

Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur tekið fleiri veikindadaga síðustu þrjú ár en árin á undan, eins og fram hefur komið í fréttum, meðal annars ítarlegu yfirliti Berghildar Erlu Bernharðsdóttir blaðamanns á Sýn.
Á síðasta ári voru 7,4 prósent starfsmanna Reykjavíkur frá vinnu á hverjum degi að meðaltali vegna veikinda.
Reykjavíkurborg, nánar tiltekið skrifstofa starfsþróunar og starfsumhverfis brá því greinilega á það ráð að auglýsa eftir sérfræðing á sviði viðverustjórnunar í 100% starf og ekki einum heldur tveimur. Í starfsauglýsingu segir að sérfræðingur í viðverustjórnun er hluti af þriggja manna teymi sem hefur það hlutverk að vinna að lægra veikindahlutfalli hjá Reykjavíkurborg, á grundvelli viðverustefnu Reykjavíkurborgar.
Meðal verkefna eru ráðgjöf og stuðningur við stjórnendur um viðverusamtöl, endurkomusamtöl og aðrar aðgerðir, auk kynningar- og fræðslustarfs. Unnið er náið með starfsfólki mannauðsmála á sviðum borgarinnar og með sérfræðingum mannauðs- og starfsumhverfissviðs.
Sjá má auglýsinguna hér og menntunar- og hæfniskröfur, auk helstu verkefna og ábyrgðar.
Þessi auglýsing kætir greinilega Snorra Másson, varaformann og þingmann Miðflokksins, sem deilir henni á Facebook-síðu sinni með orðunum:
„Þegar allir eru hættir að mæta í vinnuna er það eina í stöðunni auðvitað að ráða nýjan starfsmann, nánar tiltekið sérfræðing. Fyrsta verk starfsmannsins er að kanna hvers vegna allir hinir eru hættir að mæta. Ef nýi starfsmaðurinn hættir líka að mæta, þarf einfaldlega að auglýsa stöðu sérfræðings í viðverustjórn viðverustjórnarsérfræðingsins. Þetta er sjálfbært ferli og má endurtaka þar til vandinn er leystur.“
Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Samstöðvarinnar er fljótur að svara Snorra með öflugu skoti: „Þið ættuð að fá ykkur svona í Miðflokknum, kannski Sigmundur myndi mæta betur í þinginu.“
Eins og fjallað hefur verið um í fréttum er mæting formanns Miðflokksins ekki til fyrirmyndar þegar kemur að mætingu, að minnsta kosti þegar gengið er til atkvæðagreiðslu.
Sjá einnig: Gerir grín að mætingu Sigmundar á Alþingi – „Fjarverandi 162 atkvæðagreiðslur í röð“
Ef núverandi þing er skoðað má sjá að Sigmundur hefur verið fjarverandi í 117 skipti, eða 22,9% af 511 atkvæðagreiðslum.
Mæting Snorra er töluvert betri og hefur hann verið fjarverandi í 42 skipti af 511, eða 8,2%.
„Mér er sagt að þessu starfi verði að mestu sinnt í fjarvinnu,“ segir Stefán Einar Stefánsson ritstjóri Spursmála á Mbl.
Rögnvaldur Johnsen segist bíða spenntur eftir næstu auglýsingu: „Og hver ætlar að halda utan um viðveru þessa starfsmanns? Fylgist spenntur með næstu auglýsingu.“