Réttarhöld fara fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag yfir þremur mönnum sem ákærðir eru fyrir tilraun til stórfelldra eignaspjalla og stórfelld eignaspjöll á bíl af tegundinni Tesla Model 3, ágerð 2920. Í ákæru er bíllinn sagður vera að verðmæti 5,1 milljón króna.
Atvikið átti sér stað þann 17. ágúst árið 2o23, en bíllinn stóð mannlaus, utandyra við Rekagranda í Reykjavík. Í frétt RÚV frá því daginn eftir atvikið kemur fram að bíllinn hafi verið í eigu lögreglukonu, málið sé í rannsókn héraðssaksóknara og rannsakað sé hvort skemmdarverkið hafi verið hefnd vegna starfa konunnar. Þetta mun væntanlega skýrast við réttarhöldin.
Mennirnir þrír bera allir erlend nöfn en eru með íslenska kennitölu. Þeir eru á milli tvítugs og þrítugs en sá yngsti var þó aðeins 18 ára er atburðurinn átti sér stað. Samkvæmt heimildum DV eru mennirnir taldir vera í viðkvæmri stöðu í samfélaginu. Ef verknaðurinn tengist störfum konunnar vaknar sú spurning hvort voldugri aðilar en hinir ákærðu standi á bak við brotið. Það gæti mögulega skýrst líka við réttarhöldin.
Einn mannanna er ákærður fyrir tilraun til að valda stórfelldum eignaspjöllum með því að hafa, gegn vilyrði um 100 þúsund króna greiðslu, skvett bensíni á bílinn og reynt að kveikja í honum. Það tókst ekki.
Það tókst hins vegar í annarri tilraun að kveikja í bílnum og fyrir þann verknað eru allir þrír mennirnir ákærðir, þ.e. fyrir stórfelld eignaspjöll. Einn fyrir að skipuleggja verkið, kaupa bensín og fá áðurnefnda manninn til þess, sá fékk síðan þriðja manninn með sér í verkið og tókst þeim að kveikja í bílnum sem eyðilagðist.
Bíllinn er sagður vera að verðmæti rúmlega fimm milljónir króna en skaðabótakröfur nema samtals innan við þrjár og hálfa milljón. Annars vegar gerir Vörður tryggingar hf kröfu um bætur upp á 2.754.000 kr. og hins vegar gerir Lögreglustjórinn í Reykjavík kröfu um 538.601 kr. Það vekur þá spurningu hvort bíllinn hafi verið í eigu embættisins en það liggur ekki fyrir.
Greint verður frá réttarhöldunum í málinu síðar í dag.