fbpx
Laugardagur 27.september 2025
Fréttir

Húsnæðismál eldri borgara í Hafnarfirði enn óleyst – Meirihlutinn neitaði að taka húsið, sem er efst á óskalistanum, af söluskrá

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 27. september 2025 12:30

Húsið sem eldri borgarar hafa augastað á má sjá fyrir miðju myndarinnar en það er stórt og hvítt og rétt við hringtorgið. Hafnarfjörður.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV hefur greint frá undanfarið hefur nokkurt uppnám skapast meðal eldri borgara í Hafnarfirði og í bæjarstjórn bæjarins eftir að leigusamningi um húsnæði fyrir starfsemi Félags eldri borgara var sagt upp. Starfshópur vinnur að því að finna nýtt húsnæði og hafa eldri borgarar einna helst horft til húsnæðis sem hýsir í dag bókasafn Hafnarfjarðar en húsið er til sölu og meirihluti bæjarstjórnar, sem samanstendur af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, hafnaði tillögu minnihlutans um að taka það af söluskrá svo starfshópurinn fengi ráðrúm til að kanna það til hlítar hvort húsið hentaði félaginu. Lýsti minnihlutinn yfir furðu sinni og krafði meirihlutann um skýringar en fékk engar.

Verkalýðsfélagið Hlíf hefur leigt bænum húsnæði sitt að Flatahrauni 3 fyrir starfsemi Félags eldri borgara  í um aldarfjórðung. Hlíf tilkynnti bæjaryfirvöldum fyrir um ári síðan að það hefði hug á að segja samningnum upp en Félagi eldri borgara var ekki tilkynnt um þetta fyrr en í júní síðastliðnum. Þegar þessi viðbrögð voru gagnrýnd vísaði meirihlutinn til þess að um óljóst tal hefði verið að ræða og engin skrifleg uppsögn hefði jú borist fyrr en nú í september 2025.

Uppnám í Hafnarfirði – Félagi eldri borgara úthýst um næstu áramót

Bæjarfulltrúar meirihlutans höfðu sumir hverjir uppi þung orð í garð stjórnenda Hlífar og sökuðu Guðmund Árna Stefánsson oddvita Samfylkingarinnar, sem er í minnihluta í bæjarstjórn, um einhvers konar samkrull við Hlíf til að koma höggi á meirihlutann. Því vísaði Guðmundur Árni alfarið á bug og stjórn Hlífar gaf út sérstaka yfirlýsingu þar sem fram kom að meirihlutinn hefði vegið með ómaklegum hætti að stjórn og starfsmönnum félagsins. Lagði stjórnin áherslu á að félagið þyrfti að taka húsið undir starfsemi sína og bærinn hefði verið látinn vita fyrst með munnlegum hætti, með um árs fyrirvara, til að hann hefði nægt svigrúm til að finna lausnir á húsnæðismálum Félags eldri borgara.

Verkalýðsfélag í Hafnarfirði segist ekki standa í neinu samsæri – „Fyrir neðan virðingu kjörinna fulltrúa“

Strandgata

Starfshópur bæjaryfirvalda og Félags eldri borgara, sem ætlað er finna nýtt og hentugt húsnæði fyrir félagið, hefur tekið til starfa. Valdimar Víðisson oddviti Framsóknarflokksins og bæjarstjóri skýrði frá því á fundi bæjarstjórnar á miðvikudag að starfshópurinn, sem hann á sjálfur sæti í, hefði meðal annars rætt þann möguleika að félagið fengi til afnota hús sem stendur við Strandgötu 1 og hýsir bókasafn bæjarins. Húsið er til sölu en bókasafnið mun flytja yfir í verslunarmiðstöðina Fjörð.

Öldungaráð bæjarins samþykkti á síðasta fundi sínum ályktun um að félagið fengi umrætt hús undir starfsemi sína.

Hafnarfjarðarbær auglýsti húsið til sölu á síðasta ári. Samkvæmt auglýsingunni á að selja húsið ásamt tveimur húsum við Austurgötu. Fram kom að eignirnar þrjár yrðu seldar saman og lágmarksverð fyrir þær væri 700 milljónir króna. Hins vegar kom fram í umræðum á bæjarstjórnarfundinum á miðvikudag að gert væri ráð fyrir í fjárhagsáætlun að sala á Strandgötu 1 ein og sér myndi skila bænum 300 milljónum króna en fasteignamat þess er 445,9 milljónir króna. Engin tilboð virðast hins vegar enn sem komið er hafa borist.

Söluskrá

Samfylkingin lagði fram tillögu á fundi bæjarstjórnar á miðvikudag um að Strandgata 1 yrði tekin af söluskrá. Sagði Guðmundur Árni að stjórn Félags eldri borgara hefði komið því á framfæri við bæjarfulltrúa flokksins að vilji hennar stæði til að fá húsið undir starfsemina. Samkvæmt tillögunni var ætlunin að taka húsið af söluskrá svo starfshópurinn gæti haft það sem fyrsta valkost.

Valdimar lagði þá fram aðra tillögu um að tillögu Samfylkingarinnar yrði vísað til starfshópsins. Guðmundur Árni og aðrir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lýstu yfir furðu sinni og sögðu þeirra tillögu snúast um að auðvelda hópnum að kanna til hlítar hvort Strandgata 1 hentaði fyrir starfsemi Félags eldri borgara. Bentu þeir á að tillaga þeirra fæli ekki í sér neina endanlega ákvörðun um hvar félagið ætti að vera og sögðu að starfshópurinn hefði ekkert vald til að taka húsið af söluskrá.

Nei

Kröfðu fulltrúar Samfylkingarinnar meirihlutann svara við því af hverju það væri ekki hægt að samþykkja tillögu þeirra en fátt var um svör. Sagði Guðmundur Árni meðal annars að það væri varla boðlegt að Valdimar bæjarstjóri svaraði ekki beinni fyrirspurn um málið:

„Hver er ástæðan fyrir því að menn geta ekki einu sinni samþykkt hér tillögu um að taka hugsanlega góðan valkost af söluskrá, hugsanlega tímabundið á meðan þessi mál eru leidd til lykta? Gæti það gerst ef tilboð kæmi í húsið á morgun að menn ætluðu að selja það? Hvers konar stjórnsýsla er þetta?“

Spurði Guðmundur Valdimar hvort hann væri á móti því að eldri borgarar fengju umrætt hús undir starfsemi sína og sagði ekki ganga að bæjarstjórinn segði ekki neitt og krafðist svara frá honum eða öðrum fulltrúum meirihlutans.

Valdimar svaraði hins vegar ekki spurningum Guðmundar Árna og tillaga bæjarstjórans um að vísa tillögu Samfylkingarinnar til starfshópsins var samþykkt, af meirihlutanum. Bæjarstjórinn lagði hins vegar fram bókun fyrir hönd meirihlutans þar sem fram kom að fullur hugur væri á því að skoða alla kosti sem hentuðu við að finna nýtt húsnæði fyrir Félag eldri borgara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fjallabyggðarhöfn í vanda sem stefnir í að dýpki enn frekar

Fjallabyggðarhöfn í vanda sem stefnir í að dýpki enn frekar
Fréttir
Í gær

Kolbrún vill aðgerðir gagnvart fjárhættuspili – Íslandsspil hafi notað viðkvæma hópa í tilraunasal

Kolbrún vill aðgerðir gagnvart fjárhættuspili – Íslandsspil hafi notað viðkvæma hópa í tilraunasal
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hildur um Charlie Kirk og tjáningarfrelsið: „Hélt á lofti skoðunum sem ganga gegn gildum fjölda fólks“

Hildur um Charlie Kirk og tjáningarfrelsið: „Hélt á lofti skoðunum sem ganga gegn gildum fjölda fólks“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lést í bílslysi við gatnamót Vatnagarða og Sundagarða

Lést í bílslysi við gatnamót Vatnagarða og Sundagarða