Borgarráð samþykkti á fundi sínum í vikunni að vísa nýju deiluskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll til endanlegrar samþykktar í borgarstjórn. Ein umsögn barst um breytingarnar en hún er frá dótturfélagi Isavia sem bendir á að í skipulaginu sé ekkert fjallað um skipulag sérstakrar lóðar undir Flugstjórnarmiðstöðina við flugvöllinn. Félagið sendi erindi um að þessu yrði hrint í framkvæmd til borgarinnar árið 2021 en hefur enn ekki fengið svar.
Þetta kemur fram í gögnum sem birt eru með fundargerð fundar borgarráðs. Isavia ANS er dótturfélag Isavia ohf. og sér um flugleiðsöguþjónustu á íslenska flugstjórnarsvæðinu og innifalið í því er rekstur Flugstjórnarmiðstöðvarinnar við Nauthólsveg 66. Segir í athugasemd félagsins að miðstöðin hafi fyrst verið tekin í notkun 1994 en aldrei hafi félagið eða forverar þess fengið afmarkaða lóð undir miðstöðina og því ekki getað þinglýst eign sinni á henni.
Nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar gengur í megindráttum út á að færa mörk deiliskipulagssvæðisins til austurs og suðurs vegna breytinga á fyrirhugaðri legu borgarlínu í nágrenninu.
Í athugasemd Isavia ANS lýsir félagið sig mótfallið fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulaginu. Vísar félagið til þess að það hafi í nóvember árið 2021 lagt fram umsókn til skipulagsfulltrúa borgarinnar um breytingar á deiliskipulagi flugvallarins í því skyni að fá leyfi til afmarka lóð fyrir Flugstjórnarmiðstöðina og auka byggingarmagn á þeirri lóð. Því erindi hafi enn ekki verið svarað.
Segir félagið að í október 2023 hafi verið haldin fundur með fulltrúum frá Borgarlínu þar sem ákveðið hafi verið að vera í samskiptum um fyrirhugaðan frágang lóðarmarka Borgarlínu og Flugstjórnarmiðstöðvar. Frekari eftirfylgni og samskipti við félagið hafi hins vegar aldrei átt sér stað.
Lýsir Isavia ANS sig því mótfallið breytingum á deiliskipulaginu á meðan erindi þess hafi ekki verið svarað og ekkert liggi fyrir um sérstaka lóð fyrir Flugstjórnarmiðstöðina.
Þessi umögn Isavia ANS var lögð fram í mars síðastliðnum. Í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá því um miðjan ágúst segir að erindi félagsins sé komið í ferli á nýjan leik en það er ekki skýrt nánar hvers vegna því var ekki svarað.
Sérstakri lóð fyrir Flugstjórnarmiðstöðina hefur þó ekki verið bætt inn í nýja deiliskipulagið en skipulagsfulltrúi segir í umsögn sinni að tillögunni hafi verið breytt með þeim hætti að skýrt komi fram hver aðkoma inn á núverandi lóð Isavia ANS sé og þannig komið til móts við ósk félagsins þar að lútandi.
Lagði skipulagsfulltrúi til að tillagan að nýju deiluskipulagi Reykjavíkurflugvallar yrði samþykkt með þessum breytingum. Það gerðu fulltrúar meirihlutans en fulltrúar minnihlutans, úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, greiddu atkvæði á móti og fulltrúar fyrrnefnda flokksins lýstu þeirri skoðun sinni í bókun að erindi Isavia ANS frá 2021 yrði að svara áður en deiliskipulagið færi til borgarstjórnar til endanlegrar samþykktar.