

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, virðist nú hafa gefist upp eftir mikla pressu og ákveðið að hvetja fulltrúa Repúblikana til að kjósa með því að Epstein-skjölin verði birt í heild sinni. Segist forsetinn hafa ekkert að fela varðandi efni skjalanna.
Málið hefur reynst Trump afar erfitt en sífellt hafa bæst við nýjar upplýsingar á undanförnum mánuðum sem ýja að því að Epstein hafi verið nánari Trump en forsetinn hefur viljað viðurkenna.
Þá hefur hringlandaháttur Trump varðandi birtingu skjalanna haft neikvæð áhrif. Þannig var hann á því í kosningabaráttu sinni að birta skjölin en þegar hann var kominn í embætti hefur hann dregið lappirnar hvað það varðar og þvert á móti sett steina í götuna varðandi málið.
„Það er löngu orðið tímabært að afgreiða þennan blekkingarleik Demókrata,“ sagði Trump í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social og sagði allt málið runnið undan rifjum öfgavinstri manna sem reyndu að koma höggi á Repúblikanaflokkinn.
Ef að eitthvað bitastætt væri í skjölunum þá hefðu Demókratar notað það gegn honum í síðustu kosningum.
Frumvarp um birtingu skjalanna í heild sinni liggur fyrir fulltrúardeild Bandaríkjaþings og verður greitt atkvæði um það á næstunni. Þá fer frumvarpið til öldungadeildarinnar til meðferðar.
Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu Trump eru margir efins um að frumvarpið fari í gegnum báðar deildarinar en verði það raunin mun lokaákvörðunin enda hjá Trump um hvort að hann skrifi undir ákvörðunina eða ekki.