fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Líkfundur Fjölnis orsakaði fangelsisvist: „Vandræðalegt mál fyrir yfirvöld“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 6. apríl 2018 10:45

Húðflúrari og píslarvottur hundaeigenda í Reykjavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Áður en Fjölnir Geir Bragason varð þekktasti húðflúrari landsins komst hann í fréttirnar fyrir algerlega óskylt málefni. Árið 1983, þegar hann var aðeins 18 ára gamall, var hann fangelsaður í Hegningarhúsinu fyrir hundahald. Ekki nóg með það þá hafði hundurinn sem um ræðir aðstoðað lögregluna við að finna lík manns sem leitað var að. Fjölnir ræddi við DV um þetta undarlega mál.

Fjölnir og Pete

Fann til með manninum

Árið 1924 var hundahald alfarið bannað í Reykjavík með reglugerð. Smalahundar og aðrir þarfahundar voru þó leyfðir á lögbýlum. Á þeim tíma var sjaldgæft fólk héldi hunda sem gæludýr. En eftir því sem víðsýni landans óx á 20. öldinni gætti meiri óánægju með þetta ástand og sífellt fleiri vildu fá að halda hund í borginni. Árið 1973 lögsótti hundaeigandi í Reykjavík borgarstjórn fyrir bannið og taldi brotið á stjórnarskrárvörðum réttindum sínum sem vörðuðu friðhelgi einkalífs. Eigandinn náði ekki sínu fram með lögsókninni og óánægja borgarbúa jókst með hverju árinu. Tíu árum eftir málshöfðunina komst hreyfing á málið þegar hinn ungi Fjölnir fór í sinn afdrifaríka göngutúr. Fjölnir segir:

„Ég var á göngu í Öskjuhlíðinni að æfa hundinn minn Pete sem var þá ekki nema hálfs árs hvolpur af Labrador-kyni. Pete þennan fékk ég hjá breska sendiráðinu. Klukkan var átta um kvöld í miðjum febrúar og jafnfallinn snjór yfir öllu. Allt í einu fann hann einhverja lykt og tók á rás alla leið niður að þeim stað þar sem veitingahúsið Nauthóll er í dag. Ég elti sporin þar til ég kom að rjóðri. Þar sá ég fætur manns standa út undan rjóðrinu og ég sá að hann var látinn.“

Hvernig varð þér við að sjá þetta?

„Hann hafði augljóslega svipt sig lífi og ég fann til með honum þegar ég sá hann.“

 

Prinsippmál að borga ekki sektina

Fjölnir fór heim til sín og ætlaði ekki að segja neinum frá því sem hann hafði fundið. Lögreglan hafði verið að fylgjast með honum á gangi með hundinn og keyrði þá oft hægt framhjá. Þetta fannst Fjölni bæði skrýtin og óþægileg hegðun lögreglunnar.

„Mamma sá strax að það var eitthvað að eftir að ég kom heim. Hún hringdi í lögregluna sem kom og sótti mig og fór með mér að Öskjuhlíðinni og ég sýndi þeim hvar hundurinn hafði fundið manninn. Þá komst ég að því að lögreglan hafði verið að leita að honum í nokkra daga eftir að hann strauk af stofnun. Þeir sögðu jafn framt við mig að hundahald væri bannað en að ég fengi nú undanþágu fyrir fundinn.“

Skömmu síðar fékk Fjölnir hins vegar sekt sem hljóðaði upp á sex þúsund krónur. En honum var gefinn 2.000 króna afsláttur vegna ungs aldurs. Hann ákvað að greiða ekki sektina og sitja heldur af sér skuldina með viku fangelsisvist samkvæmt kvaðningu.

Var prinsippmál að borga ekki?

„Já. Mér fannst þetta mjög ósanngjarnt. Ég var aðeins átján ára strákur og átti enga peninga. Hundurinn hafði hjálpað lögreglunni við að finna líkið og ég átti svo að greiða sekt.“

Fjölnir og faðir hans settust niður og reiknuðu út að vistin yrði ágætis tímakaup miðað við það starf sem Fjölnir vann á þeim tíma, en þá vann hann sumarvinnu í Árbæjarsafni við að setja upp girðingar.

Við Hegningarhúsið

Fjölmiðlafár við Hegningarhúsið

Mánudaginn 4. júlí fór Fjölnir því að Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg til þess að taka út sína refsingu fyrir líkfundinn. En áður en hann fór hringdi hann í Hundaræktarfélag Íslands og lét þá vita hvað væri að gerast og hvort þeir gætu litið eftir hundinum á meðan hann sæti inni. Þegar hann kom að fangelsinu sá hann að þar hafði safnast saman fólk, blaðamenn og formaður Hundaræktarfélagsins sem var mjög reiður og í miklu rifrildi við fangavörð.

„Fangavörðurinn spurði mig hvort ég væri með kvaðningu og ég sagðist hafa týnt henni. „Þá kemur þú ekki hér inn“ sagði vörðurinn en áttaði sig síðan á því hversu vitlaust það var og hleypti mér inn. Síðan fann ég hana í rassvasanum.“

Varstu ekkert smeykur við að fara inn?

„Nei, nei. Pabbi stappaði í mig stálinu og var stoltur af mér fyrir framtakið.“

Áður en Fjölnir fór inn hafði DV birt frétt um hvað til stæði. Þegar hún birtist bauðst Guðmundur Óskarsson, fisksali í Sæbjörgu, til þess að greiða sektina. Hann sagði að fangelsið gæti tekið hana af 30 þúsund króna skuld fangelsisins við hann. Þá stofnaði Hundaræktarfélagið styrktarsjóð fyrir Fjölni til að koma til móts við vinnutap hans vegna fangelsunarinnar.

„Þjóðfélagið fór á hliðina því fólki fannst það hneisa að fangelsa 18 ára strák fyrir að hjálpa löggunni. Á þessum tíma átti Davíð Oddsson borgarstjóri hundinn Tanna og Albert Guðmundsson fjármálaráðherra tíkina Lucy. Í blöðunum birtust oft myndir af þeim með hundum sínum. Það komu blaðamenn frá Þýskalandi og Frakklandi til að taka viðtal við mig.“

Þá birtist einnig umfjöllun um málið í norrænum blöðum. Hér á Íslandi fjallaði DV mest um málið og Loki henti grín að því. „Voff Voff“ og „Hvað ætli hundurinn sé upp á marga fiska“.

 

Vandræðalegt fyrir lögregluna

Eftir einn dag inni var Fjölni sleppt og honum sagt að ónefndur maður hefði gert upp skuldina um hádegisbil 5. júlí. Fjölnir segist enn í dag ekki vita hver það var eða hvort það sé yfir höfuð satt.

„Einhver huldumaður á að hafa komið og leyst mig út og ég kann honum bestu þakkir ef svo er. En mig grunar að mér hafi verið sleppt vegna þess að þetta var vandræðalegt mál fyrir yfirvöld og þau vildu losa sig undan þessu sem fyrst.“

Fjölnir segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi í þjóðfélaginu í mörg ár eftir þennan atburð. Ókunnugt fólk stöðvaði hann út á götu til að þakka honum fyrir að standa á sínu. Úr styrktarsjóðnum fékk hann greiddar tvö þúsund krónur og til stóð að halda sjóðnum gangandi ef fleiri sambærileg mál kæmu upp.

Píslarvottur hundaeigenda í Reykjavík

Hafði áhrif

„Fjöldi fólks var búinn að berjast fyrir að fá að halda hunda í Reykjavík í mörg ár. Þetta varð til þess að borgin fór að gefa út undanþágur til hundaeigenda.“

Árið 1984, ári eftir fangelsun Fjölnis, lét borgarstjórn undan þrýstingi almennings og samþykkti að veita undanþágur frá banninu. Undanþágurnar áttu að gilda til ársins 1988 þegar atkvæðagreiðsla var haldin um málið. Samþykkt var að halda óbreyttum reglum en atkvæðagreiðslan olli hins vegar miklum deilum vegna orðalags spurningarinnar sem borin var upp. Hundahald var alfarið leyft í Reykjavík árið 2012 en enn þá þarf að sækja um leyfi.

Leiðir Fjölnis og Pete skildi hins vegar skömmu eftir sumarið 1983. Fjölnir fór á verbúð um haustið og móðir hans gaf þá Pete frá sér. Fjölnir fagnaði því þó að hann komst á gott heimili.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Einmana ekkja taldi sig hafa fundið draumaprinsinn – Í staðinn hófst matröð sem rændi hana aleigunni og loks lífinu

Einmana ekkja taldi sig hafa fundið draumaprinsinn – Í staðinn hófst matröð sem rændi hana aleigunni og loks lífinu
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum