fbpx
Þriðjudagur 21.október 2025
Fréttir

Faðir tvíburasystranna óttast um börn sín og lýsir átakanlegri reynslu sinni – „Það er mér sárt að skrifa þessi orð“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 20. október 2025 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flóttamanninum rússneska Gadzhi Gadzhiev, eiginkonu hans, tveggja ára syni og nýfæddum dætrum var vísað úr landi í lok september. Málið hefur vakið úlfúð vegna ungs aldurs barnanna og þeirrar hættu sem bíður fjölskyldunnar í heimalandinu.

Gadzhi hefur ritað Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra bréf sem var lesið upp fyrir hans hönd á opnum fundi Samfylkingarinnar um helgina.

„Ég heiti Gadzhi, og ég er frá Dagestan, héraði sem enn er undir hernámi Rússlands. Það er með sársauka í hjarta sem ég ávarpa þig, ekki sem stjórnmálamann, heldur sem manneskju.“

Sætti hrottalegum pyntingum

Gadzhi lýsir því að árið 2016 var hann numinn af brott af rússneskum sérsveitarmönnum í Dagestan og úrskurðaður án dóms og laga í fimm ára fangelsi. Hann var sendur í fangabúðir í Síberíu þar sem hann eyddi tæplega fjórum árum í einangrun þar sem hann varð fyrir andlegum, líkamlegum og kynferðislegum pyntingum.

Árið 2021 var hann leystur úr haldi en þurfti áfram að sæta ströngu eftirliti. Hann varð reglulega að gera grein fyrir sér á lögreglustöð, sætti daglegu stofufangelsi og var meinað að yfirgefa heimabæinn sinn. Eins var honum neitað um vegabréf.

Honum tókst að flýja land árið 2022, skömmu fyrir almenna herkvaðningu í Rússlandi. Skömmu eftir flóttann komu útsendarar leyniþjónustunnar á heimili föður hans og kröfðust þess að fá að vita hvar Gadzhi væri niðurkominn.

Gadzhi var þá kominn til Tyrklands þar sem hann dvaldi í tvö ár. Þar fær fólk frá Kákasus-svæðinu ekki dvalarleyfi og sætir mismunun. Eiginkona hans eignaðist þar son þeirra og bjuggu þau í mikilli örbirgð. Fjölskyldan sá enga framtíð í Tyrklandi og ákvað að leita verndar á Íslandi, landi sem er annálað fyrir þá virðingu sem það ber fyrir mannréttindum. Gadzhi hafði þegar tengsl við landið en móðir hans og systkin höfðu fengið hér vernd vegna pólitískra ofsókna.

Árið 2024 flaug fjölskyldan til Bosníu, fór þaðan til Króatíu, svo í gegnum Ungverjaland og loks komust þau til Íslands. Umsókn þeirra um hæli var þó hafnað.

„Mál okkar var á borði starfsmanns ríkislögreglustjóra, Olgu að nafni. Hún sagði ítrekað við mig og eiginkonu mína – sem þá var ófrísk af tvíburum og á áhættumeðgöngu – að „hún skuli ekki fá að fæða hér.“

Í viðurvist eiginkonu minnar, sem var í afar viðkvæmu og streitumiklu ástandi, sagði Olga að við værum hér í ólöglegri dvöl og að hún myndi persónulega sjá til þess að við yrðum send til Rússlands.

Þessi orð særðu okkur djúpt og vöktu mikinn ótta, sérstaklega hjá eiginkonu minni, sem var þegar í hættu á að missa fóstrin. Þrátt fyrir skýr læknisvottorð sem sögðu að hún væri ekki ferðabær, vísaði Olga þeim á bug sem „óhæfum“ og hélt því fram að „sjálfstæður sérfræðingur“ hefði metið þau ógild. Enn þann dag í dag veit ég ekki hver þessi svokallaði sérfræðingur var, né hvers vegna álit læknisins var hunsað.“

Af fæðingardeild í kakkalakkaherbergi

Eftir að mál fjölskyldunnar vakti athygli í fjölmiðlum og aðgerðarsinnar höfðu lagt henni lið fengu þau leyfi til að dvelja á Íslandi þar til eftir fæðingu. Tvíburasysturnar komu í heiminn með keisaraskurði þann 15. september. Eiginkona Gadzhi var útskrifuð af sjúkrahúsi tveimur dögum síðar. Hafði fjölskyldan þá samband við áðurnefnda Olgu til að fá hjálp. Þau sendu henni erindi 22. september en fengu tveimur dögum síðar tilkynningu um að Olga væri í stuttri utanlandsferð og myndi hafa samband fljótlega.

Þann 29. september réðist lögreglan inn á heimilið, tók af þeim farsíma og þau voru handtekin. Degi síðar voru þau flutt með einkaþotu til Króatíu án þess að fá að ræða við lögmann. Þar voru þau svo vistuð í flóttamannabúðum, í lokuðu herbergi með kakkalökkum. Eiginkona Gadzhi var enn að jafna sig eftir keisaraskurð og tvíburasysturnar voru tveggja vikna.

Gadzhi veltir fyrir sér hvort offorsið við brottvísunina tengist því að þann 4. október hefði fjölskyldan átt rétt á efnislegri meðferð hælisumsóknar sinnar.

Aftur í krumlur Pútíns

Fjölskyldan reiknar með að Króatía muni brottvísa þeim og senda til Rússlands, aftur í krumlur Pútíns.

„Það er mér sárt að skrifa þessi orð. Ég kom til Íslands með þá einu von að finna öryggi og mannlega reisn, eitthvað sem okkur hafði verið neitað um í Rússlandi.

En nú virðist sem að ríki Evrópu taki þátt í mannfjandsamlegri stefnu Pútíns og neiti okkur um að vera manneskjur“

Gadzhi biðlar til Kristrúnar og ríkisstjórnarinnar að beita sér í máli fjölskyldunnar og að rannsaka gjörðir starfsmanna ríkislögreglustjóra.

Sjálfur segist Gadzhi ekki óttast frekari pyntingar í Rússlandi enda hafi hann þegar gengið í gegnum slíkt. Hann óttast um börnin sín.

„Það sem er öllu alvarlegra er það hver örlög barna minna verða, hvort við eiginkona mín fáum nokkurn tímann að sjá þau aftur eftir að við verðum skilin að frá þeim. Hvort þau endi á munaðarleysingjahæli og fái nokkurn tímann að sameinast okkur á ný.

Við biðjum ekki um neina vorkunn. Við biðjum aðeins um réttlæti, öryggi og mannlega reisn.“

Móðir Gadzhi var áður leiðtogi kvennhreyfingar og gegndi opinberu embætti þar sem hún gagnrýndi Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Rétt áður en hún flúði land flutti móðir hans ræðu í höfuðborg Dagastan þar sem hún fordæmdi Pútín og kallaði hann hryðjuverkamann. Hún flúði og fór svo huldu höfði. Til að reyna að komast að því hvar hún héldi sig ákváðu rússnesk yfirvöld að handsama Gadzhi og pynta úr honum upplýsingar.

Gera eftirfarandi kröfur

Samtökin No Borders deila bréfi Gadzhi með fjölmiðlum og gera eftirfarandi kröfur til ríkisstjórnarinnar:

„1. Ríkisstjórnin beiti öllum ráðum til að tryggja að fjölskyldan verði ekki send til Rússlands frá Króatíu, þar sem hún sætir pólitískum ofsóknum og yfirvofandi hættu á pyntingum, frelsissviptingu og lífláti.

2. Fjölskyldunni verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur með samþykki Alþingis.

3. Íslensk stjórnvöld leiti allra leiða til að koma fjölskyldunni aftur heim til Íslands. Svo sem með samskiptum við króatísk stjórnvöld um að flytja ábyrgðina á umsókn þeirra til Íslands skv. Dyflinnarreglugerðinni, afturköllun á úrskurði kærunefndar, veitingu dvalarleyfa eða öðrum úrræðum.

4. Ríkisstjórnin fari að lögum og virði 42. grein útlendingalaga – banni við því að senda fólk þangað sem lífi þeirra er ógnað.

5. Fallið verði frá frekari lagasetningu sem hefur kerfisbundið rýrt réttindi fólks á flótta. Afnema þarf lagabreytingar frá 2023 og 2024 sem
 eiddu til þessa máls og annarra sambærilegra. “

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Teslu-brunamálið: Réttarhöldum lokað eftir að þau hófust – Sakborningur og brotaþoli fengu neyðarhnapp að ákvörðun lögreglu

Teslu-brunamálið: Réttarhöldum lokað eftir að þau hófust – Sakborningur og brotaþoli fengu neyðarhnapp að ákvörðun lögreglu
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Staðan aldrei erfiðari – „Dæmi um að greiða þurfi foreldrum og forráðamönnum fyrir að taka þátt í fjáröflunarverkefnum“

Staðan aldrei erfiðari – „Dæmi um að greiða þurfi foreldrum og forráðamönnum fyrir að taka þátt í fjáröflunarverkefnum“