Samkeppniseftirlitið hefur gefið út tilkynningu þar sem ítrekað er að keppinautar á viðskiptabankamarkaði taki sjálfstæðar ákvarðanir. Eftir nýfallinn dóm í vaxtamálinu svokallaða sagði Kári S. Friðriksson hagfræðingur Arion banka það líklegt að bankarnir myndu hækka vexti til að verja sig fyrir sveiflum.
Tilkynning Samkeppniseftirlitsins er viðbragð við þessum orðum. Ítrekað er að allt samráð sé bannað.
„Í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands í máli Neytendasamtakanna gegn Íslandsbanka hefur sprottið umræða um möguleg áhrif dómsins um vaxtakjör til framtíðar. Í einhverjum tilvikum hafa starfsmenn eða stjórnendur bankanna leitt að því líkur að dómurinn muni leiða til hækkunar vaxta,“ segir í tilkynningunni. „Af þessu tilefni áréttar Samkeppniseftirlitið að gera verður þá kröfu til keppinauta á viðskiptabankamarkaði að þeir taki sjálfstæðar ákvarðanir um vaxtakjör sín. Starfsmenn og stjórnendur viðskiptabanka ættu undir engum kringumstæðum að miðla upplýsingum til keppinauta um fyrirhugaðar eða líklegar breytingar á vaxtakjörum, hvorki opinberlega, á vettvangi hagsmunasamtaka, milliliðalaust, né með öðrum hætti.“
Kári hafði sagt í samtali við mbl.is í gær að líkur væru á að hinn nýfallni dómur í máli Neytendasamtakanna gegn Íslandsbanka vegna vaxtamála, þar sem skilmálar breytilegra vaxta voru ógiltir, myndu leiða til þess að bankarnir myndu hækka vexti.
„Ég geri fastlega ráð fyrir því að ef lán verð hér eftir miðuð við stýrivexti, plús einhvers fasts álags bankanna, þá felst í því aukin áhætta fyrir bankana. Því mun annað hvort þurfa að hækka vexti eða að bjóða eingöngu upp á stutta fjármögnun í einu. Þetta mun því væntanlega vera aukinn kostnaður fyrir neytendur,“ sagði Kári.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í færslu á Facebook í dag að þetta væri grafalvarlegt og ólöglegt.
„Þetta er grafalvarlegt. Svona merkjasendingar eru að mínu mati ólöglegar! Til eru margvíslegar aðrar leiðir til að bregðast við aðrar en að hækka verð. Ég lít á þetta sem merkjasendingu um framtíðarhegðun á markaði til þess gert að hækka vexti, og í samkeppnislögum segir að starfsmaður sem hvetur til samstilltra aðgerða sem geta leitt til ólöglegrar samræmingar milli samkeppnisaðila skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum. Samkeppniseftirlitinu hefur verið tilkynnt um málið,“ sagði Breki.
Samkeppniseftirlitið virðist taka undir þessi orð Breka. En í tilkynningu þess segir enn fremur:
„Samkeppnislög banna hvers konar samráð milli fyrirtækja sem hefur það að markmiði eða af því leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða hún takmörkuð. Það getur til dæmis talist til ólögmæts samráðs ef keppinautar ræða saman um væntanlegar verðhækkanir eða miðla upplýsingum um það hver til annars, t.d. í fjölmiðlum.“
Og enn fremur:
„Fyrirtæki og hagsmunasamtök þeirra mega vænta þess að Samkeppniseftirlitið taki vísbendingar um samkeppnishamlandi háttsemi sem hér er lýst til alvarlegrar athugunar. Brot á samkeppnislögum geta varðað ströngum viðurlögum.“