fbpx
Þriðjudagur 21.október 2025
Fréttir

Eigandi RE/MAX ákærður fyrir markaðsmisnotkun

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 21. október 2025 15:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórarinn Arnar Sævarsson, einn eigenda fasteignasölunnar RE/MAX, hefur verið ákærður fyrir markaðsmisnotkun, en meint brot voru framin árið 2020. Einnig er félagið IREF ehf ákært vegna félagsins RPF ehf, en Þórarinn var prókúruhafi og stjórnarmaður RPF ehf.

Meint brot eru sögð felast í því að hafa í 71 skipti, á tímabilinu frá og með 26. ágúst til og með 9. október 2020, lagt fram viðskiptafyrirmæli um kaup á hlutabréfum í Kviku banka hf. sem voru líkleg til að gefa ranga eða villandi mynd af eftirspurn og verði hlutabréfanna. Voru meint brot framin með því að ganga kerfisbundið og ítrekað að hagstæðasta sölutilboði þegar það var hærra en síðasta viðskiptaverð, án þess að lögmæt viðskiptaleg sjónarmið hafi ráðið þeim ákvörðunum, og setja inn fjölmörg kauptilboð sem leiddu til pörunarviðskipta sem voru til þess fallin að gefa ranga og villandi mynd af verði og eftirspurn eftir hlutabréfum í Kviku banka.

Þórarinn er í ákærunni sagður með þessu athæfi hafa ítrekað átt síðustu viðskipti með hlutabréf í Kviku banka hf. innan viðskiptadags og þannig stuðlað að því að hækkun dagslokaverðs bréfanna í Kviku hækkaði eða að verðið endaði í efri mörkum fyrirliggjandi verðbils.

Átti hagsmuna að gæta í Kviku banka

Umrædd viðskipti voru stunduð í aðdraganda þess að félögin Loran, RPF, IREF og Premier eignarhaldsfélag, sem tengd voru Þórarni, gerðu upp framvirka samninga með hlutabréf í Kviku banka hf. og seldu hlutabréf sín í bankanum. Í ákæru segir orðrétt: „Fyrrgreind félög fóru á tímabilinu, sem ákæran spannar, í sameiningu með flöggunarskyldan eignarhlut í Kviku banka hf. í skilningi 12. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, í gegnum beint eignarhald á hlutabréfum og óbeint í gegnum framvirka samninga um kaup á hlutabréfum, áður en félögin hófu að losa um stöðu sína með sölu eignarhlutanna í áföngum, á tímabilinu frá og með 29. september til og með 29. október 2020. Staðan fyrir það nam 119.294.384 hlutum að nafnverði samtals hjá öllum félögunum samkvæmt
flöggunartilkynningu og heildarsala, að frádregnum netbankaviðskiptum, alls 118.703.284 hlutum.“

Félögin Loran, RPF, IREF og Premier eignarhaldsélag voru tengd félög og tengdust Þórarni í þeim skilningi að allt hlutafé í þeim var í eigu hans eða viðskiptafélaga hans.

Villandi viðskipti

Í ákærunni segir að hlutabréfaviðskiptin sem ákært er fyrir hafi verið villandi eða líkleg til að vera villandi fyrir fjárfesta sem aðhafast á grundvelli birts verð, sérstaklega síðasta viðskiptaverðs og lokaverð. Tilgangur viðskiptanna hafi verið að gera tengdum félögum kleift að selja beinan og  óbeinan eignarhlut sinn í Kviku banka hf,. á hagstæðara verði en ella hefði fengist. Einnig segir í ákæru:

„Þá er rétt að horfa til þess að viðskiptin áttu sér stað á tiltölulega grunnum markaði þannig að tíðni viðskiptanna var líkleg til að hafa langvarandi áhrif á birtingu síðasta viðskiptaverðs yfir daginn og stuðla að því að dagslokaverð yrði hærra en ella. Horfa þarf til þess að vegna þess að um grunnan markað var að ræða gátu ákærðu jafnframt átt síðustu viðskipti dagsins og þannig haft bein áhrif á dagslokaverð án þess að þurfa að eiga í viðskiptum skömmu fyrir lokun markaða. Ákærðu áttu þó einnig í viðskiptum skömmu fyrir lokun markaða.“

Segir einnig að viðskiptin hafi snúist um lágar fjárhæðir og hlutfall þóknana hafi verið óvenjulega hátt. Bendi það til þess að tilgangurinn hafi ekki verið að hagnast á viðskiptum með lögmætum hætti. „Með þessu móti gátu ákærðu stundað viðskipti margsinnis á tímabilinu 26. ágúst til og með 9. október 2020 sem voru til þess fallin að setja fram, auka eða framlengja leitni sem fólst í hækkandi verði á tímabilinu í aðdraganda þess að eignarhluti hinna tengdu félaga í Kviku banka hf. var seldur,“ segir ennfremur í ákærunni.

Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 29. október næstkomandi.

Keypti glæsihöll Antons Kristinn

Sem fyrr segir er Þórarinn Arnar Sævarsson einn eigenda fasteignasölunnar RE/MAX. Hann var nýlega í fréttum fyrir kaup á glæsihýsi Antons Kristins Þórarinssonar, við Haukanes í Garðabæ. Kaupverðið nam hátt í hálfan milljarð, 484 milljónum króna. Húsið er 621 fermetri að stærð, á tveimur hæðum og byggt árið 2023. Sjá nánar hér.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Víkingur Heiðar hlýtur verðlaun Norðurlandaráðs 2025

Víkingur Heiðar hlýtur verðlaun Norðurlandaráðs 2025
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Játning morðingja John Lennon – Ástæðan var einföld og sjálfselsk

Játning morðingja John Lennon – Ástæðan var einföld og sjálfselsk
Fréttir
Í gær

Bíræfinn þjófur rekinn úr starfi hjá Nettó

Bíræfinn þjófur rekinn úr starfi hjá Nettó
Fréttir
Í gær

Eflingarfélagar hafa áberandi lægstu tekjurnar 

Eflingarfélagar hafa áberandi lægstu tekjurnar