

ÖBÍ, Þroskahjálp og fleiri samtök leggjast gegn frumvarpi Sigríðar Andersen, þingmanns Miðflokksins, um þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu. Bent er á að stafrænt ofbeldi í garð fatlaðra kvenna og stúlkna sé alvarlegt og vaxandi vandamál.
Sigríður lagði fram frumvarp um breytingu á 233. grein a. almennra hegningarlaga, sem fjallar um hatursorðræðu, og vill þrengja ákvæðið.
Í dag er greinin svohljóðandi:
„[Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna [þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna], 1) litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, [fötlunar, kyneinkenna], 1) kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.] 2)] 3)
Vildi Sigríður bæta eftirfarandi við greinina:
„enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.“
ÖBÍ og önnur réttindasamtök hafa sent inn umsagnir og mótmælt þeirri þrengingu sem boðuð er í frumvarpinu. Benda samtökin á að fjöldi fatlaðs fólks mæti fordómum vegna fötlunar sinnar og neikvæðri hatursfullri orðræðu.
„ÖBÍ er mótfallið því að þrengja ákvæði í almennum hegningarlögum um hatursorðræðu með þeim hætti sem lagt er til i þessu frumvarpi. Í þessu sambandi er vert að geta þess að stafrænt ofbeldi í garð fatlaðra kvenna og stúlkna er alvarlegt og vaxandi vandmál,“ segir í umsögninni.
Bent er á að Alþingi hafi nýlega lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og sé Ísland skuldbundið til þess að gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar til að vernda fatlað fólk.
„Samkvæmt 5. mgr. skulu aðildarríkin taka upp árangursríka löggjöf og stefnu, þar á meðal löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til að tryggja að ofbeldi og sem beinast gegn fötluðu fólki verði greindar, rannsakaðar og eftir atvikum ákært vegna þeirra. Að mati ÖBÍ er tillaga frumvarpsins í andstöðu við áskilnað þessara ákvæða um vernd fatlaðs fólks,“ segir í umsögninni.
Svipaða sögu er að segja í umsögn Landsamtakanna Þroskahjálpar sem einnig mótmæla þrengingu ákvæðisins og vísa einnig í lögfestingu samnings SÞ.
„Þau ákvæði samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem vÍsað er til hér að framan eru viðurkenning og viðbrögð alþjóðasamfélagsins gagnvart þeirri staðreynd að fatlað fólk hefur orðið fyrir og verður enn fyrir miklum fordómum sem m.a. birtist í neikvæðri og lítillækkandi orðræðu, mismunun og ofbeldi af ýmsu tagi hvarvetna í heiminum. Ísland er engin undantekning frá því. Einn þáttur í slíku ofbeldi er hatursorðræða, sem skapar, ýtir undir og viðheldur fordómum og leiðir til mismununar og ofbeldis,“ segir í umsögn Þroskahjálpar og andstöðu lýst við frumvarp Sigríðar.
Einnig lýsa Samtökin ´78 og Solaris yfir andstöðu við þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu. Í umsögn Samtakanna ´78 er meðal annars bent á rannsóknir og skýrslur sem sýni að aukin útsetning fyrir hatursorðræðu geri þann sem verði vitni að henni ónæmari fyrir henni.
„Samkvæmt Fasoli (2016) hefur ómeðvituð útsetning (t.d í athugasemdakerfum, samræðum, öðru efni) fyrir hómófóbískum skilgreiningum (faggi, hommatittur) aukið afmennskun hinsegin fólks (þ.e. dregið úr því að fólk noti manntengd orð, eins og manneskja, um hinsegin fólk í hlutfalli við náttúrutengd orð, eins og rotta) og fjarlægist þeim líkamlega í kjölfarið (þ.e. sitja lengra í burtu þegar viðkomandi hittir hinsegin manneskju) í samanburði við þegar notaðar eru almennar móðganir,“ segir í umsögninni.