Steinþór lýsir þessu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir margt einstakt vera við íslenska fánann.
„Björtu litirnir, táknin og sagan sem hann ber með sér segja meira en þúsund orð. Íslenski fáninn er tákn sjálfstæðis, samstöðu og stolts þjóðar. Að mínu mati er fáninn okkar fallegasti fáni heims. Við Íslendingar drögum hann með stolti að húni á þjóðhátíðardaginn, við stórar stundir þegar við gleðjumst og á sorgarstundum. En mér finnst tímabært að sjá hann blakta oftar og lengur – við heimili okkar, fyrirtæki og stofnanir,“ segir Steinþór meðal annars.
Hann segir að á björtum sumarnóttum, þegar sólin varla sest og landið okkar er í sínu fegursta ljósi, væri eðlilegt að leyfa fánanum að vera uppi allan sólarhringinn.
„Ég legg því til að Alþingi endurskoði núgildandi reglur um fánadaga og þann tíma dags sem heimilt er að hafa fánann við hún. Breytingin væri einföld en táknræn: að heimilt verði að hafa þjóðfánann uppi allan sólarhringinn frá 15. maí til 15. september,“ segir hann.
Að mati Steinþórs væri þetta fallegur virðingarvottur við landið, sumarið og þjóðina sjálfa.
„Leyfum okkur að njóta þessa tákns oftar – drögum íslenska fánann að húni, ekki aðeins þegar við fögnum eða syrgjum, heldur líka til að minna okkur á hver við erum. Ég mun senda tölvupóst til allra 63 þingmanna Alþingis Íslendinga og óska eftir stuðningi þeirra eða afstöðu til málsins. Ég læt vita hvaða svör berast.“