
Í dag er aðfangadagur og eflaust mun töluvert magn pappírs og plasts enda í endurvinnslutunnum við heimili landsmanna. Aðstæður eru þó misjafnar milli heimila og magn sem endar í tunnunum er misjafnt. Sumir hafa sýnt því áhuga að losna við tunnurnar sem ætlaðar eru fyrir pappír, pappa og plast, eða hafa þegar gert það, og fara með þetta í staðinn sjálfir á grenndarstöðvar og fá gjöld fyrir þessar tunnur felld niður. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að það sé einfaldlega ekki mögulegt og að öllum sé skylt að hafa slíkar tunnur við heimili sín og að borga fyrir þær. Þótt þær séu fjarlægðar þurfi samt að borga.
Nefndin komst að þessari niðurstöðu í tveimur aðskildum málum nú skömmu fyrir jól. Í öðru málinu vildi viðkomandi einnig fá minni tunnu og þar með ódýrari fyrir matarleifar og blandað sorp sem hann fékk ekki.
Um er að ræða tvo húseigendur í Reykjavík, annar í Háaleitishverfi en hinn í Breiðholti. Lögðu þeir báðir fram kæru. Sá fyrrnefndi sagði í sinni kæru að hann hefði verið rukkaður í upphafi ársins vegna tunna fyrir plast og pappír. Hann flokki úrgang frá heimili sínu og vilji hafa val um það hvort hann greiði fyrir tunnu fyrir pappírsúrgang og plast. Hann fari mánaðarlega í Sorpu með þessa úrgangsflokka og hafi ekki verið með tunnu fyrir þá. Hann greiði þegar fyrir þjónustuna með gjaldi vegna grenndar- og endurvinnslustöðva.
Breiðhyltingurinn sagði eins og hinn eigandinn í sinni kæru að hann hafi afþakkað tunnu fyrir pappa og plast þar sem hann fari sjálfur með þá úrgangsflokka í grenndargáma. Þrátt fyrir það hafi í maí síðastliðnum verið komið með tunnu fyrir pappa og plast sem hann hafi sent til baka. Honum hafi þó verið tilkynnt um hækkun á gjöldum vegna tunnu sem hann sé ekki með og kæri sig ekki um.
Borgin vísaði í báðum málum til þess að samkvæmt lögum og tilheyrandi samþykktum borgarinnar um sorphirðu beri húseigeindum skylda til að hafa meðal annars tunnu við eign sína fyrir plast og pappa og greiða fyrir það gjald. Þótt eigandi afþakki slíkar tunnur sé ekki heimilt að fella gjöldin niður. Vísaði borgin einnig til fyrri úrskurðar nefndarinnar þar sem komist hefði verið að þessari niðurstöðu.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir í sínum niðurstöðum í málum húseigandanna tveggja meðal annars:
„Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir nýti sér hana ekki.“
Niðurstaða nefndarinnar í málum húseigandanna tveggja, hvað varðar tunnurnar fyrir pappír og plast, er í meginatriðum sú sama. Borginni sé skylt samkvæmt lögum að innheimta gjald fyrir slíkar tunnur og húseigendum sé skylt að hafa þær á lóðum sínum. Það að tunnurnar hafi verið fjarlægðar að beiðni húseigendanna breyti engu um skyldu þeirra til að borga fyrir þær. Kröfum þeirra um að ákvörðun um álagningu gjaldsins vegna söfnunar á pappír og plasti yrði úrskurðuð ógild var því hafnað.