Björgunarsveitir á Suðurlandi og úr Árnessýslu voru kallaðar út í gærkvöldi eftir að neyðarboð bárust frá sendi á Fjallabaki, frá svæðinu norðan Torfajökuls. Slagveður var á hálendinu í gær og miklir vatnavextir. 15-20 m/s voru fyrir innan Landmannalaugar í gærkvöldi og fjöll farin að taka á sig hvítan lit. Síðar bættust björgunarsveitir af Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu við leitarhópana.
Maðurinn, sem er erlendur ferðamaður, fannst skömmu fyrir klukkan tvö í nótt en um 200 björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Suðurnesjum tóku þátt í leitinni. Maðurinn er heill á húfi en hann var einn á ferð og fannst í Jökulgili sem gengur inn af Landmannalaugum. Þar var hann í tjaldi.