fbpx
Fimmtudagur 08.janúar 2026
Fréttir

Guðni hrósar Ölgerðinni – „Mörg fyrirtæki hafa því miður reynst amlóðar“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 7. janúar 2026 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, fagnar mjög þeirri ákvörðun Ölgerðarinnar að gefa móðurfélagi samstæðunnar nafnið Bera. Drykkjarvöruhluti fyrirtækisins mun áfram bera nafnið Ölgerðin.

„Ráðamenn Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar eru íslenskunni trúir. Þeir sýna fordæmi sem ætti að vera öðrum fyrirmynd um nafnaval á fyrirtækjum sínum. Móðurfyrirtækið hlaut nafnið Bera, bæði í höfuð á móður Egils og dóttur hans,” segir Guðni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, en hann hefur skrifað nokkuð um og gagnrýnt nafnaval íslenskra fyrirtækja sem oftar en ekki bera ensk heiti. Þá hefur hann gagnrýnt stjórnvöld fyrir að fljóta sofandi að feigðarósi þegar kemur að verndun íslenskrar tungu.

„Innilegar hamingjuóskir, Ölgerðarmenn, þið sýnið móðurmáli okkar mikla virðingu með nafnvalinu, á tímum þegar íslenskan á í vök að verjast. Mörg fyrirtækin hafa því miður reynst amlóðar og orðamóðurinni slakir varðmenn,“ segir hann.

Hann vísar í ummæli Dóra DNA sem sagði fyrir skemmstu að það að vilja verja tungumálið ætti að vera sjálfsagt mál og allir flokkar ættu að leggja sitt af mörkum.

„Hvar eru alþingismenn vorir þegar afabarn Halldórs Laxness gengur fram og segir undanhaldinu og þessum aumingjaskap til syndanna? Ætli þingmennirnir haldi að þeir verði að athlægi og kannski taldir gamaldags gangi þeir fram fyrir skjöldu? Ríkisstjórn og Alþingi bera ábyrgð á þeirri stöðu að hingað eru komnir tugir þúsunda erlends fólks til vinnu sem notar eingöngu ensku í þjónustustörfum sínum. Þetta fólk á að læra íslensku og þarna liggur ný hætta í að fórna tungumálinu. Því eiga ríkisstjórn, Alþingi og atvinnulífið að leggja mikið fjármagn til íslenskukennslu því oft var þörf en nú er nauðsyn. Lilja Alfreðsdóttir var sem ráðherra og alþingismaður íslenskunni trú, hún fór á fund Google og gervigreindarinnar og vann íslenskunni kraftaverk, sem þakkað verður og skiptir miklu máli.“

Guðni segist lengi hafa talið að ekki sé við börnin og skólana að sakast að íslenskan hafi látið undan síga. Þar eigi þeir fullorðnu, ekki síst stjórnmálamenn, fyrirtækjaeigendur og ferðaþjónustan, stærsta sök.

„Alþingi ber að setja lög um að öll fyrirtæki beri nöfn sem falla að móðurmálinu okkar, þ.e. aðalnafn. Svo ég vitni enn til Dóra DNA: „Við þurfum ekki að leggjast svona undir túrismann.“ Á þetta hafa margir bent síðustu misseri, og þar á meðal er Bubbi Morthens söngvari, sem sagði: „Tungumálið okkar er fast í kviksyndi aðgerðaleysis.“ En nú kemur Dóri DNA og honum er alvara. Hver er afstaða þingmanna og ráðherranna? Glotta þeir við tönn? Og fljóta sofandi að feigðarósi íslenskrar tungu?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigríður Margrét ráðin forstjóri Bláa lónsins

Sigríður Margrét ráðin forstjóri Bláa lónsins
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ferðamaður hætt kominn í Reynisfjöru – „Þetta er nákvæmlega það sem á EKKI að gera á Íslandi“

Ferðamaður hætt kominn í Reynisfjöru – „Þetta er nákvæmlega það sem á EKKI að gera á Íslandi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Grænland ætti augljóslega að vera hluti af Bandaríkjunum“

„Grænland ætti augljóslega að vera hluti af Bandaríkjunum“