fbpx
Miðvikudagur 12.nóvember 2025
Fréttir

Segir lík Geirfinns hafa verið flutt í bíl Svanbergs

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 12. nóvember 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Ármann Steinsson, útgefandi bókarinnar Leitin að Geirfinni, sem Sigurður Björgvin skrifaði, var í viðtali á Útvarpi Sögu í dag að ræða um Geirfinnsmálið. Auk þess að endurtaka fyrri tilgátur um afdrif Geirfinns, sem útlistaðar eru í bókinni, varpaði Jón fram nýjum staðhæfingum um málið. Jón segir kenningar sínar í málinu byggja á gögnum en rannsókn lögreglu þurfi til að sanna afdráttarlaust staðhæfingar hans um málið. Á því hefur staðið og hefur ekki tekist að fá lögreglu til að taka upp rannsókn málsins að nýju.

DV hefur margsinnis fjallað um efni bókarinnar og kenningar höfundar og útgefanda um afdrif Geirfinns, sem hvarf frá Keflavík þann 19. nóvember árið 1974, en í eftirfarandi grein í DV eru bornar saman ályktanir Keflavíkurrannsóknarinnar um málið á sínum tíma og kenningar bókarinnar um hvað varð um Geirfinn:

Fór ekki til fundar við mann í Hafnarbúðinni og „Leirfinnur“ hringdi ekki í hann

Lögreglan rannsakaði málið út frá þeirri tilgátu að Geirfinnur hefði horfið eftir að hafa farið til fundar við ókunnugan mann í Hafnarbúðinni í Keflavík þetta margumtalaða kvöld. Niðurstaða bókarhöfunda var hins vegar sú að Geirfinnur hefði ekki farið til fundar við nokkurn mann í Hafnarbúðinni heldur til að kaupa sér sígarettur. Hann hafi verið fótgangandi og á heimleiðinni hafi kunningi, maður sem tengdist eiginkonu hans fjölskylduböndum, tekið hann upp í bílinn.

Þegar Geirfinnur hafi komið heim til sín ásamt bílstjóranum hafi blasað við honum sú sýn að Guðný eiginkona hans hafi verið þar ásamt Svanberg ástmanni sínum. Guðný taldi Geirfinn hins vegar vera í bíó með vinnufélaga sínum og væntanlega þess vegna áræddi hún að koma heim með ástmanninn. Við þessa sjón missti Geirfinnur stjórn á skapi sínu, samkvæmt frásögn Jóns Ármanns, og réðst á Svanberg. Maðurinn sem ók Geirfinni heim reyndi þá að stilla til friðar og blandaðist þannig inn í átökin. Átökin færðust út úr íbúðinni og inn í bílskúr á lóðinni og þar varð ungur drengur vitni að þeim inn um glugga.

Í endursögn Útvarps Sögu á viðtalinu við Jón Ármann segir síðan:

„Jón Ármann sagði að samkvæmt vitnisburði drengs sem bjó í nágrenninu hafi hann séð ljós kvikna í bílskúrnum og tvo menn ganga inn, þar sem Geirfinnur var annar þeirra. Svanberg hafi verið þar líka en ekki tekið þátt í átökunum. Hann hafi séð þá slást og Geirfinnur virtist hafa yfirhöndina þar til hinn maðurinn hafi gripið verkfæri af veggnum, sem líklega hafi verið hamar eða öxi og slegið hann. Þá hafi öskrin þagnað og ljósið í bílskúrnum verið slökkt stuttu síðar.“

Segir Jón að þessi lýsing á atburðaráðsinni sé í samræmi við ný gögn sem hann hafi undir höndum. Eins og áður komið fram er maðurinn sem bókarhöfundar telja hafa banað Geirfinni þarna enn á lífi í dag.

Líkið flutt í bíl Svanbergs

„Jón Ármann sagði að þegar Geirfinnur hafi fallið til jarðar hafi mennirnir talið hann meðvitundarlausan og ætlað að flytja hann á sjúkrahús. Hann gæti hins vegar hafa látist í bílnum eða jafnvel áður en þeir yfirgáfu heimilið. Hann sagði að bíl Svanbergs hafi verið notaður til að flytja líkið og að sá bíll hafi síðar verið svo blóðugur að eigandi hans hafi ekki getað notað hann um tíma,“ segir ennfremur í frásögn Útvarps Sögu.

Eins og áður hefur komið fram hefur Svanberg búið erlendis og raunar farið huldu höfði í Þýskalandi undanfarna áratugi. Ljóst er að ef þessi frásögn er rétt býr hann yfir miklum upplýsingum um hvarf Geirfinns.

Sjá einnig: Hvar er Svanberg?

„Í frásögn Jóns Ármanns kemur fram að drengurinn sem sá ljósið í bílskúrnum og átökin þar hafi aldrei verið kallaður aftur til skýrslugjafar. Jón Ármann sagði að um væri að ræða lykilvitni sem hefði upplifað mikið vantraust gagnvart lögreglu vegna þess hvernig farið var með mál hans,“ segir á vef Útvarps Sögu og ennfremur þetta:

„Jón Ármann sagði að þegar rannsóknargögn væru borin saman kæmi í ljós að margir lykilþættir í málinu hefðu aldrei verið kannaðir, þar á meðal ummerki á vettvangi og ástand bifreiðar Svanbergs. Hann sagðist sjálfur hafa skoðað vettvanginn mörgum árum síðar og fundið hluti sem gætu innihaldið blóðleifar. Jón bendir að að hann hafi undir höndum ljósker úr bílskúrnum sem á gætu verið DNA sýni. Þeir hefðu þó aldrei verið rannsakaðir af lögreglu.“

Sjá nánar hér.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Dóra Björt hætt við: „Þetta hefur valdið meiri skjálfta innan flokksins en ég hefði viljað”

Dóra Björt hætt við: „Þetta hefur valdið meiri skjálfta innan flokksins en ég hefði viljað”
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Svangur og ósáttur eftir samlokukaup á Grill66 – „Það er eins og skinkan og kálið vilji ekki vera þarna“

Svangur og ósáttur eftir samlokukaup á Grill66 – „Það er eins og skinkan og kálið vilji ekki vera þarna“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Segir kynjajafnrétti og aukna þátttöku karla í umönnun barna hafa breytt orðasambandinu „eiga von á barni“

Segir kynjajafnrétti og aukna þátttöku karla í umönnun barna hafa breytt orðasambandinu „eiga von á barni“
Fréttir
Í gær

Góð tíðindi fyrir meinta Gilgo-raðmorðingjann Rex Heuermann

Góð tíðindi fyrir meinta Gilgo-raðmorðingjann Rex Heuermann
Fréttir
Í gær

Betur fór en á horfðist hjá ungum börnum í Reynisfjöru

Betur fór en á horfðist hjá ungum börnum í Reynisfjöru
Fréttir
Í gær

Varla byggt fjölbýlishús á Íslandi sem er án galla

Varla byggt fjölbýlishús á Íslandi sem er án galla