fbpx
Miðvikudagur 12.nóvember 2025
Fréttir

Njörður segir að svona sé hægt að bjarga íslenskri tungu – Gæti horfið á næstu þremur til fjórum kynslóðum

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 12. nóvember 2025 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við höfum sannarlega verk að vinna til bjargar tungumáli okkar. En ef við leggjum okkur öll fram ætti okkur að geta tekist það,“ segir Njörður P. Njarðvík, skáld, rithöfundur og prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Í grein sinni segir hann að flestum ætti að vera ljóst að íslensk tunga sé að deyja innan frá. Ef ekki verði brugðist við nú þegar megi búast við að hún hverfi á næstu þremur til fjórum kynslóðum.

„Til að bjarga henni þarf öll þjóðin að taka þátt af áhuga og einbeitni. Ef þjóðinni stendur á sama um tungumál sitt verður því ekki bjargað,“ segir hann og bætir við að lykillinn að tungumáli sé þrefaldur: lestur, hlustun og samtöl.

Byrjar hjá foreldrum

„Fyrstu bjargvættirnir eru foreldrar. Brýnt er að foreldrar hugi snemma að málþroska barna sinna, lesi fyrir þau og leitist við að auka orðaforða þeirra,“ segir hann og nefnir að svo taki við leikskóli og grunnskóli.

„Á báðum skólastigum eru sífelld húsnæðisvandræði og mannekla. Það reynist erfitt að fá menntaða kennara til starfa. Þarna þurfa stjórnvöld heldur betur að taka sig á,“ segir hann og bætir við að það sé með ólíkindum hve lengi þau hafa vanrækt að búa vel að börnum á þessu viðkvæma þroskaskeiði – og gera enn.

„Þeim ber beinlínis skylda til að tryggja nægan fjölda menntaðra kennara. Það verður einungis gert með því að auka virðingu kennarastarfsins og sjá kennurum jafnframt fyrir mannsæmandi launakjörum. Þetta hafa Finnar gert með eftirtektarverðum árangri,“ segir Njörður.

Afglöp að stytta framhaldsskólann

Þá segir hann að ekki megi heldur gleyma nauðsyn þess að til séu haldgóðar kennslubækur í öllum kennslugreinum á íslensku. „Sömuleiðis mun brýnt að beinlínis banna notkun farsíma í öllum skólum. Einnig þurfa stjórnvöld að laga þau afglöp að stytta framhaldsskóla um heilt ár.“

Nokkuð hefur verið fjallað um íslenskt atvinnulíf og ábyrgð þess að hnignun íslenskunnar, samanber skrif Guðna Ágústssonar, fyrrverandi ráðherra, á dögunum. Njörður tekur undir með Guðna og segir að hluti atvinnulífsins eigi sína sök.

„Hætta verður þeim ósið að láta fyrirtæki og verslanir bera ensk nöfn. Lágmark ætti að vera að hafa nöfnin tvö, og hið íslenska ofar hinu enska – ef enskt heiti er talið nauðsynlegt.“

Hann segir svo að einhverjir amist við útlendu fólki sem hér dvelur og telur það jafnvel ógn við tungu okkar og þjóðerni. Það sé aftur á móti misskilningur – enda gleymi þeir þætti okkar sjálfra.

„Við bjóðum þessu aðflutta fólki engan veginn nægileg tækifæri til að læra íslensku. Við eigum að tryggja almenn og haldgóð námskeið. Og við eigum ekki að bregða strax fyrir okkur ensku. Þvert á móti eigum við að tala íslensku eftir föngum og sýna skilning og þolinmæði gagnvart ófullkomnu málfari. Eigendur veitingahúsa þurfa að byrja á því að kenna einfalda hluti eins og að bjóða fólk velkomið og svo framvegis – og fikra sig áfram.“

RÚV hefur brugðist

Njörður endar skrif sín á að benda á ábyrgð RÚV.

„Ríkisútvarpið hefur lagaskyldu að leggja rækt við íslenska tungu, en bregst henni hörmulega á hverjum degi með ambögum og málvillum. Sem dæmi má taka að tíðbeygingar sagna virðast að hverfa, enda heyrist varla lengur núliðin tíð og framtíð.

„Við höfum sannarlega verk að vinna til bjargar tungumáli okkar. En ef við leggjum okkur öll fram ætti okkur að geta tekist það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ferðamaður segir frá raunum sínum á Íslandi – Vandræðin byrjuðu fyrir alvöru þegar lögreglan fór af vettvangi

Ferðamaður segir frá raunum sínum á Íslandi – Vandræðin byrjuðu fyrir alvöru þegar lögreglan fór af vettvangi
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Höfðu betur gegn landeigandanum – Fá að búa áfram í orlofshúsinu og hafa það á lóðinni

Höfðu betur gegn landeigandanum – Fá að búa áfram í orlofshúsinu og hafa það á lóðinni
Fréttir
Í gær

Dæmdur fyrir að loka eiginkonu sína úti á svölum en fær vægan dóm vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna

Dæmdur fyrir að loka eiginkonu sína úti á svölum en fær vægan dóm vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna
Fréttir
Í gær

Segir Sigríði Björk mann að meiri – „Við þá sem hefðu viljað sjá meira blóð renna vil ég segja“

Segir Sigríði Björk mann að meiri – „Við þá sem hefðu viljað sjá meira blóð renna vil ég segja“
Fréttir
Í gær

Selfyssingurinn með smiðsaugað: Hver er Grímur Hergeirsson sem nú hefur verið settur ríkislögreglustjóri?

Selfyssingurinn með smiðsaugað: Hver er Grímur Hergeirsson sem nú hefur verið settur ríkislögreglustjóri?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur bendir á önnur ámælisverð viðskipti á vakt Sigríðar Bjarkar – „Gamaldags vinavæðing, spilling af bestu sort“

Ólafur bendir á önnur ámælisverð viðskipti á vakt Sigríðar Bjarkar – „Gamaldags vinavæðing, spilling af bestu sort“