

Um fátt er meira rætt á heimsvísu en ástandið í Venesúela eftir að Bandaríkjamenn réðust inn í landið og handsömuðu forsetann Nicolas Maduro og fluttu hann til Bandaríkjanna þar sem hann á að sæta ákæru. Margir Íslendingar hafa gagnrýnt aðgerðirnar einkum með vísan til alþjóðalaga en fólk frá Venesúela sem búsett er hér á landi fagnar því að Maduro hafi verið settur af og segir að með gagnrýninni sé lítið gert úr þjáningum þjóðarinnar af völdum einræðisstjórnar forsetans.
Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna gagnrýnir aðgerðirnar og viðbrögð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra við þeim:
„VG fordæmir árás Bandaríkjanna á Venesúela. Vopnuð innrás í annað ríki er afdráttarlaust brot á alþjóðalögum. Smáríki eins og Ísland eiga allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt – alltaf, ekki bara þegar það hentar. Maduro á enga vorkunn skilið en brot á alþjóðalögum eru ólíðandi. Viðbrögð utanríkisráðherra eru til skammar. Ísland á að tala skýrt.“
Kona frá Venesúela sem búsett er á Íslandi ritar athugasemd við færslu Svandísar á ensku og vísar til það sem íbúar heimalands hennar hafa mátt þola af hálfu Maduro og forvera hans. Hugo Chaves:
„Ef þú hefðir þurft að lifa við það sem venesúelska þjóðin hefur þurft að lifa við síðustu 26 ár þá myndirðu ekki segja að Trump væri að brjóta alþjóðalög. Ef þú gerir það þá muntu ekki endast lengi, sósíalisti.“
Íslenskur karlmaður svarar konunni á ensku og segir að nýr leiðtogi Venesúela muni áreiðanlega fara fyrir leppstjórn sem verði undir hæl Bandaríkjanna og sú stjórn verði án efa verri en Maduro. Þessu svarar konan:
„Ég veit ekki hvað þér finnst vera verra en ekkert gæti verið verra en það sem við höfum gengið í gegnum síðustu 26 ár af stefnunni „föðurland eða dauði.“ Stundum er betra að tjá ekki skoðun sína ef maður þekkir ekki raunveralega sögu lands og sérstaklega þjóðar sem hefur verið að reyna að lifa af eftir svona mörg ár.“
Karlmaður frá Venesúela sem býr á Íslandi andmælir Svandísi ekki en bendir henni á fréttir fjölmiðla af fögnuði Venesúelabúa.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar er heldur ekki sátt við framferði Bandaríkjanna og viðbrögð Þorgerðar Katrínar við því:
„Utanríkisráðherra Íslendinga finnst gott að framið sé valdarán í fullvalda ríki í þeim yfirlýsta og opnbera tilgangi að ræna landið auðlindum. Utanríkisráðherra styður glæpi og gripdeildir, mannrán og morð. Utanríkisráðherra á að segja af sér – manneskja sem hugsar svona er ekki fær til að gegna þessari stöðu í frjálsu lýðræðisríki.“
Kona sem segist vera frá Venesúela svarar Sólveigu Önnu á íslensku en ekki kemur fram á Facebook-síðu konunnar hvort hún sé búsett á Íslandi:
„Þú hefur bókstaflega enga hugmynd um hvað Venesúelabúar hafa þjáðst á tímum þessarar einræðisstjórnar. Við búum í fátækt, án rafmagns, án lyfja, í stöðugu óöryggi, og þú heldur að það sé slæmt að fjarlægja fíkniefnaneytanda? Nei takk, við viljum að búa betra.“
Þessu svarar Sólveig Anna en minnist ekki á venesúelskan almenning:
„Ég er á móti lögleysu og upplausn á alþjóðavettvangi. Ég er á móti því að ráðist sé inn í lönd í þeim yfirlýsta (eða óyfirlýsta tilgangi) að stela auðlindum landsins. Ég er á móti því að forseti Bandaríkjanna geti gert nákvæmlega það sem honum sýnist – t.d. brotið lög eigin lands og haft stjórnarskrána að engu. Ég er á móti viðbjóðslegri heimsvalda stefnu USA sem setur alla heimsbyggðina í mikla hættu.“
Áðurnefndur karlmaður frá Venesúela sem býr á Íslandi skrifar langa athugasemd við færslu Sólveigar Önnu þar sem segir meðal annars:
„Þú ættir að stíga út úr iPhoninu þínum og tala við þá 3.000 Venesúelabúa sem búa hér. Spurðu þá hvernig þeim líður eftir að loksins eftir 26 ár af einræði… var eitthvað gert til að stöðva glæpamenn, morðingja, hryðjuverkamenn og eiturlyfjabaróna sem réðu yfir landinu okkar???. Hefurðu yfirleitt lesið um það hvernig lífið hefur verið þar? Um mannréttindabrotin, hungrið, lyfjaskortinn — á meðan kúgararnir auðguðu sjálfa sig og bandamenn sína í Kúbu, Rússlandi, Kína og Íran? Í gær var hamingjusamasti dagur lífsins fyrir milljónir Venesúelabúa. Við fylltum göturnar um allan heim í von. Og þú kemur hingað og skrifar svona bull?“
Bætir maðurinn við að fjölskylda hans í Venesúela hafi misst allt og þekki ekki tvö börn hans sem fædd séu á Íslandi.
Deila maðurinn og Sólveig Anna nokkuð í athugasemdakerfinu. Sú síðarnefnda leggur mikla áherslu á að alþjóðalögum sé fylgt:
„Ef að þið haldið að Ameríka sé að fara að frelsa ykkur frá efnahagslegum vandamálum – þá er ykkur mikil vorkun. Og þá er þekking ykkar á stöðu veraldarinnar og sögu síðustu áratuga engin – og fólk með enga slíka þekkingu ætti að fara varlega í að messa yfir öðrum. Bandaríkin ásælast nú Grænland – finnst þér að Íslendingar eigi að láta sem ekkert sé þegar að forseti Bandaríkjanna fremur valdarán til að stela auðlindum?“
Íslenskur karlmaður bendir henni á að hlusta á félagsfólk sitt í Eflingu en Sólveig Anna segir innflytjendur ekki eiga að stjórna skoðunum Íslendinga á ástandinu í heimalöndum viðkomandi. Maðurinn frá Venesúela gefur hins vegar lítið fyrir röksemdir hennar um mikilvægi þess að fylgja alþjóðalögum í málum eins og þessum:
„Það sem gerðist í gær var réttlæti. Mér er sama um „alþjóðalögin” sem þú nefnir, ekki af því að ég skil þau ekki, heldur af því að þau vernduðu aldrei fólkið í Venesúela. Þau vernda ekki fólkið á Kúbu heldur — og listinn heldur áfram. Ef þú ert ekki fær um að fagna handtöku glæpamanns og finna samúð með yfir 30 milljónum Venesúelabúa sem fögnuðu þá er lítið eftir að ræða.“
Segir Sólveig Anna ömurlegt að heyra að honum sé sama um alþjóðalög.
Maðurinn deilir við fleiri innfædda Íslendinga í athugasemdum við færslu Sólveigar. Einn þeirra sakar manninn um vanþekkingu:
„Áður en þú byrjar að tjá þig um enn eina ólöglega innrás amerískra stjórnvalda í sjálfstætt ríki legg ég til að þú kynnir þér hina blóðugu sögu Bandaríkja Norður-Ameríku.“
Þessu svarar maðurinn fullum hálsi:
„Ég hef upplifað áratugi af hungri, ofbeldi, eignarspjöllum, glæpum stjórnarinnar og því að allt stjórnast af einum flokk. Þú getur lesið um sögu Bandaríkjanna, en hún breytir engu við það sem við Venesúelubúar höfum þolað í 26 ár. Ef þú hefur ekki lifað í landinu eða talað við fólkið sem missti allt, þá skaltu ekki segja mér hvernig ég á að fagna því fyrsta merki réttlætis sem við sjáum í áratugi.“