fbpx
Miðvikudagur 15.október 2025
Fréttir

Fjölskyldudrama í Landsrétti – Greip í taumana þegar aldraður faðir hans kynntist nýrri vinkonu og há upphæð hvarf af bankareikningi hans

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 15. október 2025 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að 85 ára gamall karlmaður verði sviptur fjárræði sínu til þriggja ára. Í úrskurðinum kemur fram að það hafi verið einkasonur mannsins sem sótti málið og byggist niðurstaðan á því að maðurinn hafi greinst með heilabilun, sé meðskert minni og hafa að auki háð glímu við Bakkus um talsvert skeið.

Þá kemur ennfremur fram í úrskurðinum að það hafi verið áhyggjur sonarins af úttektum af bankareikningi föðursins sem hafi gert það að verkum að hann hafi einhent sér í það að fá hann fjárræðissviptan en úttektirnar hófust eftir að ónafngreind kona fluttist inn til föðursins til að annast hans.

Umtalsverð upphæð horfin

Feðgarnir eru sagðir eiga gott samband. Þeir tali reglulega saman í síma og sonurinn heimsæki föður sinn reglulega. Undanfarin ár hafi sonurinn svo aðstoðað föður sinn við ýmsa skriffinnsku og stærri fjárhagslegar ákvarðanir. Hann hafi umboð til þess frá föður sínum og var það ekki síst mikilvægt í ljósi þess að faðirinn hvorki á né kann á snjallsíma. Þá muni hann engin leyninúmer og þurfi því á slíkri aðstoð að halda.

Í úrskurðinum kemur fram að faðirinn hafi árið 2020 kynnst nýrri konu. Ágæt kynni hafi tekist á með þeim en að endingu var hún farin að dvelja flestar nætur á heimili hans þrátt fyrir að eiga eigin íbúð. Á sama tíma versnaði ástand föðursins, minnisglöpin urðu meira áberandi og hann missti til að mynda ökuréttindi sín árið 2022.

Síðastliðið vor hafi sonurinn svo tekið eftir því að umtalsverða fjármuni vantaði á bankareikning föðursins. Þá kom í ljós að há upphæð hefði verið millifærð af reikningum til þess að kaupa bíl handa nýju konunni. Þá hafði umboð sonarins verið afturkallað sem og prókúra hans á reikningana. Eftir að sonurinn gekk á konuna, sem hún brást illa við, hafi hann orðið sannfærður um að faðir hans væri að verða fyrir fjárhagslegri misneytingu. Hafi hann því ákveðið að tryggja hagsmuni föður síns og leggja fram beiðnina um fjárræðissviptingu.

Vissi ekki hvaða mánuður né ár var

Í úrskurðinum kemur fram að faðirinn hafi gripið til varna og reynt að verjast sviptingunni. Sagði hann fyrir dómi að hann væri fullfær að sjá um sín mál sjálfur með aðstoð nýju konunnar og hann minntist þess ekki að sonurinn hafi aðstoðað hann við nokkurn hlut. Þegar hann var spurður út í hvort að hann hafi látið nýju konuna fá einhverja fjármuni þá taldi hann svo ekki vera en mögulega hefði hann aðstoðað hana við að kaupa bíl. Þá fór hann rangt með aldur sinn fyrir dómi, vissi ekki hvaða mánuður né ár var, mundi ekki símanúmer sitt né hver væri forseti Íslands eða forsætisráðherra. Þá sagðist hann vera í viðskiptum við Búnaðarbankann og hafði ekki hugmynd um hversu há framfærsla hans frá Tryggingastofnun væri á mánuði.

Flutti inn út af öllu skutlinu

Nýja konan gaf einnig skýrslu fyrir dómi.  Þar kom fram að hún hefði kynnst föðurnum í einhverskonar tómstundastarfi. Þegar faðirinn missti ökuréttindin hafi málin þróast svo að hún hafi sótt hann daglega til þátttöku í umræddu starfi. Þá hafi verið um svo mikla keyrslu fram og tilbaka að ræða að þau hafi ákveðið að það væri farsælasta að hún byggi bara hjá honum. Þá játaði hún fúslega að faðirinn hefði greitt þriðjung kaupverðs bifreiðar hennar þar sem hún réð ekki við kaupin sjálf.

„Hún kvað heilsufar varnaraðila vera mjög gott en minni hans aðeins gloppótt. Hún taldi enga ástæðu til að svipta hann fjárræði og kvað hann vel geta séð um sín fjármál sjálfur. Hann geti vel notað sín rafrænu skilríki sjálfur og sé með þau númer sem til þurfi skrifuð hjá sér. Aðspurð kvaðst hún einnig hafa fullan aðgang að netbanka hans og geti aðstoðað hann ef þörf krefji. Þá hafi frændi hennar einnig aðstoðað varnaraðila og varnaraðili vilji það frekar en að sóknaraðili [sonurinn] aðstoði hann,“ segir í dómi.

Þá flutti öldrunarlæknir, sem skoðaði föðurinn, einnig skýrslu fyrir dómi. Niðurstaðan var, eins og áður segir, sú að tvö dómsstig féllust á það að faðirinn yrði fjárræðissviptur til þriggja ára. Sonurinn, sem nánasti ættingi, mun því annast öll hans mál.

Hér má lesa dóminn í heild sinni

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Reynir Trausta dæmdur fyrir meiðyrði – Nafngreindi rangan mann í tengslum við alvarlega stunguárás

Reynir Trausta dæmdur fyrir meiðyrði – Nafngreindi rangan mann í tengslum við alvarlega stunguárás
Fréttir
Í gær

Fær skilorðsbundinn dóm fyrir stórhættulega hnífstunguárás á Seltjarnarnesi – Hefur bætt ráð sitt og lokið námi

Fær skilorðsbundinn dóm fyrir stórhættulega hnífstunguárás á Seltjarnarnesi – Hefur bætt ráð sitt og lokið námi
Fréttir
Í gær

Haraldur vonlítill um að hægt sé að snúa þróuninni við – „Margir telja að nú sé að draga úr straumnum“

Haraldur vonlítill um að hægt sé að snúa þróuninni við – „Margir telja að nú sé að draga úr straumnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Náði ekki að klára áfanga við Háskóla Íslands og missti þannig réttinn til fæðingarstyrks námsmanna

Náði ekki að klára áfanga við Háskóla Íslands og missti þannig réttinn til fæðingarstyrks námsmanna