Bandaríkjamaður sem nýlega var á ferð á Íslandi greinir frá því í Facebook-hópi um Íslandsferðir að hann hafi getað fengið flösku af Reyka vodka, sem framleitt er á Íslandi, á lægra verði í áfengisverslun í heimalandinu en í verslun Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Segist hann furða sig á þessu en þakka fyrir að geta fengið vöruna í heimalandinu.
Maðurinn birtir myndir máli sínu til sönnunar. Á myndinni frá Keflavíkurflugvelli, sem maðurinn segir að hafi verið tekin nýlega, sést að eins lítra flaska af Reyka kostaði 3.990 krónur. Á hinni myndinni sem maðurinn segir að sé tekin í áfengisverslun í New Hampshire sést að þar kostaði flaska sem inniheldur 1,75 lítra af Reyka 29,99 dollara. Það jafngildir 3.675 íslenskum krónum en raunar er tekið fram á verðmiða að um sé að ræða útsöluverð og verðið sé annars 5 dollurum hærra. Það myndi jafngilda 4.288 krónum en það verð væri í raun hagstæðara en verðið í Fríhöfninni vegna stærðarmunarins á flöskunum.
Í athugasemdum við færsluna er bent á að þótt Fríhöfnin eigi í orði kveðnu að vera tollfrjáls sé lagt áfengisgjald á áfengi sem sé selt þar eins og annað áfengi sem selt er á Íslandi. Önnur gjöld eru hins vegar ekki lögð á áfengi sem Fríhöfnin selur en eins lítra flaska af Reyka er töluvert dýrari utan veggja Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en áfengisgjaldið er lægra á áfengi í Fríhöfninni. Í því samhengi má nefna til dæmis að eins lítra flaska af Reyka kostar 11.990 krónur í verslunum ÁTVR.
Eftir því sem DV kemst næst er hins vegar enginn skattur lagður á áfengi sem selt er í verslunum í New Hampshire.
Í athugasemdum við færsluna velta aðrir Bandaríkjamenn því fyrir sér hvers vegna áfengisgjald sé svona hátt á Íslandi og fá þau svör frá Íslendingum að það sé líklega til að koma í veg fyrir að landsmenn neyti áfengis í óhófi.
Ísland virðist þó ekki vera alveg einstakt, í þessum efnum, en Skoti sem búsettur er í Bandaríkjunum segist kaupa skoskt viskí þar í landi og flytja það með sér til Skotlands þegar hann heimsæki fjölskyldu sína þar. Þökk sé breskri skattlagningu á áfengi fá hann viskíið í Bandaríkjunum á um helmingi af því verði sem hann þurfi að borga fyrir það í heimalandinu.
Einn Bandaríkjamaður bendir á að áfengisverð og munur á því snúist einna helst um skattlagningu og þar sem hún sé misjöfn í Bandaríkjunum geti það birst í verðmuni sem virðist undarlegur. Segist viðkomandi til að mynda hafa getað fengið flösku af tilteknu viskíi á lægra verði í New York en hjá framleiðandanum sem þó sé í aðeins í 10 mínútna akstursfjarlægð frá heimili hans.
Ljóst er þó að hér er komið enn eitt dæmið um háa verðlagningu á Íslandi en eins og það er orðað í einni athugasemd við umrædda færslu:
„Er eitthvað ódýrt í þessu landi? Andskotinn sjálfur, þetta er svo ósanngjarnt.“