

Miðflokkurinn hefur verið nokkuð gagnrýndur undanfarna daga fyrir orðræðu þeirra í garð útlendinga. Mörgum þykja þingmenn flokksins gefa til kynna að flestir innflytjendur á Íslandi komi frá löndum utan Evrópu þar sem önnur trúarbrögð eru iðkuð og þar sem gildi eru ekki í samræmi við þau sem við höfum vanist á Vesturlöndum.
En hvaðan eru innflytjendurnir okkar? Svarið er að þeir eru flestir frá Evrópu.
Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, bendir á að það sé rangt að bera saman stöðu innflytjendamála í Svíþjóð og hér heima. Hann skrifar í Rauða þráðinn á Facebook langa færslu þar sem hann færir rök fyrir þessari fullyrðingu og skýtur föstum skotum á Miðflokkinn.
„Ég hef enga trú á að Íslendingar láti blekkja sig með skrumi inn í þessa holu Miðflokksmanna (þótt ég horfi vissulega á eftir flestum þingflokkanna skokka á eftir þeim). Þetta er einfaldlega of heimskt og illgjarnt, sú þjóð sem ég ólst upp við er skárri en þetta. Ef Miðflokkurinn ætlar að vinna þjóðina á sitt band verður hann að skipta út þjóð.“
Gunnar Smári bendir á að í Svíþjóð séu Sýrlendingar stærsti hópur innflytjenda. Þeir eru um 200 þúsund eða um 1,9 prósent landsmanna. Næstfjölmennasti hópurinn er frá Írak, en þaðan eru tæplega 150 innflytjendur komnir eða um 1,5 prósent landsmanna. Loks koma Finnar og Pólverjar og fimmti fjölmennasti hópurinn kemur svo frá Íran.
„Ef við tökum þessi þrjú lönd saman, Sýrland, Írak og Íran þá er fólk þaðan um 430 þúsund í Svíþjóð, um 4,1% landsmanna.“
Á Íslandi sé staðan önnur. Frá sömu þjóðum, eða Sýrlandi, Írak og Íran, séu samtals 1.570 innflytjendur á Íslandi.
„Ég bendi ekki á þetta til að taka undir með Miðflokknum um að fólk frá þessum löndum sé vandamál. Ég tel svo ekki vera. Ég bendi á þetta til að vekja athygli á að Miðflokkurinn heldur ekki aðeins fram röngum málstað heldur rökstyður hann rangindi sín með blekkingum um að vandamál vegna innflytjenda séu hér þau sömu og í Svíþjóð.“
Gunnar Smári segir að í reynd skorti allar efnahagslegar, menningarlegar og lýðræðislegar forsendur fyrir þeirri hægri stefnu sem Miðflokkurinn sé að reyna að innleiða á Íslandi. Staðan hér sé ekki sú sama og til dæmis í Svíþjóð.
Karen Kjartansdóttir hefur birt upplýsingar frá Hagstofunni sem sýna 30 fjölmennustu upprunalönd innflytjenda á Íslandi árið 2024.
Viktor Orri Valgarðsson, stjórnmálafræðingur, hefur einnig birt færslu um uppruna innflytjenda. Hann bendir á að samkvæmt gögnum frá Hagstofunni sé mikill meirihluti innflytjenda á Íslandi fæddur í Evrópu.
„Skv. gögnum Hagstofunnar og minni flokkun á einstökum löndum fæddust um 74% innflytjenda á Íslandi árið 2024 í Evrópu – 60440 manns af 81795 – og um 4% til viðbótar í öðrum „vestrænum“ ríkjum (og 4% í Rómönsku Ameríku). Þegar ég tók saman ríki Mið-Austurlanda og Norður-Afríku og bætti við Pakistan, Bangladess og Indónesíu þá fæddust um 4,6% innflytjenda á Íslandi í þeim löndum – um 1% þjóðarinnar, eða 3754 manneskjur.“
Viktor segir að samsæriskenningin um stóru útskiptin eða „great replacement theory“ snúist um að það sé verið að skipta út kristnum og hvítum Evrópubúum fyrir araba af íslamstrú samkvæmt leynilegu ráðabruggi. Ekki sé ljóst hvort Miðflokkurinn sé að tala fyrir þessari kenningu en flokksmenn hafi þó talað um að það sé verið að skipta út þjóðinni og lagt áherslu á vestræna menningu í því samhengi.
„Ég er ekki að taka undir að fleira fólk frá þessum löndum á Íslandi myndi þýða að verið væri að skipta Íslendingum út. En málflutningurinn um að innflytjendur á Íslandi geti alls ekki aðlagast íslenskri menningu – hvað þá „vestrænni siðmenningu“ – virkar kannski enn furðulegri en ella þegar við gerum okkur grein fyrir því að tæp 80% þeirra fæddust í Evrópu eða öðrum Vesturlöndum.
Það er allavega ljóst að ef einhver er að plotta að skipta okkur og okkar menningu út með fólki af íslamstrú, þá gengur viðkomandi voðalega illa með það…“
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor, hefur einnig ritað færslu þar sem hann beinir sérstaklega spjótunum að Miðflokknum og orðræðu varaformannsins, Snorra Mássonar, um fæðingartíðni og hættuna á að Íslendingar endi í minnihluta í eigin landi.
Eiríkur rekur að þessi dómsdagsspá Snorra byggist á hæpnum forsendur. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar verði íbúar Íslands um hálf milljón árið 2042, eða að þeim muni fjölga um 85 þúsund fram að þeim tíma. Samkvæmt spánni verður það svo ekki fyrr en árið 2053 sem færri munu fæðast en deyja á Íslandi. Jafnvel ef öll þessi fjölgun samkvæmt spánni verður í formi innflytjenda væru Íslendingar samt enn í meirihluta.
Auk þess megi reikna með að einhverrir aðfluttir verði Íslendingar sem eru að snúa heim, en um 50 þúsund Íslendingar búa erlendis. Á sama tíma megi reikna með að fjöldi innflytjenda muni flytja frá Íslandi enda hafi um 40 prósent þeirra erlendur ríkisborgara sem hafa flutt til landsins á öldinni flutt aftur burt. Loks minnir Eiríkur á að hér sé um að ræða spá Hagstofunnar, en ekki tölfræðilega staðreynd eins og Snorri tali um.
„Það er sem sé margt vafasamt í því hvernig varaformaðurinn notar tölfræði í fullyrðingum sínum sem hann segir að séu „tölfræðileg staðreynd“ – „Ég er nú einkum að vísa til þess að það sem ég er að benda á, tölfræðilega þróunin, er staðreynd“ segir hann. En eina „tölfræðilega þróunin“ sem er „staðreynd“ er þróun mannfjölda til dagsins í dag. Mannfjöldaspá Hagstofunnar er nefnilega einmitt það sem hún segist vera: Spá. Ekki staðreynd. Tölfræðilegar spár eru vissulega oftast byggðar á staðreyndum en það gerir þær ekki að staðreyndum, og spár um mannfjölda á Íslandi hafa ekki gengið sérlega vel eftir á undanförnum áratugum.“
Til dæmis hafi því verið spáð árið 1998 að Íslendingar yrðu ekki nema 317 þúsund árið 2025 og árið 2017 var því spáð að íbúafjöldinn næði ekki 450 þúsundum fyrr en eftir 2060.
„Þessi mikli munur stafar einkum af miklum fólksflutningum til landsins sem ekki var hægt að sjá fyrir. Þessir flutningar hafa tengst miklum uppgangi í efnahagslífinu en nú eru blikur á lofti með það, auk þess sem ástand í alþjóðamálum er mjög ótryggt og bæði efnahagslegar og pólitískar horfur óljósar. Því er ómögulegt að segja hvort framhald verði á miklum fólksflutningum til landsins og ástæðulaust – og varasamt – að vera með hræðsluáróður í því sambandi.“