

Sú umræða fer vaxandi í bæði fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að klerkastjórnin í Íran riði til falls en mikil mótmæli hafa verið í landinu að undanförnu og nokkrir tugir mótmælenda eru sagðir hafa látist. Sérfræðingur í miðausturlandafræðum segir klerkastjórnina aldrei hafa staðið jafn höllum fætti síðan hún náði völdum í landinu 1979
Þetta eru ekki fyrstu mótmælin sem breiðast út um Íran á þessari öld en þau hafa alltaf á endanum verið kveðin niður með harðri hendi af hálfu yfirvalda en sumir mótmælendur segja stöðuna öðruvísi í þetta sinn og að nú verði stjórnarskipti knúin fram. Hafa sumir mótmælendur fullyrt við vestræna fjölmiðla að heildarfjöldi þeirra skipti hundruðum þúsunda.
Stjórnmálaskýrendur segja helsta hvatann á bak við mótmælin í þetta sinn vera erfitt efnahagsástand og tilheyrandi erfiðleikar almennings. Þar fléttist saman viðskiptaþvinganir, mikil verðbólga og fallandi gengi gjaldmiðilsins, Ríal. Þráin eftir meira persónulegu frelsi hafi þó einnig sitt að segja.
Ljóst er að eftir átökin við Ísrael á síðasta ári og loftárásir Bandaríkjanna hefur dregið úr hernaðarmætti Írans og pólitískum styrk stjórnarinnar.
Sænska ríkissjónvarpið SVT ræddi við Alexander Atarodi sérfræðing í Miðausturlandafræðum sem bendir á að efnahagur Írans sé mjög háður útflutningi á olíu en viðskiptaþvinganir geri þeim erfitt fyrir við útflutninginn en Íran er meðal þeirra landa heims sem búa yfir einna mestum olíuauðlindum. Verðið sem Íranir fái fyrir olíuna sem seljist hafi einnig haldist lágt og það hafi í för með sér að árum saman hafi skort fé til nauðsynlegra fjárfestinga í innviðum landsins sem auki síðan á óánægju almennings. Miklir þurrkar og vatnsskortur vegna loftslagsbreytinga og lélegra innviða hafi einnig sitt að segja.
Atarodi bendir einnig á að stríðsátökin við Ísrael og Bandaríkin í fyrra hafi kostað Írani mikið og þar með aukið enn frekar á efnahagserfiðleikana. Fram kemur í samtali SVT við konu sem búsett er í Íran að almenningur eigi sífellt erfiðara með að hafa efni á mat og það á sinn þátt í að hvetja til mótmæla en verðhækkanir og hertar reglur um innflutning vara hafa stuðlað einna mest að þessari þróun.
Aterodi bendir einnig á að almenningur átti sig á að pólitísk staða Írans og hernaðarlegur styrkur þess hafi veikst og það þýði ekki fyrir klerkastjórnina lengur eins og áður hafi gagnast henni að vísa til þess að þótt efnahagurinn væri erfiður byggi landið þó yfir sterkri stöðu í Miðausturlöndum. Stjórnin hafi aldrei staðið eins veikt.
Umrædd kona sem SVT ræddi við segir klerkastjórnina ekki standa með almenningi sem muni þess vegna gera byltingu og losa sig við hana. Mótmælendur heyrast á götum úti kalla eftir „dauða harðstjóranna.“
Mótmælin hafa staðið yfir í tvær vikur en umfang þeirra fer vaxandi og þau breiðast út um landið og hafa nú náð til um 100 borga og bæja. Stjórnvöld hafa, sem fyrr við slíkar aðstæður, brugðist við af hörku. Lokað hefur verið fyrir internetið í landinu og fram kemur í umfjöllun CNN að samkvæmt mannréttindasamtökum sem fylgjast vel með stöðu mála í Íran hafi 45 mótmælendur látið lífið af völdum öryggissveita landsins. Í umfjöllun SVT er haft eftir öðrum mannréttindasamtökum að þessi tala sé komin upp í 62, 2.300 manns hafi verið handteknir og saksóknarar hóti þeim sem valdi eignatjóni dauðarefsingu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði áður hótað því að Bandaríkin myndu skerast í leikin ef írönsk stjórnvöld færu að drepa mótmælendur en það hefur ekki gerst enn. Ali Khamenei æðsti klerkur og um leið æðsti leiðtogi Íran hefur beint því til forsetans að einbeita sér frekar að vandamálum síns eigin lands. Í umfjöllun BBC kemur fram að klerkurinn segir mótmælendur raunar vera á vegum Bandaríkjastjórnar og séu að reyna að þóknast Trump. Rezha Pahlavi sonur og nafni keisarans sem steypt var af stóli þegar klerkaveldi var komið á 1979 hefur beðið Trump að vera viðbúinn því að blanda sér og Bandaríkjunum í mótmælin til að vernda írönsku þjóðina. Pahlavi sem býr í Bandaríkjunum var erfingi krúnunnar og er því í útlegð en hann hefur hvatt Írani sem búa utan heimalandsins um að vera óþreytandi við að minna heimsbyggðina á hvað sé að eiga sér stað í landinu.
CNN ræðir við Karim Sadjadpour sérfræðing í málefnum Miðausturlanda sem tekur undir að klerkastjórnin hafi aldrei staðið verr og minnir á að helstu bandamenn hennar á svæðinu og alþjóðavettvangi standi annað hvort mjög illa eða hafi hreinlega misst öll völd. Hann vísar þar til Hamas og Hezbollah samtakanna annars vegar og hins vegar Bashar al- Assad sem steypt var af forsetastóli í Sýrlandi og Nicolas Maduro sem sviptur var forsetastólnum í Venesúela og situr nú í fangelsi í Bandaríkjunum.
Sadjadpour telur líklegt að einhverjar breytingar séu í aðsigi í Íran en það sé ekki fullvíst en hann telur að þrýstingur frá almenningi sé ekki nóg til að knýja fram breytta stjórnarhætti heldur þurfi einnig aðilar innan stjórnkerfisins og hersins að þrýsta á um það. Horfir hann einnig til hins valdamikla Byltingarvarðar og segir skipta miklu máli til hvaða bragðs tekið verði af æðstu foringjum hans.
Stjórnvöld í Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi hafa fordæmt ofbeldi íranskra stjórnvalda í garð mótmælenda. Þjóðaröryggisráð Íran hefur, samkvæmt umfjöllun BBC, sent út viðvaranir í farsíma almennra borgara um að tekið verði á hvers kyns mótmælum af fullri hörku og borist hafa fregnir og frásagnir frá Íran af því að mótmælendur hafi verið skotnir til bana en eftir að lokað var fyrir netið í landinu er erfiðara um vik að fá sem heildstæðar fréttir af atburðarásinni.
Hvort sögulegar breytingar séu í aðsigi í Íran eða hvort mótmælin verða barin niður eins og áður á eftir að koma í ljós.