
Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir frelssviptingu og stórfellda líkamsárás með því að hafa yfir þriggja daga tímabil svipt þáverandi sambýliskonu sína frelsi sínu á þáverandi heimili þeirra í Kópavogi og meinað henni að yfirgefa heimilið.
Á meðan frelsissviptingunni stóð beitti maðurinn konuna ítrekað ofbeldi með því að slá hana með flötum lófa, krepptum hnefa og sparka ítrekað í höfuð hennar, kynfærasvæði, búk og útlimi.
Konan hlaut mikla áverka af árásunum, meðal annars bólgur, rifbeinsbrot og bráða nýrnabilun.
Athygli vekur hvað langt er liðið frá meintum brotum en þau áttu sér stað dagana 25. til 27. ágúst árið 2014. Málið kom upp 2014 en rannsókn þess var hætt það ár. Árið 2022 kom brotaþoli á lögreglustöð og gaf breyttan framburð og lagði fram ný gögn sem talin eru styðja við hinn nýja framburð og var því rannsókn málsins tekin upp aftur.
Konan krefst fimm miljóna króna í miskabætur.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjaness þann 19. janúar.