY vatnsheldan og það er víst ekkert mál, en krefst því miður efna sem eru ekki fullkomlega náttúruvæn. Það er þó verið að vinna að því á mörgum vígstöðum að þróa náttúruvænar aðferðir. Svo vorum við í prjónaáfanga í skólanum og mér datt í hug hvort það væri ekki hægt að prjóna úr SCOBY. Þá tók ég þunnan SCOBY og klippti í spíral til að búa til þráð og prjónaði með garðaprjóni. Það er mjög spes tilfinning að vinna með SCOBY á meðan hann er blautur enda frekar slímugur viðkomu, eins og kolkrabbaarmar. Svo lagði ég prjónið til þerris og þá myndaðist körfulaga SCOBY prjón. Svo prófaði ég að bleyta upp í honum og þá gat ég breytt um form eins og ég vildi. Það fannst mér spennandi.

Þórlaug tók þunnan SCOBY og klippti í spíral til að búa til þráð og prjónaði með garðaprjóni.

Í öðrum kúrs rannsakaði ég það hvernig SCOBY bregst við ýmsum efnum eins og salti, sykri og glýseróli. Þá prófaði ég að láta hann þorna á mismunandi máta og bjó til þráð. Sú vinna er enn í gangi. Nú síðast var ég að prófa að lita hann með kemískum litarefnum, en þannig er flestallur textíll litaður í dag enda hægt að ná fram mjög sterkum litum þannig. Einnig hef verið að prófa náttúrulega liti við að lita SCOBY sem gefa góða raun. Það er eitthvað bogið við að nota kemísk litarefni í svona náttúrulega og hreina framleiðslu, þó svo við hugsum okkur varla tvisvar um þegar kemur að fallegum bómull eða hör.“

Þórlaug lagði prjónið til þerris og þá myndaðist körfulaga SCOBY prjón. Svo prófaði hún að bleyta upp í honum og þá gat hún breytt um form eins og hún vildi. Það fannst henni spennandi.

Kemur í bylgjum

Þórlaug segist vera ein af þeim sem trúir því að ef maður finnur hjá sér þörf til að drekka eða borða eitthvað ákveðið, eins og til dæmis rauðrófur eða kombucha, þá sé líkaminn að kalla eftir þeim næringarefnum sem er að finna í matnum eða drykknum. „Ég er ekki mikil rútínumanneskja en ég finn að ef ég hef ekki drukkið kombucha í lengri tíma, finn ég fyrir vöntun í kombucha. Ég hef tröllatrú á kombucha sem heilsudrykk og kombucha tekur líka í burt nartþörfina seinni part dags sem mér þykir mikill kostur. Svo er þetta einfaldlega svo gott á bragðið.

Ég kaupi mikið kombucha í Krónunni og finnst voðalega þægilegt að grípa það með mér. En það er þó alltaf mesta sportið að kaupa kombucha beint af dælu þar sem ég kemst í það. Það er einhver góður fílingur í því og mér finnst það betra þannig. Það er kannski eitthvað sálrænt, ég veit það ekki, en það er allavega stórskemmtileg viðbót.

Sjálf er ég mikill aðdáandi Rauðrófu kombucha sem er pínu kryddað, en ég er alger rauðrófufíkill sem hefur alveg örugglega með járnskort að gera, eins og er hjá mörgum konum. Einnig finnst mér krækingifer mjög gott. Það fer algerlega eftir hvernig skapi ég er í, hvaða bragð ég sæki í og þá skiptir líka máli fyrir mig hvort ég er að drekka kombucha sem svaladrykk eða fyrir heilsubætandi áhrif. Einmitt núna er ég að sötra glóaldin. Dætur mínar, 6 og 10 ára, eru líka algerlega sjúkar í kombucha frá Kombucha Iceland. Eldri stelpan mín er forfallinn aðdáandi melónu og myntu kombucha sem er því miður uppseldur eins og er og hún bíður spennt eftir að það komi aftur í búðir.“

Spennandi tímar framundan

Þórlaug segist enn vera á byrjunarstigi í tilraunum sínum með SCOBY og að hún sé hvergi nærri hætt. „Þó svo ég sé í textílnámi þá liggur áhugi minn ekki endilega í fatahönnun eða saumaskap. Minn áhugi er mun meira á listasviðinu og ég hef mikinn áhuga á að skoða möguleika SCOBY í listsköpun. Þó svo mig langi til að skoða betur hvernig megi gera SCOBY vatnsheldan þá finnst mér samt rosalega heillandi þessi eiginleiki efnisins að geta þurrkað það og bleytt upp aftur til að breyta um form.“

Þórlaug mun taka þátt í Hönnunarmars sem haldinn verður dagana 19.-23. maí. Sýning textíl- og keramikdeilda Myndlistaskóla Reykjavíkur verður í Hannesarholti yfir tímabilið og mun Þórlaug að sjálfsögðu nýta þurrkaðan SCOBY til að búa til ævintýralega innsetningu á sýningunni. „Þá mun ég nota SCOBY textíl, litaðan og ólitaðan með kemískum og náttúrulegum aðferðum, sem og leður og annan lífrænan textíl til að búa til færanlegt mynstur.“ Þeim sem vilja fylgjast með SCOBY pælingunum og tilraunum Þórlaugar er bent á Instagramsíðuna hennar: thorlaug.saem.

Nánari upplýsingar á kubalubra.is, facebooksíðunni Kombucha Iceland og Instagram: kombuchaiceland.

Eftirfarandi aðilar í Reykjavík eru meðlimir í Kombucha Iceland-fjölskyldunni Nettó| Veganbúðin| Krónan| Melabúðin| Fjarðarkaup| Heilsuhúsið| Matarbúðin Nándin| Brauð og co. og í Heimkaupum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
17.11.2021

Meltingarflóran er ALLT

Meltingarflóran er ALLT
Kynning
09.11.2021

Járn er lífsnauðsynlegt steinefni fyrir mannslíkamann

Járn er lífsnauðsynlegt steinefni fyrir mannslíkamann
Kynning
04.10.2021

Æsandi gaman í hverjum glugga í desember

Æsandi gaman í hverjum glugga í desember
Kynning
22.09.2021

Innleiðing Siðferðisgáttar hjá BYKO

Innleiðing Siðferðisgáttar hjá BYKO
Kynning
23.07.2021

Plaköt af verkum Samúels til sölu til uppbyggingar Samúelssafnsins í Selárdal: Hans var aldrei getið í íslenskri listasögu

Plaköt af verkum Samúels til sölu til uppbyggingar Samúelssafnsins í Selárdal: Hans var aldrei getið í íslenskri listasögu
Kynning
13.07.2021

Lúsmý virðist herja á fólk um land allt með tilheyrandi óþægindum

Lúsmý virðist herja á fólk um land allt með tilheyrandi óþægindum
Kynning
22.06.2021

Hágæða rúm, borðstofuborð, sófaborð og stólar á fáránlegum afslætti hjá Vogue

Hágæða rúm, borðstofuborð, sófaborð og stólar á fáránlegum afslætti hjá Vogue
Kynning
11.06.2021

Boðhlaup BYKO

Boðhlaup BYKO