

Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður segir frá móður sem hann hitti á götunni í Cape Town í Suður-Afríku. Segist hann hafa ákveðið að gera góðverk og gefa konunni smá pening. Þegar hann sá að konan bar dóttur sína á bakinu snerist honum hugur.
„Sagan af Christinu og Gloriu. Mannsandinn í sinni sterkustu mynd, þar sem vonin lifir alltaf þó að ljóstýran við enda ganganna sé orðin minni en einn lítill neisti. Í dag ætlaði ég að gera pínulítið góðverk með því að gefa umkomulausri konu smá pening á götunni í Cape Town í Suður-Afríku. Þar sem ég rétti henni peninginn sá ég að hún var með lítið barn í poka á bakinu. Eftir að hafa þakkað mér innilega með djúpu þakklæti tjáði hún mér að hún ætlaði að nota peninginn til að kaupa mat handa barninu sínu.“
Sölvi sagði konunni þá að eiga peninginn og bauðst til að fara með henni í búðina að kaupa mat. Segir hann konuna fyrst ekki hafa trúað honum, en farið að hágráta þegar hún sá að honum var alvara og hann lagði hönd á öxlina á henni.
„Í kjölfarið var ég snertur af einhverju sem ég get best lýst sem dýpstu auðmýkt og mesta þakklæti sem ég hef fundið á ævi minni. Inni í búðinni ætlaði hún aldrei að trúa því að hún mætti velja vörur í körfuna og í hvert sinn þegar ég spurði hvort hún vildi ekki eitthvað meira sagði hún: ,,Ég er nú þegar búin að fá svo mikið í dag“. Alltaf þegar hún valdi eitthvað bað hún mig um að velja það ódýrasta og minnsta sem var í boði og þakklætið var fullkomið og við hverja einustu vöru sem endaði ofan í körfunni reisti hún upp hendur og þakkaði guði fyrir blessunina. Eftir að úr búðinni var komið sagði hún orðrétt: ,,Ég finn fyrir hjartanu mínu og það er galopið“.“

Christina sagði Sölva síðan sögu sína en hún flutti frá Zimbabwe til Suður-Afríku í leit að betra lífi. Christina hafi misst mann sinn í bruna, sem varð þess einnig valdandi að hún gat ekki lengur unnið sökum alvarlegra brunasára sem hún sýndi Sölva og voru um alla fætur hennar.
„Í kjölfarið endaði hún í slömminu í Cape-Town, sem eru einhver verstu fátækrahverfi í heimi, þar sem hver dagur er barátta um að lifa af og grimmdin er algjör. Þar hefur henni ítrekað verið nauðgað og bæði hún og barnið hennar eru með HIV smit. Hún sagðist eiga þá ósk heitasta að komast aftur til heimalandsins og fá að deyja þar með reisn. Við lögðum á ráðin um hvað væri hægt að gera og úr varð að ég lét hana fá pening til að komast heim til Zimbabwe. Eftir langa göngu um götur Cape Town að rútustöðinni var komið að kveðjustund. Þær mæðgur eru að leggja í tveggja daga akstur að landamærunum þangað sem þær komast vonandi heilar á húfi.“
Sölva segir að Christina hafi sagt að hún myndi aldrei gleyma þessum degi sem hefði sýnt sér að bænir hennar voru heyrðar. Sjálfur geti hann ekki lýst blessuninni sem þessi kona sendi sér og stærðinni á þakklætinu.
„Það sem hún gaf mér snerti mig inn að kviku og hefur þegar haft áhrif á heimsmynd mína. Ég varð í dag vitni að algjörlega nýrri vídd þegar kemur að styrk mannsandans. Að halda í vonina, þakklætið, auðmýktina og meira að segja bros og hlátur eftir það sem hún hefur gengið í gegnum er mér með öllu óskiljanlegt og setur hlutina í nýtt samhengi. Ég fékk að finna það fyrir víst að það er fólk í heiminum að lifa tímalínur akkúrat núna sem eru að hjálpa okkur öllum að komast upp á næsta borð í tölvuleiknum. Sumar sálir eru nógu sterkar til að taka á sig þyngstu byrðarnar fyrir heildina. Christina er ein af þeim. Ég fann það á allri hennar nærveru í dag. Ég mun aldrei gleyma þér og barninu þínu.“