

Í kjölfar þess að Andrew Mountbatten-Windsor var sviptur öllum titlum sínum hjá bresku krúnunni fóru sögur af hegðun prinsins í gegnum árin koma upp á yfirborðið.
Þetta segir Andrew Lownie, ævisagnaritari og sérfræðingur í málefnum konungsfjölskyldunnar, en hann gaf út bókina Entitled á þessu ári sem fjallaði um prinsinn fyrrverandi og eiginkonu hans Söruh Fergusson.
Lownie var til viðtals um hegðun prinsins fréttamiðlinum NewsNation.
Lýsir hann því hvernig Andrew, sem var eftirlæti móður sinnar, flaug um allan heim á kostnað breskra skattborgara til þess að tala fyrir ýmsum viðskiptahagsmunum þeirra.
Hann hegðaði sér sómasamlega í kokteilboðunum en þegar skyldum hans lauk snerist allt um kynlíf og klám.
Áður hefur Lownie varpað fram þeirri sögu hvernig Andrew borgaði fyrir heimsókn 40 vændiskvenna á hótel í Bangkok þar sem hann dvaldi.
Mun fleiri slíkar sögur eru til og nú loksins er fólk farið að þora að opna sig um þær segir Lownie.
Vitnar hann í orð sem hann hafði eftir vini Andrews:
„Hann drekkur ekki, hann reykir ekki og hann neytir ekki eiturlyfja, aldrei nokkurn tímann. En kynlíf er stærsta atriðið í lífi hans.“
Bókin Entitled kom út fyrir aðeins þremur mánuðum en Lownie segir að allt hafi svo gjörbreyst eftir sviptingu titlanna að hann sé í flýti að skrifa framhald bókarinnar sem hefur fengið heitið Untitled.
Hann hafi ekki undan að ræða við heimildarmenn sem loksins eru til í að segja skuggalegar sögur af svarti sauði konungsfjölskyldunnar.