Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði, bendir á hræsni Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins. Bergþór skaut á ráðherra fyrir að vera ekki viðstaddur þingfund á laugardag en Jón Ingi bendir á að Bergþór hafi setið að sumbli þegar hann átti að vera á fundi um fjárlög.
Í gær var greint frá því að Bergþór Ólason hafi sagt það koma sér á óvart að Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra og starfandi atvinnuvegaráðherra, hafi verið á vinnufundi á vegum Viðreisnar í Smiðju á meðan stjórnarandstaðan hafi boðað hann á þingfund á laugardag. Verið var að ræða frumvarp ráðherra um leiðréttingu á veiðigjöldum.
„Okkur er í tvígang sagt að það sé verið að sækja hann í hús. Hann sé fastur í erindagjörðum, væntanlega opinberu, og sé væntanlegur. Síðan kemur í ljós að Daði sat í húsi allan tímann á einhverjum vinnufundi Viðreisnar,“ sagði Bergþór.
Jón Ingi bendir á hræsnina sem í þessu felst í færslu á samfélagsmiðlum. Það er að Bergþór hafi nú ekki alltaf verið í þingsal þegar verið sé að ræða mikilvæg mál.
„Segir maðurinn sem var fullur á Klaustursbar þegar hann átti að vera á þingfundi að afgreiða fjárlög. Hér er verið að kasta snafsaglösum úr glerhúsi verð ég að segja,“ segir Jón Ingi í færslunni.
Vísar hann til Klaustursmálsins svokallaða þegar sex þingmenn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson, Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson sátu að sumbli á meðan þingfundur stóð yfir þriðjudagskvöldið 20. nóvember eins og frægt er orðið.
Á meðal þess sem haft var eftir Bergþóri á Klausturbar var:
„Þið eruð með þessa húrrandi klikkuðu kuntu sem formann Flokks fólksins sem þið ráðið ekki við.“ – Um Ingu Sæland.
„Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún, sem ég hef ekki fengið að ríða. „Who the fuck is that bitch?“ – Um Lilju Alfreðsdóttur.
„Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“ – Um Írisi Róbertsdóttur.