

Að sögn Kirkjugarða Reykjavíkur er yfirvofandi að það þurfi að loka líkhúsinu í Fossvogi. Fjárhagurinn er mjög bágborinn og reksturinn hefur ekki staðið undir sér í mörg ár. Þegar hafa tvö líkhús lokað að undanförnu.
Geymsla líka og erfið staða líkhúsa um langt skeið hefur verið til umræðu að undanförnu. Hefur Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, lagt fram frumvarp þess efnis að líkhúsum verði heimilt að innheimta gjald fyrir geymslu líka.
Í minnisblaði ráðuneytisins um stöðu líkhúsa kemur meðal annars fram hversu erfiðlega hefur gengið að reka líkhúsið í Fossvogskirkjugarði á undanförnum árum vegna fjárskorts. En Kirkjugarðar Reykjavíkur, sem reka líkhúsið, jarða um helming allra látinna í landinu.
Í minnisblaðinu kemur fram að frá árinu 2011 hafi verið viðvarandi og síendurtekinn niðurskurður í framlagi til reksturs lögbundinna verkefna kirkjugarða. Það er um 3,5 milljarðar króna á þessu tímabili.
Hafa Kirkjugarðar Reykjavíkur frestað viðhaldsverkefnum, skorið niður í umhirðukostnaði og fækkað starfsfólki þrátt fyrir að verkefnunum hafi fjölgað og garðarnir stækkað. Hafa garðarnir reynt að sækja sér aukið fé, til dæmis með því að bjóða upp á gufuþvott á legsteinum, réttun legsteina og fleira.
„Nú er komið að þolmörkum og uppsafnaður vandi blasir við. Taka þarf ákvörðun um að loka líkhúsi og athafnarýmum ef fram heldur sem horfir,“ segir í minnisblaðinu.
Fyrir liggi að kirkjan í Fossvogskirkjugarði þarfnist viðhalds sem nemi 150 til 200 milljóna króna. Rekstur Kirkjugarða Reykjavíkur mun ekki geta staðið undir því.
„Sem dæmi um stöðu fasteigna var einfalt gler í morknum gluggum sem nú er verið að láta laga en KGR hefur þurft að fjármagna það viðhald að hluta með því að taka yfirdráttarlán hjá viðskiptabanka sínum,“ segir í minnisblaðinu.
Er þetta þegar byrjað að hafa áhrif á starfsemina. Einu húsi í garðinum var lokað vegna þess að það var nánast ónýtt og fyrstigeymslu fyrir lík var lokað á síðasta ári. En á bilinu 1800 til 1900 lík koma í líkhúsið á hverju ári, eða um 65 til 70 prósent heildarfjölda látinna.
„Nú liggja fyrir drög að frumvarpi til fjárlaga þar sem gert er ráð fyrir 2,3% hækkun framlags til reksturs kirkjugarða í landinu. Á sama tíma er hækkun verðlags um 4% og hækkun launataxta í kringum 3,5%. Á sama tíma hefur andlátum fjölgað og fleiri fermetrar til umhirðu. Því er gert ráð fyrir ennnþá meiri niðurskurði á næsta á,“ segir í minnisblaðinu. Kostnaður við reksturinn sé um 40 milljónir króna á ári. Búnaðurinn sé gamall og úr sér genginn og líkhúsið löngu sprungið, enda var það miðað við fjölda líka fyrir áratugum síðan.
„Á sama tíma hefur öðrum líkhúsum verið lokað. Líkhúsinu í Kirkjugarðinum í Hafnarfirði var lokað fyrir tveimur árum síðan, auk þess hefur hjúkrunarheimilið Grund lokað líkhúsi og ekki er gert ráð fyrir líkhúsi i neinu þeirra hjúkrunarheimila sem rekin eru á Höfuðborgarsvæðinu,“ segir í blaðinu.