fbpx
Fimmtudagur 16.október 2025
Fréttir

Yfirmaður um ástandið á bráðamóttökunni – „Við getum auðvitað ekki sagt þeim að bíða úti á plani“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 16. október 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Á hverjum tíma núna er að meðaltali 150% nýting á bráðamóttökunni, fer stundum upp í svona 180-190%, þ.e.a.s. í hverju plássi eru þá tveir einstaklingar. Við getum auðvitað ekki sagt þeim að bíða úti á plani, þannig að einhvers staðar verða þeir að bíða og við erum hreinlega í vandræðum með þetta húsnæði,“ segir Rafn Benediktsson, framkvæmdastjóri bráða-, lyflækninga- og endurhæfingaþjónustu Landspítala, um ástandið á bráðamóttökunni.

Rafn var í viðtali á Bylgjunni í morgun. Ástandið á bráðamóttökunni hefur verið sérstaklega erfitt að undanförnu, langur biðtími og skortur á aðstöðu til að læknar og hjúkrunarfræðingar geti rætt við sjúklinga í næði. Rafn segir að vandinn sé ekki skortur á starfsfólki heldur „bakflæðisvandi“ innan spítalans, þ.e. að erfiðlega gengur að útskrifa fólk frá öðrum deildum.

„Grunnforsendan eða vandamálið er í hinum endanum á spítalanum, þar sem okkur gengur illa að útskrifa fólk þegar við erum búin að ljúka læknisfræðilegri þjónustu og það veldur þá í rauninni svona bakflæði og svo brjóstsviða á bráðamáttökunni þar sem stíflast allt frá útgöngudyrunum og svo alla leið að forstofunni hjá okkur á bráðamóttökunni. Þetta er mjög löng saga og flókin og snýst þá um aðbúnað og aðstöðu fyrir þá sem eru kannski eldri og er búið að sinna á spítalanum.“

Heimir Karlsson á Bylgjunni kom með dæmi um mann sem kemur með gat á höfðinu á bráðamóttökuna og spurði: „Af hverju er ekki hægt að sauma á mér hausinn þó að það sé einhver sem getur ekki útskrifast á deild langt í burtu á spítalanum?“

Rafn segir: „Það snýst bara hreinlega um það að húsnæðið er of lítið. Það er ekki lengur mannekla á bráðamóttökunni, þannig að þetta horfir til betri vegar og við viljum vissulega reyna að breyta þessu, bæði með  hvernig við vinnum og eins erum við svo heppin að það er búið að ákveða að byggja þarna nýja einingu við hliðina á bráðamóttökunni. Þannig að við fáum stærra húsnæði, við munum nota það tækifæri til að gera talsvert miklar breytingar á hvernig starfsemin virkar en samt á hverjum tíma núna, eins og staðan er akkúrat núna, þá er mjög stór hluti þeirra sem eru staddir á bráðamóttökunni fólk sem er að bíða eftir því að geta verið lagt inn.“

Segir Rafn að með stærra húsnæði, sem ætti að koma með vorinu, sé stefnt að því að flokka þá sem koma inn á bráðamóttökuna, t.d. greina á milli þeirra sem fá afgreiðslu og staðnum og þeirra sem þurfa að leggjast inn.

Hann segir að mannekla heyri sögunni til enda hafi fimm nýir bráðalæknar útskrifast í sumar. Þrengsli vegna „bakflæðisvanda“ innan spítalans séu helsta orsökin fyrir vandanum.

„Meðalafgreiðslutími þeirra er kannski um fjórir tímar, fjórir fimm tímar, eitthvað svoleiðis, reyndar innan við fjórir ef við tökum miðgildið. Þannig að það gengur mjög vel. Það eru hlutir sem fúnkera fínt. En svo er fólkið sem þarf aðeins meiri þjónustu og við erum lengur að vinna úr og rannsaka, það lendir í veseni,“ segir Rafn. Hlusta má á viðtalið hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Dómur fallinn í stóra skiltamáli Ormsson – „Böl verður ekki bætt með því að benda á eitthvað annað“

Dómur fallinn í stóra skiltamáli Ormsson – „Böl verður ekki bætt með því að benda á eitthvað annað“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Flosi afar svartsýnn eftir komu á Landspítalann – „Þá tók ég stjórnina“

Flosi afar svartsýnn eftir komu á Landspítalann – „Þá tók ég stjórnina“