

Viðburðahaldarinn Guðrún Helga Halldórsdóttir stendur fyrir áhugaverðri smiðju á Borgarbókasafninu Úlfarsárdal fimmtudaginn 15. janúar kl. 17, undir yfirskriftinni Byrjaðu árið með dagbókarskrifum.
Eins og heitið gefur til kynna verða dagbókarskrif í aðalhlutverki, en Guðrún trúir því að slík skrif geti verið lykillinn af því að finna gleðina í daglegu lífi, lítið tæki til að taka eftir litlu hlutunum í lífinu sem svo oft gleymast og staðurinn til að gefa sköpunargleðinni lausan tauminn.
Í smiðjunni leiðir Guðrún gesti í gegnum fjölbreyttar aðferðir við dagbókarskrif og sýnir mismunandi gerðir bóka og fylgihluta, svo sem penna, myndir og fleira, sem gætu komið að góðum notum. Auk þess deilir hún eigin reynslu af slíkum skrifum, tengingunni við Japan, þar sem hún býr hluta árs ásamt fjölskyldu sinni og segir frá verslun sinni Nakano, sem selur meðal annars japanskar vörur.
Viðburðurinn fer fram í salnum, Miðgarði, þar sem hægt verður að sitja við borð, fá sér kaffi og fylgjast með kynningunni á skjá.